151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[14:20]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Virðulegi forseti. Það var einn þriðjudag í júnímánuði árið 1999 að ég steig í fyrsta sinn í þessa góðu pontu hér á þingi, þá komin átta mánuði á leið. Þetta var við aðrar aðstæður og reyndar í allt öðrum flokki. Þarna var aðeins yngri kona á ferð, full bjartsýni, að taka sín fyrstu skref á Alþingi á þessum pólitíska vettvangi, sem er mér mjög kær. Í þinginu stóð yfir umræða um breytingar á stjórnarskipunarlögum, á stjórnarskránni, sem fólu í sér margvíslegar breytingar í rétta átt. Og alveg eins og á árinu 1995, þá urðu umfangsmiklar breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Þarna í júnímánuði 1999 lýsti ég yfir vonbrigðum mínum með að enn jafnara atkvæðavægi hefði ekki náðst með atkvæðaréttinn. Þar sagði ég, með leyfi forseta:

„Réttur hvers manns til að kjósa sér fulltrúa á löggjafarþing landsins, Alþingi, er einn mikilvægasti hlekkurinn í lýðræðiskeðju okkar Íslendinga. Slíkur réttur er ekki og á ekki að vera verslunarvara í pólitísku dægurþrasi. Vissulega þarf að gæta að byggð í landinu og reyna að jafna aðstöðumun hinna dreifðu byggða landsins. En það verður ekki gert með því að meta kosningarrétt einstaklinganna á mismunandi hátt. Hann verður ekki metinn í krónum, vöttum eða kílóriðum. Kosningarrétturinn á að vera fyrirvaralaus.“

Þessi ræða var sem sagt haldin á síðustu öld, fyrir 21 ári síðan. Þessum sjónarmiðum hef ég haldið á lofti allar götur síðan og þau eru nú m.a. í grunnstefnu Viðreisnar. Breytingarnar sem ég vonaðist eftir að sjá þegar ég var að stíga þessi fyrstu skref hafa því miður ekki enn litið dagsins ljós, mögulega vegna þess að ekki hefur beinlínis verið vilji hjá rótgrónu flokkunum, fjórflokknum á sínum tíma, til að innleiða þetta mikilvæga mannréttinda- og frelsismál í íslenska löggjöf. Það hefur einfaldlega ekki verið pólitískur vilji til breytinga. Vissulega hafa verið hér flokkar í gegnum tíðina, Alþýðuflokkurinn, Bandalag jafnaðarmanna, Björt framtíð og fleiri flokkar sem lagt hafa áherslu á þetta atriði, en mögulega tengist þessi tregða sömu öflum, sömu flokkum og sömu bakhjörlum, að mínu mati ef ég lít yfir söguna, sem hagnast mest á þessu ójafna atkvæðavægi þegar upp er staðið. Það er ekki þannig að mínu mati að íbúar landsbyggðarinnar njóti góðs af því umfram höfuðborgina, heldur eru þarna þungir og miklir hagsmunir og menn skýla sér kannski á bak við þann mikla velvilja sem allir hafa til byggðar um land allt og vilja styðja við byggðina.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að landið eigi að vera eitt kjördæmi, en til þess þarf að breyta stjórnarskránni. Það hefur ekki verið nokkur möguleiki eða von til þess að hrófla við atkvæðavæginu, hvað þá kjördæmaskipaninni, í þeirri stjórnarskrárvinnu sem á sér stað núna á meðal okkar. Það var samkomulag á milli okkar að reyna að taka þetta í ákveðnum skrefum á þessum tveimur kjörtímabilum og miðar hægt, því er nú verr og miður. Landið eitt kjördæmi? Já, segi ég. Það er margt sem fengist út úr því. Ég tel að ábyrgðarhluti hvers og eins þingmanns og hvers og eins flokks varðandi það að taka tillit til heildarinnar, yrði mun meiri. Ég er líka sannfærð um að stór mál sem flokkuð hafa verið sem kjördæmamál, hægt er að tala um hafnarframkvæmdir í Þorlákshöfn, Teigsskóg eða flughlað á Egilsstöðum, eru öll mál sem farið hefðu hraðar í gegn ef við byggjum við jafnt atkvæðavægi.

Það er eindregin skoðun okkar í Viðreisn að jafn atkvæðisréttur undirstriki grundvallarmannréttindi í íslensku samfélagi, algjörlega óháð efnahag, óháð kyni, óháð búsetu. Misvægið sjálft fer gegn frelsinu. Saga misvægis atkvæða er að mínu mati ákveðin saga pólitískra hrossakaupa. Það er kominn tími til að slá botn í þá sögu og skrúfa rækilega fyrir þá sérhagsmuni sem þar fylgja. Kosningarréttur fólks, einstaklinga, má ekki vera skiptimynt á hinu pólitíska sviði. Sama atkvæðavægi á að gilda á milli landsmanna, hvar sem þeir búa á landinu. Kosningarrétturinn er algildur. Aðeins þannig verða þingmenn raunverulega þingmenn allra landsmanna. Slíkt eykur samkennd. Það eykur skilning, samstarf og það eykur yfirsýn og ýtir undir að þingmenn vinni að framfaramálum fyrir land allt. Heildin á að vera það sem þingmenn hafa hugann við.

Misvægi atkvæða og kjördæmaskiptingin er því að vissu leyti saga fortíðar. Við skulum virða hana, en við erum komin inn í nútíðina og horfum til framtíðar. Þess vegna leggjum við til þessar breytingar. Í lýðræðisríki verða allir einstaklingar, sama hvaða hópi þeir tilheyra, að hafa jafna möguleika til að kjósa og vera sjálfir kjörnir. Með leyfi forseta, segir í skýrslu sem unnin var fyrir stjórnlaganefnd um jafnt vægi atkvæða:

„Jafnræði þegnanna til að hafa pólitísk áhrif er meðal grundvallaratriða lýðræðisins og borgaralegra réttinda.“

Þessu er erfitt að andmæla. Mismunandi vægi atkvæða eftir kjördæmum má líkja við það að trúfrelsi og tjáningarfrelsi væri ólíkt á milli kjördæma. Þetta eru sömu grundvallarmannréttindi. Ég hygg að fáir myndu sætta sig við slíkt ójafnvægi. Með sömu rökum ætti enginn að sætta sig við búsetubundna mismunun á atkvæði sínu.

Í þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs á sínum tíma og síðan í niðurstöðum viðhorfskönnunar Félagsvísindastofnunar var svokölluð rökræðukönnun, stór og mikil, sem við formennirnir sem erum að fara yfir stjórnarskrána báðum Félagsvísindastofnun um að gera. Þar kom fram eindreginn vilji þjóðarinnar til að endurskoða það ranglæti sem felst í misvægi atkvæða. Það var eindregið, mjög skýrt. Það var eiginlega tvennt sem kom afgerandi fram í rökræðukönnuninni í þessari vinnu. Það var annars vegar að fólkið vill almennilegt auðlindaákvæði sem eitthvert bit er í, sem hefur þýðingu, sem ver sameign þjóðarinnar, fiskveiðiauðlindina og aðrar auðlindir landsins. Og hins vegar að jafna eigi atkvæðavægi. Þetta voru alveg skýr skilaboð. Þess vegna eru það viss vonbrigði að ekki hafi verið vilji hjá hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórninni til að endurskoða þá ákvörðun að láta jafnt vægi atkvæða bíða til næsta kjörtímabils. Það fólst í samkomulagi milli flokkanna. Mér fannst sárt að bíða með það fram á næsta kjörtímabil, en ég sætti mig við það af því að það voru önnur framfaramál eins og almennilegt auðlindaákvæði sem við áttum að fá í staðinn. Við áttum að fá ákvæði sem tengjast framsali og við áttum að ræða og fara yfir í breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Svo sjáum við hvernig því vindur fram.

Virðulegi forseti. Þegar við skoðum söguna, þegar við skoðum gögn aftur í tímann, ræður, alþjóðlegar áherslur, lýðræðislegar áherslur — og auðvitað hafa þær breyst frá áratug til áratugar, hvað þá milli alda — þá er það skýrt að einn einstaklingur þýðir eitt atkvæði. Það er grunnurinn að lýðræðinu. Tjáningarfrelsi og rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar og önnur mannréttindi eru jöfn og algild án tillits til þess hvar á landinu einstaklingar eiga lögheimili. Og þetta er það sem ég sagði: Við myndum ekki sætta okkur við að það væri búsetutengt hvort við hefðum trúfrelsi eða tjáningarfrelsi. Það er náttúrlega fásinna og auðvitað á það sama að gilda um kosningarréttinn sjálfan.

Það er á þessum forsendum sem við í Viðreisn leggjum fram frumvarp okkar um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, um jöfnun atkvæðavægis. Að frumvarpinu standa auk mín Hanna Katrín Friðriksson, Jón Steindór Valdimarsson og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmenn Viðreisnar.

Markmið frumvarpsins er að undirstrika þau grundvallarsjónarmið að kosningarrétturinn sé undirstaða lýðræðis og að takmarkanir á honum skapi ójafnræði á milli fólks. Slíkar takmarkanir eiga sér ýmsar birtingarmyndir, allt frá því þegar vald er tekið frá almenningi og til þess að tilteknum hópum er skammtað eða fengið aukið lýðræðislegt vald umfram aðra. Merki hins síðarnefnda má finna hér á landi í ólíku vægi atkvæða milli kjördæma, ólíku vægi atkvæða eftir búsetu fólks. Og það er óþarfi í dag. Það er að mínu mati nálgun fortíðar og ekki réttlát nálgun.

Nefnd Evrópuráðsins um lýðræði með lögum, Feneyjanefndin, hefur gefið út reglur um góða starfshætti í kosningamálum. Í þeim reglum kemur m.a. fram að tryggja skuli sem jafnast vægi atkvæða, að misvægi atkvæða fari almennt ekki yfir 10% og alls ekki yfir 15% nema við sérstakar aðstæður. Á Íslandi er þessi munur á atkvæðavægi kjósenda hins vegar yfirleitt rétt undir 100%. Ástæðurnar fyrir þessum mikla mun eru tvær: Annars vegar að í stjórnarskránni er kveðið á um að kjósendur að baki hverju þingsæti í einu kjördæmi megi ekki vera helmingi færri en að baki þingsæti í öðru kjördæmi. Eins og ég gat um í upphafi breyttum við þessu árið 1999 með stjórnarskrárbreytingunum þá. Þá var misvægi atkvæða, til að mynda á milli gamla Reykjaneskjördæmis og annarra kjördæma, allt upp í tæplega fimm atkvæði á bak við hvern þingmann í Reykjaneskjördæmi á miðað við eitt atkvæði á bak við þingmann annars staðar. Það er náttúrlega hrópandi misræmi.

Hins vegar er ástæðan sú að í lögum um kosningar til Alþingis frá árinu 2000 er kveðið á um að breytingar á fjölda kjördæmissæta megi aldrei vera meiri en til að fullnægja lágmarksskilyrði stjórnarskrárinnar. Stjórnarskráin útilokar því ekki að atkvæðavægi geti verið jafnt, hún segir okkur ekki að það eigi að vera misjafnt. Hún útilokar ekki misvægi en útilokar ekki og ýtir frekar undir að atkvæðavægi geti verið jafnt. Lög um kosningar til Alþingis gera það aftur á móti með því að kveða á um að breytingar á fjölda kjördæmissæta megi ekki víkja lengra frá hinu tvöfalda vægi en nauðsyn krefur.

Af hreinum stærðfræðilegum ástæðum er ekki hægt að tryggja fyllilega jafnt vægi atkvæða án þess að afnema kjördæmaskiptinguna. En kjördæmaskipanin er, eins og ég gat um áðan, bundin í stjórnarskrá og það er snúnara, eins og fólk veit, að breyta henni. Það verður auðvitað ekki gert með almennum lögum. Það hindrar þó ekki að hægt er að jafna vægi atkvæða til muna með breytingu á lögum, en sú breyting er lögð til með þessu frumvarpi. Að okkar mati er þetta grundvallarmál.

Lengi hefur verið barist fyrir jöfnun atkvæðavægis á Íslandi. Brynjólfur Pétursson, lögfræðingur og stjórnardeildarforseti og einn Fjölnismanna, bar fram tillögu þess efnis fyrir rúmum 170 árum. Ýmsir þingmenn sem nú eru á þingi og sem hafa verið á þingi hafa lagt fram frumvörp, stjórnarskrárfrumvörp og þingsályktunartillögur með ólíkum leiðum að því marki. Atkvæðavægi íslenskra kjósenda hefur verið ójafnt frá því að fyrst var kosið til hins endurreista Alþingis árið 1844. Væginu hefur þó verið breytt nokkuð og munurinn minnkaður, en í núverandi löggjöf staðnæmist misvægishlutfallið þó rétt undir 100% mun á milli atkvæðis kjósanda að baki kjördæmakjörnum þingmanni í því kjördæmi sem atkvæði vegur þyngst, sem nú er Norðvesturkjördæmi, og því kjördæmi sem atkvæði vegur minnst, nú Suðvesturkjördæmi.

Það er rétt að benda á að það er ekki lengra síðan en í janúar 2017, að í stjórnarsáttmála hinnar skammlífu stjórnar sem þá tók við völdum, stjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, var einmitt ákvæði um þetta atriði, í stjórnarsáttmálanum sjálfum. Það var, eins og margt annað, í átt að frelsi og frjálslyndi, en því miður er búið að fenna svolítið yfir það. En þar segir, með leyfi forseta: „Kosningalöggjöf verði yfirfarin samhliða því starfi með það fyrir augum að hún verði einfaldari og miði að meira jafnræði í atkvæðavægi.“ Þarna voru menn alveg með augun á því að ganga þyrfti skref í þá átt að jafna atkvæðavægi.

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að þær breytingar sem við boðum geta vakið upp þá tilfinningu í brjósti íbúa t.d. í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi að þeir muni verða af einhverju fyrir vikið, með því að missa sinn þingmann, að ítök þeirra á þingi muni minnka. En ég vil spyrja á móti, virðulegur forseti: Skilar núverandi kjördæmaskipan, núverandi atkvæðavægi, því sem hún ætti að skila? Skilar hún því sem það fyrirkomulag sem við í Viðreisn tölum um, gæti skilað fyrir landið allt? Myndu ekki mörg stór hagsmunamál svæðanna fara skjótar í gegn ef samstaða ríkti um þau á þinginu, ef skilningur ríkti um þau á þinginu, óháð því hvar þingmaðurinn er kjörinn? Það er mín reynsla að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra ákvarðana sem við tökum hér í þinginu snerti svokölluð landsbyggðarmál.

Ég gerði það að gamni mínu í fyrra að fara í fljótheitum yfir þessi 20 ár hér á þingi. Þá sá ég að ég hafði mun oftar greitt atkvæði með svonefndum landsbyggðarmálum en málum sem tengjast beint höfuðborgarsvæðinu. Það er hægt að gagnrýna þingmenn suðvesturhornsins fyrir það, en ég held að þetta dragi fram þann skilning og þá áherslu sem ég hef fundið oftar en ekki meðal þeirra þingmanna sem eru á þessu svæði. Þeir líta oftar en ekki til landsins alls og hafa mikla ánægju af því að reyna að snerta á þeim áherslum, á þeim verkefnum sem svo sannarlega þarf að taka á á landsbyggðinni. Og til þess að það gerist er ég sannfærð um að meiri samheldni og meiri ábyrgð á því að allt landið sé undir, muni skila öllu landinu meiri framförum, skjótari ákvörðunum og að það verði ekki alltaf þetta humm og ha og þessi togstreita. Það er ekki bara togstreita á milli landsbyggðar og þéttbýlis. Ég hef ítrekað orðið vör við að togstreitan er ekki síst á milli landsbyggðarkjördæmanna sjálfra, togstreita um hagsmuni. Hver fær mest þetta ár? Hver fær mest á næsta ári? Í staðinn fyrir að við styðjum öll þau mál sem eru brýn á hverju svæði fyrir sig.

Ég vil draga fram að við í Viðreisn höfum reynt sérstaklega að breyta þessu viðhorfi. Við höfum farið reglulega um land allt í kjördæmaviku þrátt fyrir að við höfum ekki beinan fulltrúa þar, en við höfum okkar fólk, okkar fulltrúa og okkar land, af því að við teljum okkur tilheyra einni þjóð í einu landi. Þess vegna höfum við lagt okkur fram í kjördæmaviku um að fara um landið og heyra í sveitarstjórnum. Við höfum formlega, því að einhverjir segja að við höfum ekki gert það, beðið oddvita landsbyggðarkjördæmanna um að fá að taka þátt í fundum landsbyggðarþingmanna og fá að vera með til þess að hlusta á þær áherslur sem sveitarfélögin setja á formlegum fundum með landsbyggðarþingmönnum. Við teljum að því fleiri sem setja sig inn í málin og þau verkefni sem hvíla á landsbyggðinni, og það sem fólkið okkar úti á landsbyggðinni talar og berst fyrir og reynir að ýta í gegnum þingið, því fleiri sem hafi snertiflöt við þau mál, þeim mun líklegra sé að við hér inni róum öll í sömu átt í þeim framfaramálum sem við viljum að komist í gegn á landsbyggðinni. Þess vegna finnst mér það gamaldags viðhorf að ekki sé hægt að opna dyrnar fyrir þeim þingmönnum sem vilja leggja sig fram við að setja sig inn málefni á landsbyggðinni, hvort sem það er fyrir vestan, norðan, austan eða sunnan.

Þessi skekkja í aðgengi landsbyggðar að stjórnsýslu og þjónustu, sem er fyrir hendi að einhverju leyti, leiðréttist ekki í gegnum atkvæði einstaklinganna. Hvernig ætla menn að leiðrétta hana í gegnum atkvæði einstaklinganna? Það hefur nú ekki gengið ljómandi vel fram til þessa. Hún leiðréttist hins vegar með því að taka stærri skref, djarfari skref í þá átt að auka sjálfstæði sveitarfélaganna til að ráða meiru um sitt nærumhverfi. Við sjáum blessunarlega meira af sameiningum sveitarfélaga og það er ótrúlega áhugavert, nú þegar fimm sveitarfélög á Austurlandi sameinuðust, að sjá hvernig þau taka af ábyrgð á sínum málum í hinu nýja sameinaða sveitarfélagi fyrir austan og horfa svolítið inn í framtíðina. Um leið veita þau heimahéruðunum með héraðsnefndum aukin tækifæri til að taka ákvarðanir um það sem snýr að heimahögum, nærumhverfinu. Það finnst mér áhugaverð nálgun og við getum farið þann veg og við eigum að styðja sveitarfélögin um land allt að fara nákvæmlega þá leið. Við eigum að fylgjast mjög gaumgæfilega með því hvað þau fyrir austan eru að gera. Mér finnst þau hafa sýnt framsýni, djörfung og dug með að taka þátt í þessari sameiningu. Ég óska þeim góðs gengis í því að reyna að tengja þessi sveitarfélög og fela nærsveitarfélögunum ákveðið vald til að ráða sínum málum. Þannig eigum við að hugsa þetta. Við eigum að færa valdið til fólksins. Um leið eigum við að auka gegnsæi í ákvarðanatöku, stuðla að því að hugsað verði um heildina, að það sé ábyrgðarhluti að við hugsum um heildina en séum ekki alltaf í sérlausnum, sérhagsmunum einstakra stjórnmálaafla eða einstakra stórfyrirtækja.

Viðreisn mun, samhliða þessu frumvarpi, að sjálfsögðu beita sér af fullum krafti fyrir því að efla ný tækifæri, fjölga tækifærum á landsbyggðinni með það fyrir augum að ungt fólk, ekki síst, sjái tækifærin sem felast í því að setjast þar að og að fyrirtæki sjái hag sinn í því að tryggja starfsstöðvar víða um land og að hið opinbera skapi þar störf og tækifæri, t.d. með því að opna eins konar starfsstöðvar. Ekki bara með því að færa opinberar stofnanir í heilu lagi út á land, heldur gera allar opinberar stofnanir ábyrgar fyrir því með einum eða öðrum hætti að vera með störf á svæðisstöðvum víða um land. Það er hægt, við sjáum það ekki síst nú á tímum veirunnar að við getum einmitt notað tæknina og þann þrýsting sem við höfum fengið á að skila okkar í gegnum nútímatækni. Það eigum við að setja m.a. út til landsbyggðarinnar og skapa störf þannig að starfsstöðvar hins opinbera í þéttbýliskjörnum verði festa, verði ákveðinn kjarni þar sem fólki býðst að starfa og búa þá um leið þar sem það kýs. Þarna sé ég gríðarleg sóknarfæri fyrir landsbyggðina. Hið opinbera og stofnanir þess, ekki bara ein og ein heldur hluti af starfsemi þeirra, geta auðveldlega fært verkefni yfir á slíkar starfsstöðvar. Við verðum að segja af meiri festu: Við verðum að styrkja ákveðna byggðarkjarna. Þýðir það að annað verði skilið út undan? Nei, en við þurfum að byggja upp öfluga byggðarkjarna, enn öflugri en við erum að gera, og styrkja þá sérstaklega kjarna á Vestfjörðum. Við þurfum að efla Eyjafjörðinn enn frekar og taka líka Hérað og firðina sérstaklega fyrir. Síðan eru þessir sterku byggðarkjarnar á Suðurlandinu. Við þurfum að gera hvað við getum til að fjölga þannig tækifærum. Þannig sköpum við atvinnu. Atvinnutækifæri skapast ekki með því að þangað komi þingmaður á grunni misvægis. Það var áður. Það er ekki núna. Við viljum öll segja: Við erum öll í sama bátnum og við eigum öll að róa í sömu áttina. Því fleiri sem gera það, því fyrr náum við landi.

Ég man líka eftir því, sem er svona aukasaga hér, þegar ég var í skamman tíma í því annars dásamlega ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Þá ákvað ég fyrst ráðherra að flytja skrifstofuna reglulega út á land í eina viku. Ég byrjaði á Vestfjörðum og opnaði þar skrifstofu, fékk aðstöðu á Ísafirði og hafði að venju viðtalstíma ráðherra, heimsótti fyrirtæki og var með alla stjórnsýslu þar. Ráðuneytisstjórinn kom og aðstoðarmenn og þeir sérfræðingar sem á þurfti að halda hverju sinni út af ákveðnum málum. Þetta er auðvitað hægt að leysa enn betur í dag með tækninni. Svo þegar ég fór á Suðurlandið, þar sem eru náttúrlega mismunandi hópar, var ég með skrifstofuna á Hvolsvelli. Þar fylltist líka viðtalstími ráðherra einn, tveir og þrír. Ég man eftir einum sauðfjárbónda á Suðurlandi, sem var líka með kúabú, sem kom með ákveðið erindi og vildi þakka fyrir að hann hefði þar í fyrsta sinn hitt landbúnaðarráðherra til þess að tala um erindi tengt landbúnaði. Mér fundust það bara nokkur tíðindi, að manneskja af suðvesturhorninu væri fyrsti landbúnaðarráðherrann sem þessi ágæti bóndi hefði hitt á svæðinu. Ég held að þetta sýni að þetta er spurning um hugarfar okkar allra, að við breytum þessari sértæku nálgun í að við verðum með algildan kosningarrétt, sem ýtir okkur í átt að því að við höfum hagsmuni heildarinnar í huga og berum öll ábyrgð á því að landið okkar starfi og vinni sem ein þjóð í okkar dásamlega landi.

Þetta eru allt mikilvæg verkefni sem ég hef komið hér inn á. Það má kannski gagnrýna mig fyrir það í þessari ræðu að tala ekki nægilega mikið um suðvesturhornið. Það eru mörg verkefni sem bíða okkar hér og ég ætla ekki að byrja á því, við vitum alveg hver þau eru. En mér finnst við ekki komast hjá því að ræða það hvernig þessi misskipting verður afnumin, sem við höfum viðhaldið allt of lengi í kosningakerfi okkar. Þau verkefni sem ég taldi upp áðan, sem við í Viðreisn munum leggja alla okkar alúð við til að þau komist áfram, vinnast ekki með því að viðhalda þessu misjafna atkvæðavægi. Þannig byggjum við ekki upp réttlátt samfélag, virðulegur forseti. Það gerum við miklu frekar með því að byggja saman upp samfélag með samstöðu, samvinnu og gagnkvæmum skilningi á ólíkum þörfum ólíkra svæða. Þannig náum við betri árangri fyrir alla. Við berum öll ábyrgð á því. Einn einstaklingur, eitt atkvæði, er bæði sjálfsögð og réttlát krafa í nútímalýðræðissamfélagi.