151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[14:47]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þetta góða mál. Ekki veitir af, finnst mér. Ég vann dálítið við það að reyna að klambra saman einhvers konar breytingum á þessari kjördæmaskipan í upphafi þessa kjörtímabils en það gengur einfaldlega ekki upp, eins og kemur fram í frumvarpinu, ef maður ætlar að halda þessum 10% viðmiðunarmörkum um hámarksmisræmi atkvæða. Það strandar alltaf á kjördæmaskipaninni. Annaðhvort þyrfti að fækka kjördæmum eða fjölga þingmönnum, til að ná að halda 10% hlutfallinu. Markmiðið um eitt kjördæmi er alveg tvímælalaust eitthvað sem er hægt að vinna að en einnig er hægt að fjölga þingmönnum til að ná jafnara vægi. Ef það ætti að fara í eitt kjördæmi, sem ég tel að væri líklega betra skref, einfaldara skref, þá eru ákveðin vandamál sem við glímum við og hv. þingmaður fór vel yfir í ræðu sinni. Það er þetta ójafnvægi milli ríkis og sveitarfélaga. Það er þessi ótti við að missa sitt, sinn fulltrúa. Eins og hv. þingmaður fór yfir er núverandi ástand afleiðing núverandi kerfis og maður spyr sig hvort núverandi kerfi hafi virkilega borgað sig fyrir landsbyggðarkjördæmin, þrátt fyrir misvægið. Ef við ætlum að fara í þann gír að fara í átt að einu kjördæmi þá er atriði sem við þurfum að laga, þ.e. valdamisræmið á milli ríkis og sveitarfélaga, að gera sveitarstjórnastigið sjálfstæðara og þar af er fjárhagslegt sjálfstæði þess mikilvægast.