151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[14:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einfalda leiðin til að nálgast þetta, ef markmið frumvarpsins er að jafna atkvæðisrétt milli kjördæma, er auðvitað bara að deila þingsætum á kjördæmin í samræmi við fjölda kjósenda í kjördæmunum. Það myndi þýða að 8. gr. yrði breytt á þann veg að þingmenn fyrir Norðvesturkjördæmi væru þá 5, 7 fyrir Norðausturkjördæmi, 9 fyrir Suðurkjördæmi, sennilega 12 fyrir hvort Reykjavíkurkjördæmið og 18 fyrir Suðvesturkjördæmi. Það er alla vega minn útreikningur aftan á servíettu. Ég þykist vita að hv. þingmenn Viðreisnar geti leitað til einhverra stærðfræðinga sem gætu útfært þetta. Einhvern tímann voru nú stærðfræðingar í þingflokki Viðreisnar. Það væri auðvitað hægt að útfæra þetta með þessum hætti. Það væri hreinlegra að ganga þannig til verks að setja tillöguna fram þannig að það sé beinlínis sagt hverju hún eigi að skila.

Að þessu sögðu vil ég ítreka það sem ég sagði, að ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á meginmarkmiðunum. (Forseti hringir.) En ég myndi segja að ég teldi að frumvarpið sem slíkt þyrfti nú einhverrar athugunar við áður en það yrði afgreitt frá þinginu.