151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[15:00]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta ágæta mál og fyrir alveg stórfína ræðu hv. þingmanns sem ég vil taka undir í öllum meginatriðum. Það var samt eitt sem ég hjó eftir og þetta er kannski ekki gagnrýni heldur viðsnúningur á vinkli. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir talaði um það hversu fráleit sú hugmynd væri að landsbyggðarþingmenn gætu alltaf sinnt landsbyggðinni betur. Hún notaði ekki alveg þessi orð en þetta er alveg rétt. Það er ekkert lögmál sem segir að fólk af höfuðborgarsvæðinu geta ekki sinnt t.d. atvinnuvegum eða samgöngumálum jafn vel eða betur og öfugt. Það er rétt að benda á í þessu samhengi hvernig þessi dínamík hefur áhrif á þingstörfin. Það að okkur sé skipt upp í kjördæmi gerir að verkum að það fer að þykja sjálfsagt að eingöngu tveir þingmenn höfuðborgarsvæðisins séu í atvinnuveganefnd og aðeins þrír þingmenn höfuðborgarsvæðisins í umhverfis- og samgöngunefnd. Á sama tíma er ekki óalgengt, og ég segi þetta af persónulegri reynslu, að þingmenn landsbyggðarkjördæma fái jafnvel skammir ef þeir einbeita sér of mikið að heildarmálum sem snúa að öllu hagkerfi landsins, jafnvel utanríkismálum og álíka, ef þeir eru ekki nógu duglegir að sinna svokölluðu kjördæmapoti. Ef þeir fókusera ekki eingöngu á hagsmuni tiltekinna kjördæma heldur reyna að horfa á þetta heildstætt fá þeir ákveðnar skammir. Þessi dínamík er eitthvað sem við þurfum líka að taka á í þessum málum þannig að allir þingmenn séu þingmenn þjóðarinnar, alltaf.