151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[15:17]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem mér finnst vera einna best við þingið, eftir að ég skipti um starfsvettvang á gamals aldri og kom hingað, er að maður hittir hér og vinnur með fólki sem maður hefði sennilega ekki átt þess kost að starfa með ella og hefði sennilega ekki hitt ella, fólk sem er ólíkt manni sjálfum, hugsar öðruvísi en maður sjálfur, hefur annan bakgrunn jafnvel og aðhyllist aðrar hugsjónir og önnur lífsviðhorf en maður sjálfur. Það auðgar mann að eiga í samskiptum við fólk þegar þannig stendur á. Síðast en ekki síst er hér fólk sem hefur umboð sitt frá kjósendum sem eru kannski aðrir kjósendur en þeir sem ég hef umboð mitt frá. Þingmenn sem hafa ekki umboð sitt frá mér eiga það ekki undir mér hvort þeir sitja hér og þar fram eftir götunum. Það er ákaflega mikilsvert og er meðal þess sem gerir þetta mjög að mikilsverðri samkomu, þ.e. að hér safnast saman fólk úr ólíkum áttum og vinnur saman við löggjafarstörf. En þá þarf það umboð sem þetta fólk hefur að vera ótvírætt. Jöfnun atkvæðisréttar hlýtur að stuðla að því að gera umboðið ótvíræðara en nú er. Þó ekki væri nema vegna þess tel ég að þetta sé gott mál og til mikils að vinna hér.

Ég stend hér sem fulltrúi jafnaðarmanna. Þeir hafa verið í ýmsum flokkum og kvíslast á margvíslegan hátt og mér myndi ekki endast dagurinn til að rekja þá sögu alla. Ég hlýt þó að minna á að jafnaðarmenn hafa flutt sambærileg mál hér á þingi í gegnum tíðina, síðast fyrir ekki ýkja löngu síðan, árið 2015. Þá lögðu Björgvin G. Sigurðsson, Róbert Marshall, Össur Skarphéðinsson og Valgerður Bjarnadóttir fram sambærilegt mál um að gera landið að einu kjördæmi. Kannski er óþarfi að geta þess að Björgvin G. Sigurðsson var þá þingmaður Samfylkingarinnar sem einhvern veginn, af vangá held ég, fórst fyrir að nefna hér áðan í annars mjög góðri ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.

Sagan nær vissulega allt til Fjölnismanna, eins og rakið er í greinargerð, og eftir að Alþingi var endurreist má kannski minna sérstaklega á árið 1927 þegar tekist var mjög á um kjördæmaskipan. Héðinn Valdimarsson, sem þá var þingmaður Alþýðuflokksins, lagði fram frumvarp um að landið yrði eitt kjördæmi. Ég tel að Héðinn hafi verið fyrsti samfylkingarmaðurinn, að hann hafi í raun og veru verið fyrsti þingmaður Samfylkingarinnar. Hann er sá þingmaður sem reynir að sameina íslenska sósíalista og sósíaldemókrata í einum flokki og sú saga endar nú reyndar þannig að hann stendur einn á berangri. En það er önnur saga. Hann lagði sem sé einn síns liðs fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga árið 1927 um að landið yrði að einu kjördæmi. Og hann lagði þar áherslu á að jafn kosningaréttur væri mannréttindi sem ekki væri hægt að versla með og mætti ekki versla með. Hann segir m.a. í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Þar sem kjördæmaskipun hefir að mestu verið haldið óbreyttri, er afleiðingin sú, að hver kjósandi í sumum kjördæmum hefir margföld áhrif á alþingiskosningar á við kjósanda, er búsettur er í öðrum kjördæmum, og þar með margföld áhrif á stjórn landsins í heild sinni. Eftir mannrjettindakenningum þeim, er þingræðið hvílir á, eiga allir fullorðnir menn í landinu að hafa jafnrjetti í þessum málum, og mun óvíða í siðuðum löndum sveigt svo langt frá því marki eins og hjer á landi. Þetta kemur og mjög mishart niður á stjettum þjóðfélagsins, þar sem verkalýðurinn hefur safnast til sjávarins, og það er því mest verkalýðurinn, er geldur hinnar úreltu kjördæmaskipunar …“

Þetta sagði Héðinn. Vissulega hefur þetta breyst síðan og kjördæmaskipanin er ekki eins hrópandi óréttlát og hún var á þessum árum. Mig langar samt aðeins að grípa niður í þingræðu sem Héðinn hélt um málið vegna þess að ég tel að það sem hann sagði eigi enn fullt erindi í umræðuna. Hann rekur ástæður fyrir því að kjördæmaskipanin sé úrelt og talar í því sambandi um breytingar í atvinnumálum. Hann ræðir svolítið um hlutfallskosningar og fjórðungakjördæmi en hafnar þeim kostum. Síðan segir hann, með leyfi forseta:

„Til að forðast þessa galla er aðeins eitt ráð óbrigðult: að gera landið allt að einu kjördæmi, eins og nú á sér stað t.d. á Írlandi. Þá stæði á sama um alla fólksflutninga innan lands. Hver kjósandi héldi jafnan sínum fulla rjetti gagnvart hinum, og hver flokkur kæmi mönnum á þing í rjettu hlutfalli við fylgi sitt í landinu. Ég býst við að þetta landkjör verði ekki vinsælt hjá sumum hv. þm., sem hafa komist að sakir þess eins, að þeir eru að góðu kunnir í sínum hreppi. En með hinni nýju tillögu kæmu þeir einir til mála sem þingmenn, sem kunnir eru á stórum svæðum í landinu. Væri það trygging fyrir því, að hæfari menn væru kosnir. Þeir yrðu að standa reikningsskap gerða sinna frammi fyrir öllum almenningi, og mundi við það hreppapólitíkin hverfa.“

Þetta sagði Héðinn Valdimarsson árið 1927 og mér finnst það í fullu gildi enn, og einnig það sem annar forystumaður Alþýðuflokksins, Jón Baldvinsson, sagði í bæklingi sem hann skrifaði um þetta mál árið 1932. Í lokaorðum segir að með því að gera landið allt að einu kjördæmi væri, með leyfi forseta:

„… viðurkennt á borði jafnrjetti kjósenda til að hafa áhrif á skipun Alþingis, hvar á landinu sem þeir eru búsettir. Þá fellur það niður, sem nú er algengast, að alþingismenn telji sig fulltrúa fyrir tiltekinn fjölda ferhyrningsmílna af meira og minna hrjóstrugu landi, jöklum og eyðisöndum, þá verða þeir fulltrúar þjóðarinnar, fulltrúar fólksins, sem í landinu býr.“

Æ síðan hefur þetta verið baráttumál jafnaðarmanna og það er fagnaðarefni að aðrir flokkar skuli taka undir þetta baráttumál. Við styðjum það að sjálfsögðu.

Mig langar aðeins að víkja að því ágæta máli sem Björgvin G. Sigurðsson, þáverandi þingmaður Samfylkingarinnar, og félagar hans lögðu fram 2015. Þeir nefna í greinargerð nokkra kosti þess að landið verði eitt kjördæmi og nefna fjóra liði sem mér þykja a.m.k. umhugsunarverðir. Þeir eru, með leyfi forseta:

„1. Fullkominn jöfnuður næst milli kjósenda og misvægi atkvæða er ekki lengur til staðar.

2. Stjórnmálaflokkar fá þann þingmannafjölda sem atkvæði þeim greidd segja til um.

3. Þingmenn hafa heildarhagsmuni að leiðarljósi í störfum sínum en ekki þröng kjördæmasjónarmið.

4. Kosningakerfið er einfalt og auðskilið.“

Ég ætla ekki að teygja lopann fram úr hófi hér en til að ljúka þessu hlýt ég að minna á að í hinni nýju stjórnarskrá, sem nú er mjög kallað eftir að þingið ljúki vinnu við og samþykki, er í 40. gr. tekið á þessu vandamáli. Mig langar að lesa upp það sem þar segir og skilja það eftir hér, með leyfi forseta:

„Á Alþingi eiga sæti 63 þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára. Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt eftir því sem frekast er unnt. Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi. Listar eru boðnir fram í kjördæmum. Þeir mega vera óraðaðir eða raðaðir. Frambjóðandi má vera á fleiri en einum lista sömu stjórnmálasamtaka. Kjósandi getur valið lista eða einstaka frambjóðendur í persónukjöri. Í lögum má ákveða hvort og í hvaða mæli megi velja frambjóðendur af fleiri en einum lista. Úthlutun þingsæta skal vera í sem fyllstu samræmi við atkvæðastyrk stjórnmálasamtaka, lista og frambjóðenda. Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi. Breytingar á kjördæmamörkum, tilhögun á úthlutun þingsæta og reglum um framboð, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 3/5 hluta atkvæða á Alþingi. Slíkar breytingar koma ekki til framkvæmda fyrr en að einu ári liðnu frá gildistöku. Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í lögum. “

Ég tel að í þessum tillögum stjórnlagaráðs, sem síðar fóru í gegnum vinnu hjá Alþingi, sé eitthvað sem við ættum að geta unnið með.