151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[15:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi gera þá játningu að ég notaði andsvar mitt áðan við hv. þm. Guðmund Andra Thorsson til að fara krókaleið að því að vekja athygli á einu ákvæði í tillögu stjórnlagaráðs sem mér finnst óttalega della. Það hafði ekkert með ræðu hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar að gera, hann gaf mér bara færi á að taka þennan sveig inn í umræðuna. En bara þannig að sú umræða sé tæmd þá er að mínu mati 39. gr. tillagna stjórnlagaráðs, sem varð síðan 40. gr. í tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vorið 2013, dæmi um mál sem gerir það að verkum að það er að mínu mati ekki hægt að taka þessar tillögur og samþykkja þær öðruvísi en að gera á þeim verulegar breytingar, og er hægt að fara yfir það lið fyrir lið. En þetta ákvæði, alla vega eins og það er sett fram í tillögum stjórnlagaráðs og síðan í tillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þegar hún var búin að fara einhverja hringi í kringum þetta, er þess eðlis að það væri ótækt að mínu mati að samþykkja það.

Þar kem ég að því sem snertir kannski meira ræðu hv. þm. Guðmundar Andra Thorssonar, sem er grundvallarspurningin, sem er auðvitað heldur ekki efni þess frumvarps sem við ræðum hér í dag. Það er það hvort landið eigi að vera eitt kjördæmi eða hvort það eigi að vera kjördæmaskipting. Ég sagði í andsvari við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að ég teldi að það væri æskilegt, jákvætt og gott markmið og vil vinna að því að atkvæðisréttur verði jafnaður. Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að það sé æskilegt út frá öðrum forsendum að gera landið að einu kjördæmi. Á því eru ýmsir annmarkar sem ég gæti farið yfir í löngu máli en geri kannski í stuttu máli, af því að það er ekki efni umræðunnar í dag. Hér er ekki til umræðu nein tillaga um að gera landið að einu kjördæmi.

Það eru tvö atriði sem þvælast fyrir mér í því sambandi, kannski fleiri, en það eru aðallega tvö atriði sem ég sé sem annmarka á gagnvart því að landið sé eitt kjördæmi. Annars vegar er það að ég held að það teygi enn þá meira á tengslum kjósanda og þingmanns eða frambjóðenda eftir atvikum. Ég held að það skipti máli að það sé beint og milliliðalaust samband milli kjósandans og þingmannsins. Þó að það sé auðvitað undir hverjum og einum komið hvernig hann rækir sitt hlutverk sem þingmaður eða frambjóðandi, þá vekur hugmyndin um eitt kjördæmi hjá mér áhyggjur af því að tengslin þarna á milli verði ópersónulegri. Auðvitað geta menn komið og bent á lönd í kringum okkur þar sem einn þingmaður þjónar kjördæmum sem eru jafn fjölmenn og allur kjósendahópur Íslendinga, þar sem tugir þúsunda eru á bak við einn þingmann eða jafnvel hundruð þúsunda í stærri löndum. En ég held að menn verði alla vega átta sig á því að sú hætta er fyrir hendi að þetta beina samband kjósandans og þingmannsins rofni. Það teygist alla vega á því. Þessi tengsl eru að sumu leyti staðbundin. Að sumu leyti lúta að þau öðrum lögmálum út frá starfsstéttum, bakgrunni að öðru leyti o.s.frv. En ég held að það sé ákveðinn galli á því að gera landið allt að einu kjördæmi, að það dragi úr þessum tengslum.

Í annan stað er það að mínu mati líka galli við það að landið verði eitt kjördæmi, að ákveðin hætta er á því að miðstýringarvald í flokkunum aukist. Í dag er það þannig að með því að hafa kjördæmin nokkur má segja að valdmiðja í flokkunum, valdið til að velja frambjóðendur sé dreift, það er ekki á einum stað. Það er það er víða, sem ég held að sé líka kostur. Þingmaður í tilteknu kjördæmi getur, ef hann á hljómgrunn meðal kjósenda sinna, haldið stöðu sinni, jafnvel þótt hann sé í ónáð hjá flokksforystu eða einhverjum hópum annars staðar. Þannig að ég held að þetta hafi líka áhrif á sjálfstæði þingmanna og sé spurning um valdahlutföll milli hins miðstýrða valds flokkanna og svo dreifðara valds, sem í dag er víðast hvar skipulagt í samræmi við kjördæmin.

Þriðja atriðið sem ég vildi nefna, bara af því að ég er komin inn á þessar brautir, er það sem hér var reyndar vikið að að einhverju leyti áðan, þ.e. að með því að landið sé eitt kjördæmi er hætta á því að flokkum fjölgi úr hófi fram. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir taldi að það væri ekki vandamál í samtali við hv. þm. Björn Leví Gunnarsson, ef ég man rétt, vegna þess að það væri orðinn veruleiki hvort sem er, það væru hvort sem er komnir svo margir flokkar á þing. Ef við búum til einhvern skala um kosningakerfi í mismunandi löndum þá eru þau auðvitað mjög mismunandi, reyndar eru mjög fá lönd með landið sem eitt kjördæmi. Ég man eftir Ísrael í því sambandi, ég man ekki eftir mörgum öðrum. En hættan er sú að það verði mjög margir flokkar sem gera hina pólitísku virkni þjóðþingsins flóknari. Sumum finnst það í lagi en það gerir það flóknara. Það er erfiðara að mynda það sem við getum kallað starfhæfan meiri hluta í þingum þar sem flokkar eru margir, frekar en þar sem kosningakerfi leiðir til þess að þeir verði fáir. Okkar kerfi felur í sér ákveðna málamiðlun á milli þessara sjónarmiða. Það eru fá kjördæmi, tiltölulega stór, sem útiloka ekki minni flokka en hafa þó ákveðinn þröskuld gagnvart því að flokkum fjölgi úr hófi fram.

Þetta er atriði sem ég vildi nefna af því að menn voru komnir í umræðu um að gera landið allt að einu kjördæmi.

Ætla ég þá að snúa mér örstutt að málinu sem slíku, því sem hér liggur fyrir. Ég fagna því að hv. þingmenn Viðreisnar setji þetta mál á dagskrá og taki það til umræðu. Ég er í hjarta mínu sammála meginmarkmiðum þess en ég held kannski að ekki sé verið að fara rétta leið með því að leggja þetta fram með þeim hætti sem hér er gert.

Ég vildi bara ítreka það sem ég sagði áðan í andsvörum að ef ætlunin er að jafna vægi atkvæða á grundvelli núverandi stjórnarskrár og með lágmarksbreytingum á núverandi kosningalögum þá þyrfti að skoða, ekki bara 1. mgr. 9. gr. heldur líka 8. gr. þar sem tiltekið er hvaða þingsæti fylgja hvaða kjördæmi. Þá er niðurstaðan eða afleiðingin sú, samkvæmt mínum útreikningum aftan á servéttu, með þeim fyrirvara að ég er úr fornmáladeild en ekki stærðfræðideild en kann þó að leggja saman og deila, að sett væri fram í kosningalögunum að eftir breytinguna væru fimm þingsæti í Norðvesturkjördæmi, sjö í Norðausturkjördæmi, níu í Suðurkjördæmi, 12 í hvoru Reykjavíkurkjördæminu um sig, og síðan 18 í Suðvesturkjördæmi. Þannig að auðvitað yrði um verulega breytingu að ræða þó að ekki væri gengið svo langt að þurrka upp þingsætin í landsbyggðakjördæmunum. En ef farin er sú leið að jafna atkvæðisréttinn fækkar þeim auðvitað í fámennari kjördæmum og fjölgar á suðvesturhorninu, sérstaklega í Suðvesturkjördæmi þar sem fólksfjölgun hefur orðið mest á undanförnum árum.

Um það vil ég segja að þetta kann að leiða af sér ákveðinn útreikningsvanda sem ég er ekki nógu glöggur til að átta mig á, hvort þessi breyting eða tilfærsla milli kjördæma myndi hafa einhver áhrif á úthlutun milli flokka. Í dag er það þannig samkvæmt stjórnarskránni og kosningalögunum sem rætur eiga að rekja til breytingar árið 1999, að markmið þeirrar breytingar var tvíþætt, annars vegar að jafna vægi atkvæða frá því sem áður var þannig að ekki yrði meira en einn á móti tveimur. Áður gat það verið einn á móti fjórum, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir rakti. Það var því um að ræða verulega framför sem átti sér stað þarna um aldamótin. Það var annað meginmarkmiðið.

En það var jafnframt markmið, sem náðist kannski ekki 100%, en nokkurn veginn, að búa til kosningakerfi sem gerði það að verkum að flokkar fengju fulltrúa á Alþingi nokkurn veginn í samræmi við atkvæðastyrk sinn þegar horft var til kosningaúrslita á landsvísu. Nokkurn veginn, segi ég, því að komið geta upp aðstæður sem gera það að verkum að það verður einhver skekkja á. En við getum sagt að í kosningum sem haldnar hafa verið eftir þessu kosningafyrirkomulagi hefur það yfirleitt verið svo að þingmannafjöldi flokka hefur endurspeglað nokkurn veginn það sem þeir hafa fengið á landsvísu. Ég segi það þó með þeim fyrirvara að í kosningum þar sem afar margir flokkar hafa boðið fram þá hafa þó nokkur atkvæði fallið dauð, þannig að þetta hefur ekki í öllum kosningum — ég man sérstaklega eftir kosningunum 2013 þar sem vissulega varð ákveðin skekkja í þessu, ekki síst vegna þess að það voru svo mörg atkvæði sem féllu dauð vegna fjölda smáflokka. Ef menn tækju sig til og samþykktu þetta frumvarp Viðreisnar eins og það liggur fyrir, veit ég ekki alveg hvort þetta myndi með einhverjum hætti skekkjast. Það að þarf ekki endilega gera það, það þyrfti einhver reiknimeistari að leggjast yfir það.

En hvað sem því líður þá tel ég að nálgast þurfi viðfangsefni frumvarpsins og markmið frumvarpsins með einhverjum öðrum hætti en þarna er gert. Og þó að ég sé manna fyrstur til að rísa upp á afturlappirnar og mæla gegn því að verið sé að hringla með stjórnarskrána þá held ég að það sé óhjákvæmilegt ef menn ætla sér á annað borð að fara í grundvallarbreytingar á kjördæmaskipan og kosningamálum hér á landi varðandi kosningar til Alþingis, að fara í uppstokkun, sem er þá stjórnarskrárbreyting sem felur í sér að menn taki afstöðu til þess hvort landið eigi að skiptast í fleiri kjördæmi eða að vera eitt kjördæmi. Ég held að í slíkri vinnu þyrftu menn líka að taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig einhver lögmál um persónukjör ættu að koma fram og aðrir þættir sem vissulega er minnst á í tillögum stjórnlagaráðs og þeim tillögum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vann upp úr þeim tillögum á sínum tíma. Vakin er athygli á hinum og þessum hlutum og ýmist sagt að heimilt sé að gera þetta en ekki skylt eða að hægt sé að gera þetta á einn veg eða annan.

Ég held að ef við förum sem þing að takast á við þessi mál þá eigum við ekki að sætta okkur við einhverja málamiðlun sem felur það í sér að öllu sé hent upp sem möguleika en ekki tekin afstaða til eins eða neins. Ég held að ef við förum í að breyta þessum ákvæðum, bæði í stjórnarskrá og síðan í kosningalögum, þurfum við að vera með sæmilega skýra mynd af því hvaða niðurstöðu við viljum fá, hvaða útkomu við viljum fá út úr þessu. Útfærsla kosningareglna og þess háttar hlýtur alltaf að vera í kosningalögunum sjálfum, en í stjórnarskrárákvæði þarf a.m.k. að taka afstöðu til meginatriða.