151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[15:52]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir framsöguna. Þar var kannski ansi langur inngangur sem fór í önnur atriði en þau sem lúta að frumvarpinu sjálfu, hér var reifuð saga stjórnlagaráðs, við fórum vítt og breitt um landið og ræddum landið sem eitt kjördæmi en ekkert af þessu er, eins og hann bendir réttilega á, efni frumvarpsins.

Ég heyri að hann er jákvæður og hlynntur, að því er hann segir, meginmarkmiðinu. Hann talar að vísu svo um að hann sé ekki reiknimeistari og hafi verið í fornmáladeild. Sú sem hér stendur deilir þeim reynsluheimi með honum, að hafa setið í fornmáladeild en þar er nú kannski samlagning og svona, í breiðu myndinni. En ég verð að segja að mér þykir orð þingmannsins gefa ástæðu til bjartsýni um framgang málsins því að ég lít svo á að hér sé um mannréttindamál og ákveðið grundvallarmál að ræða. Þingmaðurinn talar með þeim hætti að hann sé hlynntur markmiðinu en hefði kannski nálgast það með öðrum hætti. Það er alltaf áhugavert að heyra þingmenn Sjálfstæðisflokksins opna sig um það að þeir vilji jafnvel breyta ákvæðum stjórnarskrár en þetta frumvarp felur ekki í sér að þess þurfi. Ég sé þetta þannig að ef við erum sammála um það að hér sé um réttlætismál að ræða, að hér sé um réttarbót að ræða, að hér sé um mannréttinda- og grundvallarmál að ræða, sem hann er hlynntur í grundvallaratriðum, þá sé það útfærsluatriði og við séum á fyrsta punkti hins pólitíska samtals um málið hérna núna og við eigum vel að geta náð saman um að það geti orðið að lögum.