151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[15:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef við höldum okkur við umræðuna um þetta frumvarp sem slíkt þá myndi ég segja að það sé upphaf að einhverri samræðu um þessi mál og það væri einmitt áhugavert að fara í nánari útfærslu á því. Mér finnst málið hins vegar hálfbakað, eins og ég kom kannski inn á með kurteislegum hætti hér áðan. Verið er að varpa einhverju upp án þess að alveg sé búið að hnýta alla lausa enda og það hefði styrkt málið ef búið hefði verið að útfæra það betur að því leyti, þ.e. bara með því að skrifa út hver breytingin verður sem ætlast er til að verði. Ég held að jafnvel þótt við ætlum landskjörstjórn almennt það hlutverk, og gerum það samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi, að færa kannski eitt þingsæti milli kjördæma eftir því sem fólksfjölgun eða -fækkun verður milli kosninga sé breytingin sem hér er um að ræða stórtækari en svo að það sé hægt bara að segja: Landskjörstjórn má bara reikna út, eins og gert er í frumvarpstextanum. Ég held að það væri eðlilegra þess vegna, eins og ég nefndi hér áðan, hv. þingmaður, að fara í að breyta 8. gr. til að þá sé hægt að máta niðurstöðuna eftir öðru en almennum tilmælum til landskjörstjórnar um að reikna út með það að markmiði að jafna vægi atkvæða. Það er auðvitað hægt að fjalla um þetta í þinginu. Þá myndi ég líka varpa því fram hvort búið væri að skoða þann þátt málsins sem lýtur að því markmiði stjórnarskrárinnar að gæta jafnvægis milli flokka þannig að flokkar fái (Forseti hringir.) þingmannafjölda í sem mestu samræmi við úrslit kosninga á landsvísu.