151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[15:57]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni svarið. Mig langar að byrja á þeim punkti sem ég lauk fyrra andsvari á: Ef við erum sammála því að ekki bara markmiðið heldur breytingin og niðurstaðan sem af því leiðir sé af hinu góða þá er það samtalsins virði að reyna að ná þessari réttarbót í gegn. Hv. þingmaður nefndi í sinni fyrri framsögu að hann sæi málið með þeim hætti að hér væri um ákveðna málamiðlun að ræða. Það er í mínum huga ekki hægt að taka undir það á neinn hátt að við séum að leggja á borð óbakaða köku. Það er ekki þannig því að hér er verið að stíga stórt og mikilvægt skref til að ná fram því sem ég held að sé óumdeilanlegt réttlætismál, að vægi atkvæða okkar sé sem jafnast.

Varðandi þá hver útfærslan er, hvort það eigi að vera algerlega niðurnjörvað: Frumvarpið veitir góðan lagalegan ramma um það að hverju er stefnt og hvernig það skuli gert. Hv. þingmaður nefndi 8. gr. hérna áðan, þetta stafar auðvitað af því að skipting þingsæta milli kjördæma er og verður alltaf að einhverju leyti fljótandi af því að hún breytist í kjölfar kosninga í hvert skipti og endurspeglar þá flutning fólks á milli landshluta þannig að þótt farið yrði í það að ætla að reikna út nákvæmlega hvernig þingsæti skiptast er það heldur ekki alveg greypt í stein. Ég held að þingmaðurinn þurfi frekar að svara þessu, því að hann segir að þetta eigi eftir að útfæra: Ef hann er hlynntur markmiðinu, er hann tilbúinn í þá vegferð að (Forseti hringir.) ætla að breyta þessu regluverki þannig að við náum fram því markmiði að atkvæði manna séu jafnari en þau eru í dag? Það er stóra spurningin.