151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

kosningar til Alþingis.

27. mál
[15:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er afdráttarlaust þeirrar skoðunar að jafna beri atkvæðisrétt miðað við það sem er í dag. Ég vek hins vegar athygli á því að það er mjög einkennilegt að láta 8. gr. standa óbreytta með þeirri upptalningu á þingsætum sem þar er að finna ef vitað er að breytingin sem felst í frumvarpinu, á 1. mgr. 9. gr., raskar því verulega, ekki þannig að verið sé að færa til eitt sæti, heldur gæti niðurstaðan t.d. verið sú að færa fimm ný sæti til Suðvesturkjördæmis, sem Suðvesturkjördæmi á vissulega innstæðu fyrir, en það er bara svo skringilegt að stíga ekki skrefið til fulls. Þess vegna talaði ég í því sambandi um svona hálfbakaða köku.

Varðandi hins vegar aðra hluti sem þarf að reikna út frá þessu og bara til að átta sig á því hvort sú leið er einfaldlega tæk sem hér er um að ræða þá þarf auðvitað að hafa líka í huga það sem ég nefndi áðan um það hvort þetta raskaði með einhverjum hætti möguleikanum á því að jafna milli flokka. Það er líka gríðarlega mikilvægt að úrslit kosninga í heild á landsvísu endurspeglist í þingsal. Stóra breytingin sem átti sér stað 1999, sem síðan reyndi fyrst á í kosningunum 2003, var sú að tiltölulega vel var komið til móts við kröfuna um að þingstyrkur flokka væri í samræmi við atkvæðatölur þeirra á landsvísu. Því er náð með ýmsum flóknum reikniaðferðum sem gerir það að verkum að sumir flokkar fá mikið af einhvers konar jöfnunarsætum, aðrir minna og það kann að vera (Forseti hringir.) að breyting af því tagi sem hér er lögð til hafi áhrif á það hvernig þeir útreikningar allir verða og það er þáttur (Forseti hringir.) sem þarf að skoða ef við ætlum að velta fyrir okkur breytingum á þeim grundvelli sem þetta frumvarp leggur fram.