151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

almannatryggingar.

28. mál
[16:02]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum, skerðing á lífeyri vegna búsetu. Flutningsmaður auk mín er Inga Sæland.

Frumvarpið er svohljóðandi: Við 1. mgr. 17. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki skal takmarka réttindi íslensks ríkisborgara vegna búsetu í öðru landi nema að því marki sem hans nýtur fjárhagslegra réttinda vegna þeirrar búsetu.

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Réttur til almannatrygginga á Íslandi er skertur hafi hinn tryggði verið búsettur erlendis á milli 16 og 67 ára aldurs. Fjöldi fólks líður því skerðingar á lífeyri sínum vegna búsetu erlendis. Þessar skerðingar eru í dag framkvæmdar óháð því hvort fólk á rétt á greiðslum frá erlendu ríki vegna búsetu sinnar þar.

Miklar deilur hafa verið milli stjórnvalda og lífeyrisþega vegna búsetuskerðinga undanfarin ár. Sú aðferð sem Tryggingastofnun hefur beitt við ákvörðun búsetuhlutfalls var borin undir umboðsmann Alþingis og taldi hann að aðferðin væri ólögleg. Þar að auki komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu í sumar að óheimilt hefði verið að skerða sérstaka framfærsluaðstoð þar sem reglugerð ráðherra hafi skort lagastoð.

Eftir mikla baráttu eldri borgara samþykkti Alþingi í vor lög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Þau lög veita öldruðum rétt á framfærslustuðningi sem nemur allt að 90% af fjárhæð fulls ellilífeyris. Þessi viðbótarstuðningur er ætlaður þeim sem vegna búsetu sinnar erlendis eiga ekki rétt á fullum ellilífeyri. Þrátt fyrir að veita kærkomna aðstoð þá eru skilyrðin fyrir aðstoðinni ströng. Þar er til að mynda aftur komið á krónu á móti krónu skerðingu.

Vegna baráttu lífeyrisþega gegn stjórnvöldum er nú búið að leiðrétta hlut margra sem liðu ólöglegar skerðingar árum saman. Eftir stendur þó að í fjölmörgum tilvikum viðgangast umfangsmiklar skerðingar á lífeyri almannatrygginga vegna búsetu lífeyrisþega erlendis. Auk þess eru þeir ellilífeyrisþegar sem fá greiddan viðbótarstuðning aðeins að fá 90% af réttindum sínum. Til þess að réttlætið nái fram að ganga þarf að breyta lögunum.

Í 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um hvaða áhrif búseta lífeyrisþega hafi á rétt hans til ellilífeyris. Í öðrum réttindaflokkum laganna er vísað í þær reglur sem koma fram í 17. gr. og er því miðað við sömu reglur til að reikna út örorkulífeyri, aldurstengda örorkuuppbót og tekjutryggingu. Sú reikniregla sem kemur fram í 1. mgr. 17. gr. laganna leggur til grundvallar að full réttindi til ellilífeyris ávinnist með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Hafi viðkomandi búið hér á landi skemur en 40 ár á umræddu tímabili skerðast réttindi hans hlutfallslega í samræmi við það.

Þessar búsetuskerðingar eru framkvæmdar óháð því hvort búseta viðkomandi erlendis veiti honum sams konar fjárhagsleg réttindi. Í 68. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um að heimilt sé að semja á milli ríkja um hvernig skuli ákvarða réttindi fólks út frá búsetutíma. Ísland hefur gert slíka samninga við nokkur ríki og á milli EES-ríkjanna gildir sérstakur samningur sem kveður á um að réttindi glatist ekki vegna flutnings til annars EES-ríkis. Eftir stendur að fjöldi ríkja hefur ekki gert slíka samninga við Ísland. Sem dæmi getur það skert rétt til örorku ef viðkomandi hefur verið búsettur í Bandaríkjunum um árabil, þó svo að viðkomandi hafi fyrst verið metinn öryrki eftir að hafa flust aftur til Íslands. Í slíku tilviki á viðkomandi engan rétt á sambærilegum greiðslum erlendis frá og þeim sem hann missir. Þetta er ekkert annað en mismunun á grundvelli búsetu og fer á svig við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það er eitt að lífeyrir skerðist vegna lífeyrisgreiðslna erlendis frá, en þegar lífeyrir er skertur vegna þess eins að einstaklingur hefur um tíma verið búsettur í öðru landi þá er það ekkert nema mismunun.

Til að koma í veg fyrir slíka mismunun er lagt til að einungis verði heimilt að skerða réttindi almannatrygginga vegna búsetu þegar ljóst liggur fyrir að viðkomandi eigi rétt á og njóti sambærilegra réttinda erlendis frá vegna búsetu þar. Þannig yrði komið í veg fyrir grimmilegar búsetuskerðingar gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegar áður búsettir erlendis fengju 100% réttinda sinna en ekki 90%.

Virðulegur forseti. Núna í vor var samþykkt á Alþingi 666. mál, frumvarp til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraðra. Ég held að ákveðin skilaboð hafi falist í þessari furðulegu tölu á málinu, 666, því að aðalmálið var meingallað. Þarna var verið taka á og leiðrétta búsetuskerðingar en eingöngu fyrir aldraðra. Öryrkjar voru skildir eftir. Hvar er jafnréttið? Hvar er það að allir séu jafnir fyrir lögum? Hvernig er með stjórnarskrána? Hvernig er hægt, eina ferðina enn, að beita þessari grófu mismunun?

Það sem var enn furðulegra í því máli var að það kom upp á borðið að þeir sem lenda í búsetuskerðingum einhverra hluta vegna eru bara 90% ríkisborgarar. Þeir fá 90% af lágmarksellilífeyri. Það merkilegasta við þetta allt saman er að til þess að koma 90%-reglunni á þurfti að breyta kerfi Tryggingastofnunar. Það þurfti hreinlega að búa til kerfi. Og hvað kostaði það? Jú, í meðferð málsins kom fram að það hafi kostað í kringum 40–50 milljónir að búa til þetta kerfi. Það kom líka fram í meðferð málsins að það hefði sennilega verið helmingi ódýrara, að ríkið hefði geta sparað helminginn af þessum 40–50 milljónum, að einfaldlega leyfa þessu fólki að fá 100% réttindi eins og því ber, að mismuna ekki. En nei, núverandi ríkisstjórn var miklu meira til í að borga extra, jafnvel á þriðja tug milljóna eða meira, bara til að geta tekið upp krónu á móti krónu skerðingu aftur.

Það er alveg með ólíkindum að áratugum saman skuli hafa verið brotið á þessum réttindum örorkulífeyrisþega og ellilífeyrisþega. Umboðsmaður Alþingis tók það skýrt fram á sínum tíma, í máli nr. 8955/2016, að þarna væri um ólöglegar skerðingar að ræða. Eins og fram hefur komið komst héraðsdómur líka að því að þessar skerðingar stæðust ekki lög. En þessu var ekki breytt þótt það hefði ekki kostað ríkið neinar skuggalegar upphæðir og væri eingöngu spurning um mannréttindi. Að gera þetta almennilega, sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að hætt yrði að mismuna, að hætt yrði að níðast á þeim sem verst hafa það í samfélaginu, vegna þess að þetta er sá hópur sem hefur það langsamlega verst. Þarna er hópur fólks sem átti að lifa á 60.000–80.000 kr. á mánuði. Allir gera sér grein fyrir því að það er útilokað og því var eina leiðin að vísa þeim á félagslegar bætur. En þá leið gat fólk ekki nýtt sér ef það átti maka. Þá var það metið svo að makinn ætti að sjá um að framfæra því og fólk fékk ekki neitt. Þetta flokkast ekki undir neitt annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi.

Öryrkjabandalag Íslands sendi inn umsögn á sínum tíma við hið dæmalausa 666. mál og þar segir, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er ekki verið að tryggja öllum lífeyrisþegum lágmarkstryggingu, samanber rökstuðninginn hér að neðan. Einnig verður að teljast sérstakt að skerðingarreglan sem lagt er upp með er í raun 100% skerðingarregla. Ekki verður annað séð en að svokölluð króna á móti krónu verði komið á aftur gagnvart ellilífeyrisþegum.

Lágmarkstrygging fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega, í 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, hefur einnig verið skert á grundvelli fyrri búsetu erlendis og þeir einstaklingar skildir eftir í sömu fátækt. ÖBÍ hefur í áraraðir lagt til breytingar varðandi það að koma til móts við hópinn, með einfaldri niðurfellingu á reglugerðarákvæði.“

Síðar er vitnað í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar þar sem segir, með leyfi forseta: „Sérstaklega þarf að huga að stöðu barna sem búa við fátækt en þau eru einn af viðkvæmustu hópum samfélagsins.“

Við dælum inn orðum eins og jafnrétti og vernd barna en það eru innantóm orð vegna þess að við skiljum alltaf ákveðinn hóp eftir. Hvers vegna? Það er óskiljanlegt fyrirbrigði.

Í umsögn ÖBÍ segir enn fremur, með leyfi forseta:

„ÖBÍ fagnar því þessu frumvarpi og býst við að sams konar tryggingu verði komið á fyrir örorkulífeyrisþega. Það er ekki tilviljun að kjarni heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna felur í sér að ríkisstjórnir skuli ekki skilja neinn eftir og að fyrsta heimsmarkmiðið sé að berjast gegn fátækt.“

Er farið eftir þessu? Nei. Þótt furðulegt sé heldur ofbeldið áfram vegna þess að það kemur fram í frumvarpinu sem var samþykkt hérna, 666. máli, í 7. gr. Ég les áfram upp úr umsögn Öryrkjabandalagsins, með leyfi forseta:

„Grimm eignarregla, sem auðvelt er að laga í meðförum þingsins. Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að ekki komi til greiðslu viðbótarstuðnings nemi eignir umsækjanda í peningum eða verðbréfum hærri fjárhæð en 4.000.000 kr. Eins og ákvæðið er orðað virðist það fela í sér að aldraður einstaklingur glati öllum réttindum samkvæmt lögunum þegar eignir hans hækka úr 3.999.999 kr. í 4.000.000 kr. Í stað slíkrar fortakslausrar reglu telur ÖBÍ eðlilegra að kveðið sé á um skerðingu stuðnings vegna eigna umfram tiltekin eignamörk sé það á annað borð vilji löggjafans að skilyrða stuðning samkvæmt lögunum með þeim hætti.“

Virðulegur forseti. Ég tel að við ættum að vera komin aðeins lengra í þróuninni í málum sem varða almannatryggingar og fólk sem þarf að lifa innan þess kerfis við sult og eymd. Þetta á við um stóran hluta þess fólks þótt auðvitað sé ákveðinn hópur sem hefur það ágætt. Því ber að fagna en því miður hefur allt of stór hópur það ömurlegt. Og við erum enn á þeim stað núna. Við getum ekki einu sinni í miðjum Covid-faraldri séð til þess að þessir hópar njóti réttlætis, að farið sé eftir stjórnarskránni um bann við mismunun. Við skiljum eftir veikt fólk, hreyfihamlaða, lamaða í þeim dæmalausu aðstæðum sem hér er um að ræða.

Það er eiginlega sama hvert er litið í þessu dæmalausa máli og í frumvarpi okkar í Flokki fólksins, sem við erum með til umfjöllunar, erum við einmitt að taka á málinu í heild sinni, bæði hvað varðar 100%-reglu fyrir eldri borgara sem eru í þessari aðstöðu og 100%-reglu fyrir öryrkja. Það er enginn undanskilinn. Engin króna á móti krónu skerðing. Það vita allir að við höfum staðið hérna þing eftir þing við að reyna að fá þessa einföldu reglu tekna út, króna á móti krónu. Hverju lofuðu allir flokkar sem hafa komið að þessari löggjöf í síðustu kosningum? Hver einasti flokkur lofaði að taka krónu á móti krónu skerðinguna burt. En stóðu þeir við það? Nei. Þeir horfðu á loforðið þannig að í því fælist ekki að taka út krónu á móti krónu skerðingu heldur að draga úr henni þannig að það yrðu 65 aurar á móti krónu. Það réttlæti, 65 aurar á móti krónu, gat ekki einu sinni ratað inn í 666. mál sem sýnir einskæran brotavilja, einskæran vilja til að klekkja á þeim sem verst hafa það.

Í umsögn Öryrkjabandalagsins segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Óþarfa eftirlitsregla. Í 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir skilyrðum um dvöl hér á landi og erlendis og eftirliti Tryggingastofnunar ríkisins með ferðum aldraðs einstaklings. Að mati ÖBÍ er eðlilegra að miðað sé við viðmið lögheimilislaga um fasta búsetu eða viðmið tekjuskattslaga um skattalega heimilisfesti sé á annað borð vilji til þess að skilyrða stuðning samkvæmt lögunum með þessum hætti.“

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Ef skoðum 8. gr. þessa dæmalausa frumvarps sem samþykkt var í vor, 666. mál, þá segir þar um dvöl erlendis:

„Greiðsla viðbótarstuðnings fellur niður þegar greiðsluþegi dvelur eða hyggst dvelja erlendis lengur en 90 daga samfellt eða lengur en 90 daga á hverju 12 mánaða greiðslutímabili.

Sé dvölinni ætlað að vara lengur en í 90 daga samfellt fellur greiðslan niður frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er dvöl erlendis hófst. Í öðrum tilvikum fellur greiðslan niður frá og með næsta mánuði eftir þann mánuð er dvöl erlendis hafði varað í 90 daga eða þegar dvöl erlendis nemur 90 dögum samtals á greiðslutímabilinu.“ — Einfalt.

„Greiðsluþega er skylt að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um fyrirhugaða dvöl erlendis fyrir brottför sem og um komu til landsins, sbr. einnig 11. gr. Sé upplýsingaskyldu ekki sinnt af hálfu greiðsluþega eða maka hans gilda ákvæði 10. gr. eftir því sem við á.“

Snilldarlagasetning eða hitt þó heldur. Stóri bróðir í eftirlitshlutverki er búinn að koma því þannig fyrir að ákveðinn hópur má ekki fara úr landi nema tilkynna sig. Það merkilegasta við þetta er að maki þeirra verður að tilkynna sig. Hvert erum við komin í lagasetningu? Hvað næst? Ég hélt að við værum í framþróun en samkvæmt þessu erum við á hraðferð aftur á bak í þeirri dæmalausu lagasetningu sem um er að ræða. Það verður að segjast að lögin eins og þau eru eru til háborinnar skammar.

Svo er annað í þessu sem er merkilegt fyrirbrigði. Þann 13. apríl 2015 var lögð fram fyrirspurn um búsetuskerðingar og var fyrirspyrjandi hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir. Hvern var hún spyrja þá? Jú, félags- og húsnæðismálaráðherra á þeim tíma, Eygló Harðardóttur, úr Framsóknarflokki. Staðan er mjög svipuð í dag. Fyrirspyrjandi, hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, er í ríkisstjórn og hæstv. félags- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason er í Framsóknarflokknum. Þarna var verið að benda á það gífurlega óréttlæti sem búsetuskerðingar eru. Þetta var 2015. Það sýnir að það virðist engu breyta, sem er merkilegt, að viðkomandi þingmenn fari í ríkisstjórn. Hálfkákið er algjört í þessari lagasetningu vegna þess að á sínum tíma, eins og hefur komið fram, voru öryrkjar skildir út undan, þeir sem áttu að fá þessar búsetuskerðingar leiðréttar.

Ég vil taka fram að það verður gefa þeim þann plús að bætur hækkuðu hjá stórum hópi þessa fólks. Þeir sem áður voru með 60.000–70.000 á mánuði fóru í 90% af lágmarkslífeyri þannig að staða þeirra batnaði. En því miður er lágmarkslífeyririnn í dag undir fátæktarmörkum. Lágmarkslífeyrir eldri borgara er undir fátæktarmörkum og einnig öryrkja. Þegar einhver er settur upp í 90% lágmarkslífeyri með krónu á móti krónu skerðingu á móti er verið að setja hann í sárafátækt. Það er verið að hífa fólk upp úr algjöru svelti en það er samt látið vera áfram í sárafátækt.

Ég velti því fyrir mér hvað í ósköpunum olli því að ríkisstjórnin var tilbúin að leggja það á sig að taka út þessar búsetuskerðingar, allt upp í 90%. Eiginlega má segja að þeir séu að segja við þetta fólk að það sé 90% ríkisborgarar, við ætlum að taka af ykkur 10% rétt. Og auk þess að taka af ykkur 10% rétt ætlum við að refsa ykkur meira og setja líka á ykkur krónu á móti krónu skerðingu. Þið eigið nefnilega ekki rétt á því að skerðingin fari niður í 65 aura á móti krónu, hvað þá að krónuskerðingin verði tekin alveg af ykkur, eins og allir flokkar lofuðu að yrði gert. En það loforð hefur einhvern veginn týnst hjá þessum þremur flokkum sem eru í ríkisstjórn.

Eins og ég hef áður bent á er það furðulegasta í þessu öllu saman að menn eru tilbúnir til að borga mörgum milljónum meira til þess eins að geta klekkt á einhverjum. Ég vil sérstaklega í því ljósi tala um það sem ríkisendurskoðandi var að benda á í sambandi við þetta kerfi. Hann segir að kerfið hjá Tryggingastofnun ríkisins sé meingallað og það hafi verið ákveðinn hópur í kerfinu sem fékk ekki einu sinni réttan útreikning. Sumir fá hreinlega ekki að vita rétt sinn í kerfinu. Þá hlýtur maður að spyrja sig: Hvers vegna erum við að búa til kerfi sem er enn þá verra og biðja Tryggingastofnun ríkisins, sem er með nógu flókið kerfi fyrir, að búa til aukakerfi til þess að geta reiknað út vitleysuna í 90%? Allir sjá að það væri miklu auðveldara og ódýrara, fyrir utan að vera algjört réttlætismál, að leyfa þeim að fá bara 100%. Ríkið hefði sparað. Viðkomandi væri þá alla vega jafn vel settur og hinir, nema að því leyti vísu að hann væri enn með krónu á móti krónu. Það hefði líka verið hægt að sýna réttlæti með því að lækka þetta í 65 aura á móti krónu. Þá hefðum við getað sagt: Við erum að gera nákvæmlega það sama og fyrir alla hina, nema við erum auðvitað ekki að standa við það loforð okkar að hætta með krónu á móti krónu skerðingu.

Þess vegna leggjum við fram þetta frumvarp, Flokkur fólksins, sem fer núna til velferðarnefndar þar sem það verður tekið til umfjöllunar. Þetta er mjög einfalt mál. Það getur ekki nokkur maður verið á móti því vegna þess að þetta er hreint og klárt réttlætismál. Við eigum að sýna sóma okkar í eitt skipti á þessu þingi og taka ekki út einhvern ákveðinn hóp og brjóta á réttindum hans, bara vegna þess að við getum það.