151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

almannatryggingar.

28. mál
[16:45]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir andsvarið. Ég endurtek það sem ég hef áður sagt, það veldur mér vonbrigðum ef þetta er takmarkað við ellilífeyrisþega eingöngu. Það kann að vera alger misskilningur, kórvilla af minni hálfu að ætla það. En sú var nú ætlan mín og mér finnst ekki annað eðlilegt. Hv. þingmaður bendir á að fólk sé bundið einhvers konar átthagafjötrum. Um það verðum við að losa í nútímasamfélagi. Fólk vill ráðstafa lífi sínu með ýmsum hætti. Þó að fólk hafi ekki möguleika á að taka þátt í atvinnulífinu er eðlilegt að það skuli reyna að njóta lífsins með öllum mögulegum hætti innan lands sem utan og það á að hafa frelsi til þess.

Varðandi skerðingar þá er það náttúrlega baráttumál okkar að áfram verði dregið úr þeim og með skipulegum hætti, en að fyrsta vers verði það að allir lífeyrisþegar, ungir og eldri, geti dregið fram lífið af tekjum sínum, að þeir séu með tekjur til að framfleyta sér sem séu umfram fátæktarmörk. Við erum sammála um að þetta er tilvera sem við verðum að venja okkur við, að fólk sé með vinnusögu bæði innan lands og erlendis. Ég tel að hnökrarnir verði sniðnir af þessu og að þetta verði tiltölulega sjálfsagt mál þegar fram líða stundir.