Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

almannatryggingar.

28. mál
[16:47]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég ætla að ítreka að frumvarpið sem Flokkur fólksins leggur hér fram er einföldun á þessu regluverki. Það á bæði við um öryrkja og eldri borgara og þar er enginn greinarmunur gerður á. Að ákveðnum hluta myndi það spara í kerfinu að einfalda hlutina eins og við leggjum upp með. Þegar ég tala um sparnað sem ríkið áætlar að setja í kerfið varðandi 90% regluna, þá var kostnaður við það ákveðinn í upphafi og síðan átti að verða fastur kostnaður varðandi það sem gæti þá nýst til að taka á málefnum öryrkja.

En það er annað sem mig langar að snerta á. Hv. þingmaður talaði um að skipta upp almannatryggingalögum varðandi eldri borgara og öryrkja. Ég veit það ekki. Ef þessi ríkisstjórn yrði áfram við völd þegar búið væri að skipta kerfinu upp óttast ég mest að upp kæmi sú staða að öryrkjar yrðu hreinlega skildir eftir. Við sáum í því frumvarpi sem samþykkt var í vor að það varðaði bara eldri borgara en öryrkjarnir voru skildir eftir. Ef kerfinu væri skipt upp yrðum við að ganga þannig frá því að það væri alveg á hreinu að ekki væri hægt að setja hópana í þá stöðu sem nú er uppi, að stór hópur þurfi lifa undir fátæktarmörkum og sé svikinn um allar hækkanir áratugum saman eingöngu í þeim tilgangi, að því er virðist, að halda fólki í sárri fátækt.