151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

tekjuskattur.

114. mál
[16:52]
Horfa

Flm. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, um söluhagnað af íbúðar- og frístundahúsnæði, á þingskjali 115 í máli 114. Flutningsmenn, auk þess er hér stendur, eru hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson og Bryndís Haraldsdóttir. Eins og kemur fram í greinargerð sem fylgir frumvarpinu hefur frumvarp sama efnis að hluta verið lagt fram áður en það er nú með töluverðum breytingum. Upphaflega var aðeins fjallað um að afnema svokallaða rúmmálsreglu sem ég kem að síðar. Nú viljum við flutningsmenn að stigið verði skref lengra og tryggt að sömu reglur gildi um söluhagnað íbúðarhúsnæðis og söluhagnað af frístundahúsum og að sá söluhagnaður skerði ekki greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.

Nú er það svo að um langa hríð, í áratugi, hefur bróðurpartur af eignamyndun landsmanna átt sér stað við kaup og eignarhald á íbúðarhúsnæði og á síðustu áratugum hefur hið sama átt við um frístundahús fyrir tugþúsundir Íslendinga. Að starfsævinni lokinni er algengt að einstaklingar minnki við sig húsnæði og innleysi sparifé með sölu húseigna. Fé sem innleyst er á þennan hátt er oft ætlað að standa undir rekstri heimilis viðkomandi þegar líður á ævikvöldið. Því er ekki að undra að rúmmálsreglan svokallaða hafi komið nokkuð illa við stóran hluta eldri borgara sem eru sestir í helgan stein og njóta ekki lengur atvinnutekna. Hið sama á við um sölu frístundahúsa en söluhagnaður af þeim er að fullu skattskyldur. Með frumvarpi þessu er skattskyldan felld niður og meðferð söluhagnaðar af frístundahúsi og lóðum og lóðarréttindum sem fylgja því verður sú sama og af íbúðarhúsnæði. Verði frumvarpið að lögum ræðst skattskylda söluhagnaðar af sölu íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis aðeins af tíma eignarhalds, þ.e. hvort það hafi varað í tvö ár eða skemur, en ekki jafnframt af ákveðnum stærðarmörkum eins og nú er. Markmið frumvarpsins er því annars vegar að einfalda lög um tekjuskatt, skattaframkvæmd, en hins vegar koma til móts við stöðu eldri borgara.

Í 17. gr. laga um tekjuskatt er ákvæði um söluhagnað af íbúðarhúsnæði. Söluhagnaður er mismunur á söluverði og stofnverði að teknu tilliti til fyrninga og áður fengins söluhagnaðar. Stofnverð er kostnaðarverð eigna. Meginreglan er sú að ef maður hefur átt hið selda húsnæði skemur en tvö ár telst hagnaður af sölu þess til skattskyldra tekna á söluári. Ef maður hefur átt hið selda húsnæði í tvö ár eða lengur telst hagnaðurinn ekki til skattskyldra tekna. Ákvæðið á aðeins við um sölu íbúðarhúsnæðis í eigu manna. Í ákvæðum skattalaga gildir þetta ekki um íbúðarhúsnæði sem er yfir ákveðnum stærðarmörkum, fyrir einstaklinga 600 m³ og 1.200 m³ fyrir hjón, þá er söluhagnaður þess sem umfram er að fullu skattskyldur. Hér er lagt til að þessu verði breytt og það afnumið. Söluhagnaður af frístundahúsnæði er meðhöndlaður samkvæmt gildandi lögum eins og hverjar aðrar fjármagnstekjur sem greiða þarf fjármagnstekjuskatt af. Þar sem fjármagnstekjur hafa áhrif á réttindi hjá Tryggingastofnun er lagt til að sömu reglur gildi um sölu á frístundahúsnæði og sölu á íbúðarhúsnæði. Til að frumvarpið nái markmiði sínu og að ekki komi til skerðinga ellilífeyris og örorkulífeyris eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt í 1. og 5. gr. frumvarpsins.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mál lengra. Þetta er tiltölulega einfalt frumvarp. Þetta er sanngirnismál í hugum okkar flutningsmanna og við væntum þess að það eigi greiða leið hér í gegnum þingið að lokinni hefðbundinni meðhöndlun. Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að frumvarpið gangi til hæstv. efnahags og viðskiptanefndar.