151. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2020.

græn utanríkisstefna.

33. mál
[17:47]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er flóknari spurning en hv. þingmaður ætlaði sér að spyrja, held ég. Í aðra röndina er fullt af tækifærum. Við gætum t.d. nýtt okkur ákvæði í öllum fríverslunarsamningum okkar til að eiga fundi og leggja fram tillögur um breytingar, jafnvel einhvers konar samhliða eftirlit, eða hvað svo sem vera skal. Við gætum líka reynt að opna á að semja að nýju til að bæta við þessum köflum um sjálfbæra þróun í þá fríverslunarsamninga sem við höfum nú þegar gert.

En allt tekur þetta tíma og mótaðilar okkar eru ekki endilega alltaf til í að opna samninga sem virka. Þeir sjá sér kannski engan hag í því. Þessu til viðbótar er ákveðið ástand í alþjóðaviðskiptum í augnablikinu, sem skapar erfiða stöðu, sérstaklega þegar reyna á að setja eitthvað eins og umhverfisvernd inn í utanríkisviðskipti. Það er hreinlega viðskiptastríð í gangi. Þetta viðskiptastríð er á milli Kína og Bandaríkjanna en það hefur áhrif miklu víðar. Ein birtingarmynd þess, sem hefur reyndar verið mjög lengi, er að dómstóll Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur ekki virkað í marga mánuði. Fyrir vikið þarf að leysa öll viðskiptatengd ágreiningsmál með öðrum hætti. Það gerir það að verkum að núna er fullt af umhverfisverndarþáttum í viðskiptasamningum þar sem ágreiningur milli þjóða leysist ekki með einföldum hætti.