151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

breytingar á stjórnarskrá.

[15:04]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða fyrirspurn. Ég vil minna á álit Feneyjanefndarinnar sem hún gaf um þau drög sem verið var að vinna með á þinginu eftir að stjórnlagaráð lauk vinnu sinni og skilaði frumvarpi sínu til Alþingis. Þá sendi þáverandi hæstv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd drögin til Feneyjanefndarinnar til umsagnar. Þar gerði Feneyjanefndin mjög alvarlegar athugasemdir við fyrirliggjandi drög, m.a. að þau fælu í sér töluverða óvissu, það yrði töluverður vandi að túlka þann texta sem fyrir lá og hvaða áhrif hann myndi hafa á löggjöfina. Sömuleiðis var stofnanakerfi frumvarpsins gagnrýnt fyrir að vera of flókið og þar væri mikið innra ósamræmi. Þó að vel væri tekið í aukna aðkomu almennings í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslur þá taldi Feneyjanefndin einnig að það fyrirkomulag væri of flókið og þyrfti töluvert ítarlegri umræðu. Feneyjanefndin velti því upp í samhengi við þetta að það væri ástæða til að kanna, ef þessar tillögur yrðu að veruleika, hvort þær myndu valda pólitískum óstöðugleika og grafa undan góðum stjórnarháttum.

Ég er bara að taka nokkur atriði sem komu fram í því áliti sem við ræddum hér á þinginu 2012–2013 og urðu til þess að þó að þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 væri framfylgt með því að leggja fyrir Alþingi frumvarp, eins og þeir hv. þingmenn sem hér voru rekur minni til, þá má segja að umræðunni um þessi mál hafi jafnvel aldrei verið lokið. Þess vegna hef ég sagt: Ef við viljum eiga samtal við þjóðina þá skiptir máli að við ræðum þessi mál í þingsal og tökumst efnislega á um þær breytingar sem við teljum að eigi að gera á stjórnarskrá, að við byggjum á þeim tillögum sem voru unnar, (Forseti hringir.) m.a. á kjörtímabilinu 2009–2013, því að þar var mjög margt gott, en ræðum líka það sem við erum ekki sammála um í þeim tillögum (Forseti hringir.) eins og til að mynda Feneyjanefndin benti okkur á að gera.