151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

samkomulag ríkis og sveitarfélaga um málefni fatlaðra.

[15:21]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en hann verður bara að horfa á að það er staðreynd að fólk sem fær NPA-samning og er búið að skrifa undir NPA-samning er samt nauðugt svipt þjónustunni og sett inn á hjúkrunarheimili án þess að það vilji yfir höfuð vera þar. Hverju er það að kenna? Jú, fjármagninu. Og hvaðan kemur fjármagnið? Frá ráðherra eða ríkisstjórninni. Þar af leiðandi er fjármagnið of naumt skammtað. Og ég spyr mig: Á þessum tímum þegar virðist vera til nóg fjármagn til að redda öllu alls staðar í Covid, hvers vegna í ósköpunum er þessi viðkvæmi hópur alltaf skilinn út undan? Það er ekki til fjármagn í góðærinu, það er ekki til fjármagn núna. Hvenær verður þetta fjármagn til? Er ekki kominn tími til að finna það, hæstv. ráðherra?