151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

hugsanleg stækkun Norðuráls.

[15:24]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég hlustaði með athygli á stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra um daginn. Í máli hennar voru græn skref til atvinnuuppbyggingar mjög áberandi. Mig langar að ræða við hæstv. forsætisráðherra í þetta sinn sérstaklega um eitt grænt skref, vegna þess að alþjóðasinnar, eins og við Miðflokksmenn erum, horfa gjarnan út fyrir þetta litla land sem við búum í. Við hugsum með okkur hvað við getum gert til að hafa áhrif á loftslagsmál á stærra svæði. Eitt af því sem kemur umheiminum kannski best er að við nýtum endurnýjanlega orkugjafa, sem við eigum gnægð af, til að búa til störf, en víða annars staðar er kynt með verri orkugjöfum.

Það vill þannig til, hæstv. ráðherra, að nú er eitt ágætt fyrirtæki, Norðurál, sem hefur aðsetur á Grundartanga, búið að lýsa, ekki bara áhuga sínum heldur vilja sínum til að stækka álverið. Við uppbygginguna myndu skapast 100 störf og 40 vel launuð framtíðarstörf.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta hafi ekki örugglega komið til umræðu í ríkisstjórn hennar, vegna þess að eins og ég skil fréttir af þessu máli þá er þetta fyrirtæki tilbúið að fara af stað með þessa framkvæmd með mjög skömmum fyrirvara. Og hvort tveggja er, hæstv. ráðherra, að ekki veitir okkur af störfum og ekki veitir okkur af útflutningstekjum sem geta orðið til núna á næstu mánuðum og misserum. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra fregna af þessu tiltekna máli.