151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

hugsanleg stækkun Norðuráls.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir en hann sagði það sérstaklega í upphafi síns máls að hann vildi ræða hér græna atvinnustefnu. Ég vil benda á það að græn atvinnustefna snýst ekki endilega um að flytja hingað ál til að framleiða það, með vissulega endurnýjanlegri orku, vegna þess að flutningskostnaðurinn er töluverður af því. Við höfum síðan verið að fullvinna álið. Þetta eru góðir vinnustaðir sem hér eru, ég ítreka það, en ég heyri ekki betur en að Miðflokkurinn telji að með þessu eigi Ísland að leysa loftslagsvanda heimsins. Það er auðvitað ekki svo. Ég held að álverin okkar séu miklu metnaðarfyllri en svo því að þau hafa einmitt lýst yfir vilja sínum og haldið um það sérstaka samráðsfundi, mjög vel heppnaða, til að fara yfir í kolefnishlutleysi og það var það sem ég gerði að umtalsefni.

Síðan vil ég segja að ég held að það séu ýmis sóknarfæri, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, hjá því tiltekna fyrirtæki sem hann vísaði til og öðrum fyrirtækjum á þessu sviði til að auka verðmætasköpun og draga enn frekar úr losun. Ég mun að sjálfsögðu styðja alla slíka viðleitni, enda er þetta eitt af höfuðmarkmiðum ríkisstjórnarinnar.