151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

[15:35]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Já, ég fagna viðbrögðum hæstv. forsætisráðherra. Það er áhugavert að þetta hafi verið rætt en engu að síður ekki ratað inn í þingmálaskrána. Forsætisráðherra er ábyrgur fyrir þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Það var ríkisstjórnin sem fékk þetta hlutverk og þess vegna beindi ég fyrirspurninni til hæstv. forsætisráðherra. En að sama skapi vildi ég líka taka þetta mál upp gagnvart æðsta ráðherra ríkisstjórnarinnar, enda er það líka forsætisráðherra sem gefur reglulega skýrslu um framkvæmd þingsályktana. Ég ítreka bara ósk mína um að hér sé þingviljinn virtur. Við erum búin að samþykkja að það eigi að lögfesta þennan samning. Þetta er ekkert val. Það getur vel verið að það sé flókið en við gerum það samt. Öryrkjar þessa lands hafa lengi beðið eftir kjarabótum og það gengur engan veginn í mínum huga að láta þá bíða eftir réttarbótum.

Ég ætla að taka hæstv. forseta á orðinu og vænti þess að hún muni beita sér af öllu því afli sem hún hefur og það muni koma hér frumvarp, eins og hver einasti þingmaður samþykkti að fela ríkisstjórn að gera. Það var meira að segja sett tímasetning, 13. desember, (Forseti hringir.) en augljóslega mun hún ekki standast. Við skulum einhenda okkur í þetta saman, vera samferða í þessu. Þetta gæti verið eitt af þeim mikilvægu málum sem ríkisstjórnin og við öll gætum verið virkilega stolt af ef við klárum það í sameiningu.