151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

[15:36]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Rétt er það að forsætisráðherra er verkstjóri ríkisstjórnarinnar en ráðherrar skipuleggja auðvitað þingmálaskrá sína eftir stöðu sinna mála. Af því að hv. þingmaður nefnir hér reglulega skýrslu forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana þá verður bara að segjast eins og er að það á ekki aðeins við núna, heldur mörg ár aftur í tímann, að oft hefur verið töluverður misbrestur á því hvernig þingsályktunum er framfylgt. Ég þekki það sjálf, hafandi fylgt eftir þingsályktun um upplýsinga- og tjáningarfrelsi sem var samþykkt hér með miklum meiri hluta, oft kölluð IMMI-ályktunin í daglegu tali. Við erum enn að vinna að fullnustu hennar tíu árum síðar. Þótt það gangi hefur það mjakast hægt. En ég tek áskorun hv. þingmanns til mín og mun ræða þetta við dómsmálaráðherra og kanna hvernig málið stendur.