151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

málefni öryrkja.

[15:39]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Rétt eins og hann rakti í fyrirspurn sinni voru 4 milljarðar eyrnamerktir því að ráðast í kerfisbreytingar og innleiða sérstakt starfsgetumat og gera samhliða því ákveðnar kerfisbreytingar á almannatryggingakerfinu. Það hefur ekki gengið eins og áætlað var og ekki náðist samstaða um það, hvorki á vinnumarkaði né meðal hagsmunasamtaka. Við ætluðum að stíga ákveðin skref og voru 2,9 milljarðar af þessum 4 milljörðum notaðir til þess að ná fram ákveðnum breytingum sem hefðu þau áhrif að þær væru mögulega að tala við nýtt kerfi þegar það tæki við. Þessi 1,1 milljarður sem eftir var var hugsaður með sama hætti, þ.e. að hvetja til þátttöku á vinnumarkaði og draga úr skerðingum o.s.frv.

Þegar þingmálaskrá var gefin út fyrir skömmu tók sá sem hér stendur ákvörðun um að ekki yrði mögulegt að ráðast í þessar stóru kerfisbreytingar núna á kosningavetri, heldur ætlum við að taka einhver minni skref og nýta þá til þess þennan 1,1 milljarð sem er til ráðstöfunar á yfirstandandi ári og á næsta ári, ef Alþingi Íslendinga samþykkir fjárlagafrumvarp eins og það liggur fyrir þinginu. Innan ráðuneytisins og í samskiptum við fleiri aðila hafa verið að mótast tillögur að því með hvaða hætti við nýtum þennan 1,1 milljarð. Þær tillögur voru kynntar fyrir mér í síðustu viku þannig að ég á von á því að við vinnum þær aðeins betur í þessari viku og mögulega í þeirri næstu, og í framhaldinu verði hægt að kynna þær opinberlega og vonandi koma þeim til þeirra sem sannarlega þurfa á þeim að halda.