151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

málefni öryrkja.

[15:43]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Þetta er eitt af því sem skoðað hefur verið. Við höfum verið að taka saman ákveðnar tillögur og hugmyndir um það sem hægt væri að nýta þessa fjármuni í. En þegar við erum með 1,1 milljarð til ráðstöfunar þar sem það fjármagn sem ætlað til málaflokksins nær ekki hárri prósentu af þeirri heildarupphæð sem rennur til málefna fatlaðs fólks og til málefnasviðs örorkulífeyris, þá takast þar á ákveðin sjónarmið. Það eru líka hin sjónarmiðin sem voru hugsunin á bak við þetta fjármagn á sínum tíma, sem var að draga úr skerðingum og hvetja til aukinnar atvinnuþátttöku, sem fulltrúi Flokks fólksins, sem talaði hér áðan, reyndar í tengslum við annað, hefur lagt mikla áherslu á. Þá takast á þessi sjónarmið vegna þess að oft og tíðum eru það þeir sem búa við bágust kjörin sem ekki eiga möguleika á því að sækja sér einhverjar aukatekjur. Ég reikna með því að við reynum að fara bil beggja í þessu, að þessum fjármunum verði ráðstafað (Forseti hringir.) til bæði alls hópsins og eins að eitthvað afmarkað fari til ákveðinna hópa sem búa við lægstu kjörin.