151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[15:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá þetta tækifæri til að gera grein fyrir álitsgerð um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana.

Ég held að í vor höfum við öll átt það sammerkt að við vonuðum að faraldurinn yrði skammvinnur og að við næðum tökum á honum tiltölulega hratt. En hann er sannarlega ekki búinn og við sjáum það á tölum dagsins þar sem 1.234 eru í einangrun með smit og nýgengi innanlandssmita stendur núna í 287,7. Ég leyfi mér að segja að í vor sáum við ekki fyrir hversu mikil áhrif þessi faraldur myndi hafa og hversu langvinnur hann yrði. En þegar ljóst var í ágúst síðastliðnum að þessari viðureign væri hvergi nærri lokið og horfur gætu verið á að við þyrftum að glíma við veiruna fram á næsta ár taldi ríkisstjórnin rétt að fá lögfræðilega álitsgerð um valdheimildir stjórnvalda á þessu sviði. Það er ljóst að það hefur þurft að grípa til ýmissa aðgerða sem skerða frelsi fólks og var hugsunin sú að fá sem besta vissu fyrir því hvar mörkin lægju.

Í verkbeiðni til Páls Hreinssonar dómara, sem var dagsett 27. ágúst sl., segir:

„Forsætisráðherra í samráði við heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn óskar hér með eftir því að þér takið saman álitsgerð um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana samkvæmt sóttvarnalögum með hliðsjón af skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá og alþjóðasamningum. Jafnframt verði tekið mið af samspili við valdheimildir lögreglu og annarra yfirvalda til að framfylgja slíkum ráðstöfunum. Er óskað eftir því að þér gerið frumtillögur að breytingum á lögum eða reglum eftir því sem þér teljið tilefni til.“

Í álitsgerðinni, sem skilað var 20. september og birt á vef Stjórnarráðsins 25. september sl., kemur fram að margar sóttvarnaráðstafanir takmarki óhjákvæmilega mannréttindi sem varin eru af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Hið sama gildi um réttindi einstaklinga og fyrirtækja samkvæmt EES-samningnum. Um þau réttindi gildi hins vegar jafnan að víkja megi frá þeim í þágu þeirra brýnu almannahagsmuna að verjast farsóttum til verndar lífi manna og heilsu þeirra. Þessir hagsmunir fái mikið vægi þegar verið er að bregðast við farsótt sem geisar þar sem að lífi og heilsu manna steðjar bein og fyrirsjáanleg ógn. Þeim mun smitnæmari og hættulegri sem smitsjúkdómur er því meira svigrúm hafi stjórnvöld til að bregðast við til verndar lífi og heilsu manna. Í því sambandi verði einnig að hafa í huga að stjórnvöld hafi ekki einungis heimild til að grípa til ráðstafana við slíkar aðstæður heldur hvíli einnig á þeim skýr frumkvæðisskylda að stjórnlögum til að bregðast við farsóttum með virkum úrræðum til verndar lífi og heilsu manna.

Um þetta er fjallað á síðu 43 í greinargerðinni þar sem segir:

„Þegar stórfelld hætta steðjar að samfélaginu hafa bæði ráðherrar og Alþingi skyldu til að bregðast við. Í ljósi þeirra skyldna sem hvíla á stjórnvöldum við að vernda líf og heilsu manna þegar farsóttir geisa verður að ætla að við mat dómstóla á því hvort gripið hafi verið til of harkalegra úrræða eða beiting þeirra hafi verið of harkaleg muni dómstólar veita stjórnvöldum umtalsverð vikmörk.“

Má því telja að stjórnvöld hafi töluvert svigrúm til að meta hvernig sé best að mæta slíkum faraldri án þess að lögð sé sú skylda á stjórnvöld, sem fjallað er um í greinargerðinni, að byrja fyrst á vægari úrræðum þegar ekki verður séð fyrir hvað muni helst koma að notum við að ná því markmiði sem að er stefnt. Ella eru mannslíf og heilsa almennings sett í hættu. Hversu víð vikmörkin eru, sem stjórnvöldum eru játuð við þessar aðstæður, ræðst m.a. af því hvaða tíma stjórnvöld hafa til að afla upplýsinga um aðstæður og væntanleg áhrif þeirra aðgerða sem ætlunin er að grípa til, bæði hvað varðar virknina við að berjast við farsóttina en líka það tjón sem þær kunna að valda.

Þá verður að hafa í huga að Covid-19 er nýr smitsjúkdómur. Hann hefur ekki verið rannsakaður nema í innan við eitt ár og þekking á honum er af mjög skornum skammti. Þannig er nokkur óvissa um dánartíðni af völdum hans, sömuleiðis hvaða sjúkdómar geta fylgt í kjölfarið sem og það varanlega tjón sem sumir sjúklingar virðast geta hlotið af þessum sjúkdómi og fyrirhugaðar eru rannsóknir á en við heyrum öll fréttir af. Síðast en ekki síst er oft mikil óvissa um það hver virkni einstakra sóttvarnaúrræða verður þegar ákvörðun er tekin um að beita þeim.

Eftir því sem lengra líður hins vegar á baráttuna verður að ætla að kröfur aukist um að stjórnvöld rannsaki betur og afli upplýsinga um virkni ráðstafana sem hefur verið gripið til í því skyni að hemja farsóttina og afli upplýsinga um tjónið sem slíkar aðgerðir hafa valdið. Í ljósi slíkra upplýsinga eigi ráðstafanir að geta orðið markvissari og betur sniðnar að aðstæðum þar sem tilvik eru flokkuð nánar.

Hæstv. heilbrigðisráðherra mun tala hér á eftir en Páll bendir á ýmis þau atriði sem skoða þurfi við endurskoðun sóttvarnalaga og ég veit að hún mun fara nánar yfir það. Meðal þess sem hann nefnir er að í sóttvarnalögum sé ekki að finna lögskýringargreinar á helstu hugtökum laganna. Mikilvægt sé að samræma þá orðanotkun sem er í sóttvarnalögum við hið daglega málsnið okkar hér á landi. Sem dæmi má nefna að í lögunum er talað um afkvíun en við tölum um sóttkví í daglegu máli. Sömuleiðis gerir Páll ákveðna athugasemd við það að sóttvarnalækni og sóttvarnaráði séu að einhverju leyti falin sömu verkefni og það þurfi skýringa við. Enn fremur að æskilegt væri að telja upp hvaða sóttvarnaráðstafanir það geti verið sem ráðherra fær heimild til að beita og sjá til þess að fram komi lögskýringar á þeim. Hér þurfi að tryggja samræmi hugtaka og skilgreininga við alþjóðaheilbrigðisreglugerðina. Enn fremur þurfi að huga að því að ekki hafa allar almennar sóttvarnaráðstafanir samkvæmt alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni verið innleiddar í íslenskan rétt og það á ekki síst við um ákvæði reglugerðarinnar sem varða almennar reglur um sóttvarnir við komu og brottför ferðamanna. Ástæða sé til þess að ákvæði 14. gr., um hættu á útbreiðslu smits frá einstaklingum, séu ótvíræð um það að hún taki bæði til smitaðra einstaklinga og þeirra sem rökstuddur grunur leikur á að hafi smitast. Það er auðvitað vandmeðfarið í þeim faraldri sem við er að eiga núna þar sem einstaklingar geta verið einkennalitlir eða einkennalausir en eigi að síður smitandi. Þær ákvarðanir eru teknar á grundvelli tilkynninga samkvæmt sóttvarnalögum frá heilbrigðisstarfsmönnum, en þarna þarf líka að geta verið vísað til smitrakningar.

Í ljósi þess að sóttkví einstaklings felur í sér frelsisskerðingu þarf að breyta ákvæðum sóttvarnalaga þannig að mál um lögmæti hennar verði einnig borið undir héraðsdóm eins og gert er ráð fyrir þegar rætt er um einangrun. Enn fremur þarf að skoða samspil sóttvarnalaga við lög nr. 80/2016, um útlendinga, m.a. hvað varðar innleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um rétt borgara Evrópusambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar farar og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna, sem og heimildir til að bera takmarkanir undir dómstól og heimildir til að gera læknisrannsóknir á þeim sem komið hafa til landsins á grundvelli EES-samningsins og dvalið hér á landi skemur en þrjá mánuði.

Þá er heimild til töku þjónustugjalda sérstaklega reifuð í greinargerðinni. Ákvæði sóttvarnalaga sé of opið. Heilbrigðisráðuneytið hefur brugðist við því og vísað til ákvæða í sjúkratryggingalögum, sem ég vænti að hæstv. heilbrigðisráðherra fari hér yfir. Heilbrigðisráðuneytið hefur metið það sem svo að fullnægjandi lagaheimild sé í 29. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, þó að deila megi um skýrleika ákvæðisins um gjaldtöku í sóttvarnalögum.

Síðan er auðvitað mikilvægt að halda því til haga að þegar sóttvarnalæknir lagði til að sýnataka yrði ekki valkvæð, þ.e. að það yrði ekki í boði að velja frekar 14 daga sóttkví, þá var það eigi að síður ákvörðun ráðherra að halda þeim valmöguleika inni einmitt vegna þessara ákvæða.

Ég vil líka segja það, af því að það hefur verið rætt í tengslum við þessa greinargerð og sérstaklega umfjöllun hennar um innleiðingu alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar, að nú er unnið að átaksverkefni til birtingar þjóðréttarsamninga. Það hefur m.a. verið í opinberri umræðu að þarna sé töluverður misbrestur á og það er rétt. Þarna er um að ræða tólf ára, hvað getum við sagt, birtingarhalla sem þarf að vinna á. Af þeim sökum ákvað ríkisstjórnin að verja 12 milljónum á þessu ári í að vinna upp þann halla að tillögu utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Það hefur verið hafist handa við að vinna að uppstillingu og yfirferð samninga og auglýsinga í C-deild og samningar og auglýsingar frá síðustu þremur árum eru að verða tilbúnar fyrir ráðherra til undirritunar. Þannig er miðað við að birta allt frá árinu 2019, 2018 og 2017 á næstu vikum og svo verður haldið áfram. Það er auðvitað stórmál að þetta sé með fullnægjandi hætti.

Að lokum vil ég segja það hér, af því að tími minn er skammur, að ég tel mikilvægt að Alþingi eigi þetta samtal um valdheimildir sóttvarnalaga sem eru að sjálfsögðu meira til umræðu nú þegar liðið er á faraldurinn en í upphafi hans. Fyrirhuguð er heildarendurskoðun á sóttvarnalögum sem ég veit til að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að flýta vegna þeirra ábendinga sem finna má í greinargerð Páls Hreinssonar. Það er mikilvægt að við nýtum reynsluna af baráttunni við núverandi faraldur til þess að bæta þá lagaumgjörð þannig að hún sé með fullnægjandi hætti.

Ég get þó ekki látið hjá líða (Forseti hringir.) að segja það að þegar aðgerðir íslenskra stjórnvalda eru bornar saman við aðgerðir stjórnvalda í löndunum í kringum okkur (Forseti hringir.) tel ég ljóst að hér hefur verið gengið fram af meira meðalhófi en víðast hvar annars staðar í álfunni (Forseti hringir.) með hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi. Ég vitna sérstaklega til þess og ég hef margítrekað sagt það að hér hefur verið lögð áhersla á að viðhalda eðlilegu lífi, (Forseti hringir.) ekki síst með skólahaldi.