151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:00]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt að fólk velti því fyrir sér hve harðar takmarkanir séu eðlilegar, jafnvel leyfilegar, í ljósi þess hve margir verða illa fyrir barðinu á ástandinu. Það er ekkert skrýtið að einhverjir eigi erfitt með að kyngja aðgerðunum og efist um að þær byggist á sérstöku meðalhófi. Í því samhengi verður þó að hafa í huga að vægari aðgerðir, eða aðgerðaleysi, gegn svo skæðri pest gætu hitt enn fleiri fyrir og mun harðar en núverandi aðgerðir. Því er ekkert endilega hægt að álykta að meðalhófs sé frekar gætt, kysu yfirvöld að halda frekar að sér höndum og beita mun vægari vopnum. Þetta er einfaldlega mjög flókið viðfangsefni: Hve langt er réttlætanlegt að ganga í að skerða frelsi okkar með sóttvarnaaðgerðum? Eða e.t.v.: Hvenær eru aðgerðir það vægar að þær leiða í raun til meiri frelsisskerðingar?

Í raun má segja að allt okkar daglega líf, jafnvel í venjulegu árferði, sé varðað skertu athafnafrelsi þó að það birtist oftast með svo lítilfjörlegum og hversdagslegum hætti að við erum löngu hætt að veita því eftirtekt. Rauði þráðurinn er að íþyngjandi bönnum og takmörkunum er ætlað að vernda heildina og gæta þess að athafnafrelsi eins gangi ekki á frelsi annarra. Það á einnig við um tillögur sóttvarnayfirvalda í þessu stríði sem stjórnvöld hafa blessunarlega fylgt í stærstum dráttum. Tekist hefur að halda grunn- og leikskólum opnum sem er gríðarlega mikilvægt fyrir heilbrigði barna, halda heilbrigðisstofnunum gangandi, sem er greinilega undirliggjandi grunnmarkmið sóttvarnayfirvalda, og lágmarka dauðsföll þótt vissulega gangi takmarkanirnar nokkuð hraustlega á rétt okkar til daglegs lífs. Þó hafa einstakar atvinnugreinar og þar með einstaklingar orðið fyrir mjög miklum efnahagslegum skakkaföllum vegna sóttvarna og fyrir vikið hlýtur að hvíla mjög rík skylda á stjórnvöldum að gera allt sem mögulegt er til að bæta eða a.m.k. lágmarka þann skaða og þar finnst mér ekki nóg hafa verið gert. Það er grafalvarlegt þegar þúsundir fjölskyldna eru sviptar stórum hluta af afkomu sinni um langan tíma vegna aðgerða stjórnvalda þótt nauðsynlegar séu. Þetta fólk hefur skuldbundið sig og gert ráðstafanir sem miðast við réttmætar væntingar um laun sem eru ekki lengur til staðar. Það þarf ekki fjörugt ímyndunarafl til að sjá hvað bíður þessara fjölskyldna á næstu mánuðum ef ekki verður meira gert fyrir þær.

Þá er líka rétt að muna að fylgni er á milli skorts á efnahagslegum gæðum og óefnislegum. Kostnaður vegna fátæktar, andlegrar vanlíðanar og félagslegra vandamála getur komið hressilega í bakið á okkur ef við grípum ekki til meiri stuðnings. Þess vegna eru allar heimspekilegar vangaveltur einstakra ráðherra um við hvaða upphæð atvinnuleysisbætur fari að letja fólk til vinnu vinsamlega afþakkaðar þangað til faraldurinn er búinn. Það væri miklu nær að stjórnvöld myndu axla ábyrgð á þessum sóttvarnaaðgerðum og hækka grunnatvinnuleysisbætur.

Herra forseti. Það er líka nauðsynlegt að almenningur og einstaka þingmenn haldi uppi heiðarlegri gagnrýni og sýni aðhald og mér finnst stjórnvöld komin út á býsna hálan ís þegar gripið er til þess að fletta upp greiðslukortafærslum borgaranna. Mér finnst líka orka tvímælis hve hart er gengið fram í banni við heimsóknum til sjúks og fatlaðs fólks, einkum í þeim tilfellum þegar viðkomandi einstaklingar hafa litla eða enga möguleika til að gera sér grein fyrir af hverju heimsóknarbannið stafar. Það getur leitt til þess að sjúklingum hrakar umfram tilefni og makar og ástvinir sitja eftir hryggir og með sektarkennd.

Almennt hef ég þó skilning og samúð með þeirri áætlun sem sóttvarnayfirvöld hafa valið hverju sinni síðasta hálfa árið og lögfróðara fólk verður einfaldlega að skera úr um það hvort allar aðgerðir eru innan heimilda eða ekki. En það er rétt að minna á að við erum að berjast við ólíkindatól og stefna sóttvarnayfirvalda byggist á notkun fjölmargra ólíkra aðgerða á sama tíma sem hægt er að stilla af og raða saman á óteljandi vegu. Áhrif þeirra á efnahagslífið og lífsgæði okkar almennt gera dæmið svo enn flóknara en ella. Í því ljósi verðum við að dæma aðgerðir sóttvarnayfirvalda. Þegar öllu er á botninn hvolft er ég enn sannfærður um að okkar fólk hafi verið nokkuð farsælt í störfum sínum og sem betur fer bætist daglega við reynsla, ný þekking og reiknilíkön þannig að ég er nokkuð öruggur um að með það í vopnabúrinu náum við á endanum að leggja þessa ógeðslegu, ósýnilegu skepnu að velli.