151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér álitsgerð dr. Páls Hreinssonar um sóttvarnaheimildir. Sóttvarnalögin veita stjórnvöldum heimild til að skerða frelsi einstaklinga. Þessar heimildir eru þó ekki svo víðtækar að þær brjóti í bága við stjórnarskrá eða mannréttindasáttmála Evrópu. Það er yfirleitt heimilt að skerða mannréttindi ef það er nauðsynlegt til að vernda heilsu manna. Þá er spurning hversu langt má ganga. Það ber að gæta meðalhófs við val milli aðgerða. Þannig ber stjórnvöldum að meta hvort aðgerðirnar séu til þess fallnar að ná markmiði sínu og hvort þær gangi lengra en nauðsyn krefur. Eftir því sem faraldurinn varir lengur eykst skylda stjórnvalda til að afla upplýsinga um slíkt og meta.

Sóttvarnalæknir hefur heimild til að úrskurða fólk í einangrun en það hefur ekki þurft hingað til. Páll telur að heimildin nái einnig til þess þegar rökstuddur grunur leikur á að viðkomandi hafi smitast þó að slíkt liggi ekki ljóst fyrir. Páll bendir á að heimild skorti til að bera úrskurð um einangrun undir dómstóla í þeim tilvikum þar sem aðeins er grunur um smit. Er t.d. nóg að viðkomandi hafi verið í nálægð við smitaðan einstakling eða er nóg að yfirvöld hafi upplýsingar um að viðkomandi hafi verið á sama svæði og á svipuðum tíma og smitaður einstaklingur? Eins og við höfum orðið vör við og fram hefur komið voru kortafærslur t.d. notaðar til að leita uppi þá sem höfðu verið á Irishman Pub.

Við endurskoðun laganna þarf að líta til reynslunnar af faraldrinum. Endurskoða þarf heimildir til frelsissviptingar. Ekki dugar að bíða eftir heildarendurskoðun laganna. Þetta þarf að gerast strax. Samræma þarf hugtakanotkun við önnur lög á sviði heilbrigðisréttar. Klára þarf vinnu við innleiðingu alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar. Það er alveg með ólíkindum ef það er rétt sem maður hefur heyrt að það séu 300 lög sem eigi eftir að ganga frá. Skýra þarf verkaskiptingu milli sóttvarnaráðs og sóttvarnalæknis.

Virðulegur forseti. Í öllu þessu ástandi sem Covid-19 veiran hefur valdið höfum við því miður gleymt ákveðnum hópi fólks sem á skýlausan rétt á að fá vörn, nákvæmlega þá sömu og allir aðrir. Því miður er staðreyndin sú að það er hópur öryrkja sem vegna Covid-ástandsins getur ekki sótt sér mat, getur ekki farið í röð eftir mat eða lyfjum. Geðheilbrigði og heilsa þeirra í þessu ástandi er því miður ekki í góðu standi. Þar af leiðandi hafa viðkomandi fjölskyldur áhyggjur sem eru kannski með börn á sínu framfæri, börn sem þau þurfa jafnvel að senda í skóla. Það hlýtur að vera spurning þegar maður sér að foreldrum sem vilja ekki senda börn með jafnvel undirliggjandi sjúkdóma í skóla er hótað með barnaverndarnefnd ef þau senda börnin ekki í skóla. Það hlýtur að vera eitthvað skrýtið í þjóðfélagi þar sem við hérna á þingi fáum ókeypis grímur til að nota en á sama tíma er fólk þarna úti, öryrkjar og eldri borgarar sem eru verst settir, fólk sem hefur ekki efni á því að kaupa sér grímur og hefur ekki efni á að kaupa sóttvarnaefni. Það sem er enn þá verra er að það á í vandræðum með að senda börnin sín í strætó, jafnvel í skóla, vegna þess að börnin þurfa grímur til að fara í strætó. Ég segi: Þetta er grímulaust ofbeldi. Þarna er verið að segja við þetta fólk: Þið getið ekki uppfyllt skólaskyldu eða farið sjálf í röð eftir mat. Þetta er fólkið sem er með undirliggjandi sjúkdóma. Þetta er fólkið sem má ekki við því að fá Covid-19. Við höfum líka orðið vör við það að þetta er sá hópur sem hefur minnsta hjálp fengið. Að vísu eingreiðslu upp á 10.000 kr. En svo er líka sú staðreynd að eldri borgarar sem eru verst settir hafa ekki fengið krónu. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum ekki? Hvað er það sem veldur því að ríkisstjórnin telur sig geta hjálpað flestöllum nema þessum hópi? Hvers vegna í ósköpunum situr þessi hópur eftir? Sá hópur sem er viðkvæmastur, sem þarf mest á hjálpinni að halda?

Í fyrstu bylgju Covid var ákveðið að loka sjúkraþjálfun, líkamsrækt og sundi. Þetta var lokun sem stóð yfir í töluverðan tíma. Hverjar eru afleiðingarnar? Hvar liggja mörkin við því hvenær við sköðum heilsu fólks með því að neita því um sjúkraþjálfun, að komast í líkamsrækt eða sund, til þess að verja það fyrir veirunni? Við verðum að hugsa þetta til enda. Þeir sem sækja sund og líkamsrækt er duglegt fólk, eldri borgarar, öryrkjar, sem er að reyna að halda í þá litlu heilsu sem það hefur. Hvaða rétt hefur valdhafinn til að segja við það: Þið fáið ekki að halda þessu áfram, við ætlum að stoppa þetta. Í hvaða stöðu er þetta fólk eftir mánuð ef það hefur hvorki komist í sjúkraþjálfun, sund né líkamsrækt, í hvaða stöðu er það heilsufarslega til þess að veikjast af veirunni? Það verður í mun verri stöðu. Þetta er einmitt fólkið sem passar sig. Ég get sagt að ég hef orðið var við þetta vegna þess að ég hef stundað þetta og ég er einn af þeim einstaklingum sem verða að komast í líkamsrækt og sund til að halda heilsunni. Það er fólkið sem passar sig, passar tveggja metra regluna, sprittar og fer eftir öllum reglum. Í allan þennan tíma sem Covid hefur verið hef ég ekki orðið var við eitt einasta smit í þessum tilfellum. Ég hef ekki orðið var við eitt einasta smit í sundi eða líkamsrækt.

Við verðum líka að átta okkur á því að það eru ótrúlega misvísandi reglur sem eru settar. Á sama tíma og við vorum í þessu ástandi var verið að mismuna gagnvart íþróttaiðkun. Fótboltamenn, 22 á vellinum, máttu faðmast en á sama tíma mátti fólk ekki fara í sund, sem er alveg óskiljanlegt frá mínum bæjardyrum séð. Við eigum að treysta fólki, við eigum að spyrja fólkið. Gefum því leyfi til að ákveða í þessu tilfelli hvort það vill vera í einangrun eða hvort það vill fara og nýta sér sinn rétt vegna þess að þá er það á ábyrgð þess. Það á þennan rétt.

Börn eru einn af þeim hópum sem virðast sem betur fer hafa komið vel út úr þessari veiru. Þess vegna er líka undarlegt að við skulum vera í þeirri aðstöðu að það séu ekki samræmdar reglur um það hvort foreldrar eigi rétt á því að halda viðkvæmum börnum heima eða hvort þeir verði að senda börnin í skóla. Það virðist vera geðþóttaákvörðun hvers skóla fyrir sig, sem er eiginlega stórfurðulegt.

Svo er hitt sem ég hef áður bent á og ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum höfum við ekki séð til þess að þessi viðkvæmasti hópur geti gengið að því vísu að fá sóttvarnir, grímur? Mjög stór hópur af þessu fólki getur ekki farið út í búð, út í apótek, vegna þess að það á ekki grímu og hefur ekki sóttvarnir en gæti það annars. Síðan er það líka hinn hópurinn sem við höfum gleymt algjörlega og það er hópurinn sem getur ekki farið að heiman. Ég spyr: Hefur það verið kortlagt hversu stór sá hópur er sem er skikkaður jafnvel í einangrun? Fólkið er sett í sóttkví eða það hreinlega lokar sig af heima vegna þess að það þorir ekki út og þarf þar af leiðandi að panta allan mat og lyf og annað í gegnum netið. Á þeim tímum þegar matvara hefur hækkað stórlega vegna gengissigs íslensku krónunnar. Við getum alveg kortlagt það, þetta er ekki það stór hópur að ekki sé hægt að halda utan um hann og sjá til þess að honum sé hjálpað.

Ég efast ekki um að það er skylda okkar að skilja engan eftir í þessu dæmalausa ástandi. Við hljótum líka að spyrja okkur á sama tíma hvernig í ósköpunum við getum á þessum skelfilegu tímum jafnvel lokað hreyfihamlaðan einstakling inni í algerri einangrun á spítala í Covid-faraldri þar sem enginn má heimsækja hann, enginn má hafa samband við hann. Þetta gerum við og á hvaða forsendum? Hvað er það í lögum og reglum sem leyfir okkur að einangra einstaklinga svo gjörsamlega að þeir eiga ekkert samneyti við fólk út á við? Meira að segja heilbrigðisstarfsmönnum blöskrar þegar einu samskiptin eru við heilbrigðisstarfsmenn sem eru varðir frá toppi til táar með göllum og grímum.

Við þurfum líka að hugsa um það hvernig álagið er á heilbrigðistarfsfólki okkar í dag. Ég sá það að í Bretlandi og Frakklandi og víðar er álagið orðið það gífurlegt að þeir eru farnir að hafa áhyggjur af því að hjúkrunarstarfsfólk brenni út í starfi. Nú þurfum við líka að kanna það í þessu dæmalausa ástandi hvernig staðan er hjá hjúkrunarfólki okkar sem er í fremstu víglínu.