151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[17:26]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Umræður um Covid-faraldurinn hafa í sjálfu sér átt sér stað hér í þingsal en þær umræður hafa þó einskorðast við efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í tengslum við þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, sóttvarnaaðgerða og annarra aðgerða vegna óhjákvæmilegra aðstæðna hjá heimilum og fyrirtækjum í landinu vegna þess faraldurs. Sóttvarnaaðgerðirnar sjálfar hafa ekki verið hér til umræðu og er álit Páls Hreinssonar, sem hér liggur fyrir og er til umræðu, í sjálfu sér ágætisútgangspunktur fyrir umræðu hér á þinginu um sóttvarnaaðgerðirnar og valdmörk stjórnvalda, þ.e. heilbrigðisráðherra og sóttvarnayfirvalda annars vegar og þingsins hins vegar.

Eins og fram hefur komið, og kemur fram í áliti Páls Hreinssonar, hafa bæði framkvæmdarvaldið og Alþingi skyldu til að bregðast við þegar stórfelld hætta steðjar að lífi og heilsu borgaranna. Það er auðvitað þannig að það er óhjákvæmilegt að stjórnvöld standi framar, standi málinu nær, þegar að frumkvæði kemur og bregðast þarf fljótt við. Þótt slíkar aðgerðir stjórnvalda, eins og margoft hefur komið fram hér í umræðum, þurfi að standast mat í ljósi jafnræðisreglna og meðalhófs er það ótvírætt að stjórnvöld hafa nokkuð rúmt mat á vikmörkum við mat á jafnvægi milli þessara reglna og þá sérstaklega í upphafi. En nú eru liðnir átta mánuðir frá fyrsta smiti og fyrstu aðgerðum og þá er óhjákvæmilegt að Alþingi láti málið til sín taka.

Álit Páls Hreinssonar er náttúrlega umfangsmikið. Hér gefst ekki tækifæri til að fara ítarlega yfir skýrsluna alla eða efni hennar, en mig langar til að fara yfir helstu niðurstöður hans í þessum efnum. Ég byrja kannski á að nefna það sem gjarnan var nefnt í upphafi þessa faraldurs, og mér fannst ég greina í máli einhverra hv. þingmanna hér, að mikilvægt sé að fylgja ráðum sérfræðinga. Þannig var því haldið fram í upphafi og lengi vel framan af að það væri í raun ekki hlutverk stjórnmálamanna að hafa skoðanir á sóttvarnaaðgerðum eða aðgerðum í þessum faraldri.

Við því er þrennt að segja og er rétt að árétta það hér. Ég tel að þinginu og hv. þingmönnum beri skylda til þess að hafa í huga að þegar menn segjast ætla að fylgja ráðum sérfræðinga þá ber sérfræðingum ekki saman, ekki í þessum faraldri eða nokkrum öðrum, heldur hafa verið uppi margar skoðanir og mismunandi áherslur þeirra á hvaða leiðir ætti að fara til að kveða niður þessa veiru. Í öðru lagi vaknar sú spurning líka upp að hve miklu leyti leitað hafi verið til sérfræðinga á öðrum sviðum af því að stjórnvöldum ber auðvitað líka að rannsaka mál nægilega, eins og talað er um og menn þekkja hér, og þá fylgir því að það þurfi að tala við og heyra ráð sérfræðinga á öðrum sviðum. Í þriðja lagi er þessi frasi, fylgjum ráðum sérfræðinganna, til þess fallinn að færa ábyrgðina frá þeim sem hafa lýðræðislegt umboð til andlitslauss samfélags. Ef þetta ætti að vera leiðarljós í öllum uppákomum sem að þjóðfélögum steðja, hvort sem það er á heilbrigðissviði eða öðru, að fylgja ráðum sérfræðinganna, væri um grundvallarbreytingu á stjórnskipaninni að ræða. Og það hefur enginn lagt til slíka breytingu á stjórnskipaninni. Þetta vildi ég bara árétta í upphafi.

Páll fer ágætlega yfir stjórnsýslu sóttvarnamála og nefnir þar sóttvarnaráð og sóttvarnalækni. Mér fannst kannski vanta örlítið upp á umfjöllun um sóttvarnaráð vegna þess að fluttar eru af því fréttir að sóttvarnaráð hafi ekki komið nægilega að málum þótt sóttvarnalæknir sitji þar. En það er rétt að árétta, það sem Páll bendir líka á, að tillögur sóttvarnaráðs eða sóttvarnalæknis eru ekki bindandi fyrir ráðherra. Sóttvarnalæknir hefur ekki heimild til að setja reglur eða mæla fyrir um opinberar sóttvarnaráðstafanir og þetta nefni ég í ljósi tilmæla sem sóttvarnalæknir gaf út fyrir tveimur vikum og vörðuðu m.a. Íþróttasamband Íslands. Mér sýnist af fréttum í dag að það sé af sama meiði gagnvart almenningi, að almenningur nefni að eitthvert ósamræmi sé á milli tilmæla sóttvarnalæknis og reglugerðar ráðherra. Við því er bara eitt svar: Það er reglugerð ráðherra sem gildir og hefur réttaráhrif og lagalega þýðingu í þessu. En þetta olli nokkurri upplýsingaóreiðu, myndi ég halda, og ég hvet stjórnvöld til að skýra þetta allt saman betur.

Páll bendir líka á að reglugerð alþjóðasambandsins frá 2007 hafi ekki verið birt í Stjórnartíðindum og þannig sé ekki hægt að vísa til hennar sem lagastoðar fyrir aðgerðum á landamærum en þessi reglugerð kveður á um almenn úrræði sóttvarnalæknis gagnvart ferðamönnum þegar upp koma smitnæm tilvik á landamærum. Þessi reglugerð takmarkar til hvaða sóttvarnaráðstafana aðildarþjóðir mega grípa við sóttvarnir sínar á landamærum. Tvöföld skimun á landamærum með sóttkví á milli er ekki meðal þeirra aðgerða sem kveðið er á um sem heimila sóttvarnaaðgerð á landamærum. Það eru hins vegar undanþáguákvæði til staðar í þessari reglugerð með ákveðnum skilyrðum. Það er reyndar áhugavert í ljósi álits Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar frá 8. október sl., sem ég ætla að fara aðeins yfir síðar, er lýtur að aðgerðum á landamærum.

Páll bendir á að heilbrigðisráðherra hafi nægar lagaheimildir í reglugerð til að grípa til íþyngjandi sóttvarnaúrræða. Hann þurfi hins vegar að gæta að meðalhófi. Svo rekur hann ýmis mannréttindaákvæði. Hér vegast á skyldan til að grípa til ráðstafana til að vernda líf og heilsu annars vegar og ýmsar reglur réttar- og lýðræðisríkisins hins vegar, m.a. meðalhófsreglan og líka jafnræðisreglan sem kveður á um að aðstæður geti verið mismunandi, t.d. milli landshluta, sem geti kallað á misharðar eða misvægar aðgerðir milli landshluta og meðalhófsreglan er að velja vægasta úrræðið. Skiljanlega er nokkurt svigrúm í upphafi faraldursins en þegar líður á er nauðsynlegt að stjórnvöld rannsaki málin betur og rannsaki virkni ráðstafana og það tjón sem aðgerðir hafa valdið. Dómar eru þessa dagana að falla erlendis um það að aðgerðir standist ekki lögmætisregluna eða meðalhóf í þessum efnum. Ég nefni dæmi frá Frakklandi þar sem reglur um takmarkaðan afgreiðslutíma veitingastaða þóttu ekki standast lögmætisreglur og annað. Í Þýskalandi þótti ekki standast ferðabann innan landsins síðustu páska.

Ég hefði viljað fara aðeins yfir aðgerðirnar frá 16. mars þótt mér gæfist ekki tími til að fara ítarlega yfir þær, þær eru margar, eftir að fyrsta smitið kom fram. En rannsóknarteymi vísindamanna frá Háskóla Íslands og embætti landlæknis og Landspítalans hafa frá því í vor fylgst með faraldrinum og birt spálíkön um þróun hans. Á heimasíðunni covid.hi.is er áhugavert efni. Þar er m.a. mynd sem sýnir þróun faraldursins frá því að hans varð fyrst vart og aðgerðirnar. Þegar leikmaður horfir á þessa mynd — og nú vantar auðvitað að maður geti varpað henni upp, en ég get birt hana á heimasíðu minni þannig að þeir sem hafa áhuga geti áttað sig betur á þessu — vaknar óneitanlega upp sú spurning hvort einstaklingsbundnum sóttvörnum hafi verið gefið nægt svigrúm til að skila sér áður en gripið var til takmarkana af hálfu yfirvalda.

Ég tek sem dæmi aðgerðina 24. mars. Þannig virðist smitkúrfan vera að beygja af leið og smitstuðull vera farinn að lækka þegar gripið var til herts samkomubanns 24. mars og líka 31. júlí. Látum vera með 24. mars, það var í upphafi faraldursins, en 19. ágúst var tekin upp tvöföld skimun með sóttkví á milli á landamærunum sem lokaði þeim í raun alveg. Þessi lokun var þvert á fyrri yfirlýsingar sóttvarnayfirvalda um að þegar veira væri þegar í landinu þjónaði það litlum tilgangi að loka landamærum fyrir ferðamönnum. Í því sambandi vil ég nefna að á vef læknavísindaritsins Lancet 8. október birtist álit frá 12 sérfræðingum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Þar er vikið að skimun ferðamanna á landamærum og þar segir, með leyfi forseta, í lauslegri þýðingu: Það er engin ákjósanleg leið til að koma í veg fyrir að SARS-veiran berist yfir landamæri. Einu gildir hversu vasklega er gengið fram við skimanir og sóttkví. Þetta skýrist af því hve mislangur einkennalaus meðgöngutími veirunnar er o.s.frv.

Með þessum hertu aðgerðum á landamærunum fylgdu vonir um að hægt væri að afnema takmarkanir hér innan lands en það hefur ekki gengið eftir. Gripið hefur verið til allra þessara aðgerða þegar það er sýnt að smitunum fækkar. Þetta þarf að hafa í huga vegna þess að ég held að þingið þurfi að leggja áherslu á að skoða þessar aðgerðir.

Virðulegur forseti. Tíminn er liðinn. Þessi umræða er ágæt en ekki hefur verið gefið færi á andsvörum. Ég vil hvetja til þess að forsætisnefnd taki það til skoðunar að hér verði útbúinn sérstakur vettvangur fyrir þingmenn til að ræða þessi mál með reglulegum hætti og eiga milliliðalaust samtal við sóttvarnayfirvöld, ef það á að vera þannig áfram að menn hlíti þeirra tilmælum í einu og öllu.