151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:01]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna mjög þessari umræðu í dag. Það er mikilvægt að við hér í musteri hinnar lýðræðislegu umræðu náum að tala saman um svona mikilvægar aðgerðir eins og sóttvarnaráðstafanir hafa verið. Já, sitt sýnist hverjum. Allt of mikið lokað. Allt of lítið lokað. Stjórnvöld verða að gera meira. Nei, stjórnvöld eru að gera allt of mikið. Það er ekkert að marka þetta þríeyki, Kára Stefánsson eða ríkisstjórnina. Það verður að hlusta meira á þríeykið, Kára Stefánsson og ríkisstjórnina. Öll erum við með þetta allt á hreinu eða sum hver, a.m.k.

Við hljótum þó að vera sammála um það eitt að við áttum alls ekki von á þessu ástandi. Við vorum alls ekki undirbúin og það var enginn með fastmótaða áætlun um hvernig ætti að bregðast við svona faraldri. Þetta er algjörlega ófyrirséð veira sem lýtur engum lögmálum nema sínum eigin. Jú, jú, faraldsfræðingar geta spáð fyrir um hvað geti mögulega gerst en þó ekki nema að því marki að mögulega komi önnur bylgja og mögulega komi þriðja bylgja. Svo sitjum við heima og spyrjum hvert annað: Erum við í þessari annarri bylgju eða kannski þeirri þriðju? Auðvitað er þetta ástand fullkomlega óþolandi og óboðlegt, íþyngjandi og lífshættulegt, hvort tveggja vegna beinna afleiðinga af kórunuveirunni sem dregið hefur milljónir til dauða og vegna óbeinna afleiðinga af faraldrinum og afleiðingum hans.

Hér hefur mikið verið rætt um einmitt þessar afleiðingar, um einmanaleika, fjárhagslegt hrun. Ég hef áður í umræðunni um þetta ástand og þær sóttvarnareglur sem nú ríkja lýst áhyggjum yfir því þegar reglusetning stjórnvalda verður óskýr og þegar hún verður ómarkviss og í raun óskiljanleg. Hvers vegna taka stjórnvöld ákvörðun um að fara ekki að tilmælum sóttvarnalæknis sem lagði til að líkamsræktarstöðvar yrðu lokaðar áfram núna í þriðju bylgju? Hvers vegna er lagt til að íþróttalið í Keflavík, Selfossi og í Borgarnesi megi æfa, óháð búsetu liðsmanna, en ekki íþróttalið í Reykjavík, Hafnarfirði og Garðabæ? Hvenær er tveggja metra reglan um fjarlægð milli fólks regla og hvenær bara tilmæli og hverjir þurfa að fylgja þessari reglu eða tilmælum? Eiga þingmenn að sleppa því á þessum tímum, þegar óskað er eftir því að fólk haldi sig heima, að þvælast um kjördæmi sín til að heimsækja mögulega kjósendur?

Allt þetta, herra forseti, býr til glundroða og/eða pirring í samfélaginu og það er það í rauninni sem ég hef m.a. áhyggjur af. En það er samt ekki það sem ég ætlaði að ræða hér í þessari ræðu. Ég ætlaði að tala um lög og valdheimildir, réttarheimildir, hvenær þær eru gildar og hvað þarf að gera til að svo sé.

Hæstv. forsætisráðherra óskaði eftir álitsgerð dr. Páls Hreinssonar, dómara við EFTA-dómstólinn, um þær valdheimildir sem sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra hafa til opinberra sóttvarnaráðstafana samkvæmt sóttvarnalögum, með hliðsjón af skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar og mannréttindaákvæðum í stjórnarskrá og alþjóðasamningum. Stærsta álitaefnið sem á hefur verið bent, hvort tveggja í álitsgerð Páls Hreinssonar dómara sem og m.a. hjá Bjarna Má Magnússyni lagaprófessor, er að alþjóðaheilbrigðisreglugerðin, sem vísað er til í 13., 14. og 17. gr. sóttvarnalaga sem varðar sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum til eða frá Íslandi, hefur ekki verið birt í C-deild Stjórnartíðinda eins og skylt er að gera. Lagalegar afleiðingar þess eru að það má ekki vísa í þær reglur sem þar eru. Réttaráhrif birtingarleysisins eru að þeim fyrirmælum sem felast í t.d. þessari reglugerð, alþjóðaheilbrigðisreglugerðinni, má ekki beita. Birtingin skiptir máli þegar við ætlum að beita reglum gagnvart almenningi. Stjórnvöld þurfa að fara að reglunum við gildistöku en í rauninni almenningur ekki.

Þarna erum við komin í ákveðið öngstræti. Óbirt fyrirmæli binda stjórnvöld en ekki almenning. Þannig virðist blasa við að sé til staðar vilji hjá einhverjum til að láta reyna á lögmæti sóttvarnaaðgerða stjórnvalda er hætta á að slíkur skortur á formfestu af hálfu stjórnvalda, þ.e. skortur á birtingu umræddrar reglugerðar, verði notaður þeim í hag sem á einhvern hátt er ósáttur við aðgerðirnar eða telur sig hafa orðið fyrir fjárhagslegu tapi vegna beinna aðgerða stjórnvalda. Birting í C-deild Stjórnartíðinda er ekki valkvæð. Það ber að birta og alger handvömm að hafa ekki sinnt því.

Herra forseti. Í lokin vil ég benda á eitt sem virðist einnig hafa gleymst en það varðar tilkynningar stjórnvalda til aðalframkvæmdastjóra Evrópuráðsins samkvæmt 15. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu. Í þeirri grein kemur skýrt fram að aðildarríki geti takmarkað grundvallarréttindi íbúa vegna almenns neyðarástands sem ógni tilveru þjóðarinnar, eins og nú er og er óumdeilt að er. Íslenskum stjórnvöldum ber að tilkynna þegar farið er í ráðstafanir sem skerða slíkan grundvallarrétt íbúa landsins. Ekkert hefur spurst til slíkrar tilkynningar að mér vitandi.