151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[18:08]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að vísa í fyrri ræðu mína í þessari umræðu, sem ég hélt reyndar að yrði mín eina ræða við þetta tækifæri. En það vill svo heppilega til að mér gefst tækifæri til þess að halda þeirri ræðu áfram og það gefur mér færi á að útskýra nánar það sem ég kom inn á um einstaklingsbundnar sóttvarnir. Ég fann að því að sóttvarnayfirvöld hefðu mögulega ekki gefið almenningi færi á að sýna hvað í honum býr með því að gripið hefði verið til sóttvarnaaðgerða á þeim tíma í ferli þessarar veiru, útbreiðslu veirunnar, þegar útbreiðslan virtist vera á niðurleið. Ég nefndi tvöföldu skimunina sem var tekin upp 19. ágúst þótt þá væri sýnt að útbreiðsla veirunnar og bylgjan væri á niðurleið hér á landi. Við vonuðumst til að geta afnumið takmarkanir hér innan lands. Það mætti segja, og ég held að ég megi fullyrða það, að kannski hafi mörgum, jafnvel hv. þingmanni, verið seld þessi hugmynd með þeim rökum að þannig gætum við átt hið eðlilega líf hér innan lands. En það hefur því miður ekki gengið eftir heldur var þvert á móti gripið til hertra aðgerða aftur 18. september. Þegar maður skoðar ferilinn á einhverjum gröfum þá sést mjög vel að á þeim tíma var smitstuðullinn einnig kominn yfir hæsta toppinn og á niðurleið. Þegar litið er til þess að það tekur aðgerðir eina til tvær vikur að skila sér í færri smitum þá velti ég því fyrir mér hvort aðgerðirnar 18. september hafi verið ótímabærar, þ.e. að einstaklingsbundnum aðgerðum og afleiðingum þeirra er kannski ekki leyft að koma nægilega fram.

Nú síðast var gripið til hertra aðgerða 7. október sem hafa núna verið framlengdar í dag að miklu leyti fram í nóvember a.m.k. Og þegar litið er aftur á þessi ágætu gögn, sem okkar fína vísindafólk setur fram, þá sést líka að 7. október var smitstuðullinn einnig kominn yfir hæsta toppinn. Með sömu rökum bendi ég á að það tekur eina til tvær vikur fyrir aðgerðirnar að skila sér í færri smitum. Það hefði verið áhugavert 7. október að sjá hvernig þróunin hefði orðið ef menn hefðu leyft aukinni aðgæslu almennings og einstaklingsbundnum sóttvörnum að skila sér áður en gripið var til þessara aðgerða.

En þá segja menn: En hvað með spítalann og álagið þar? Þá er því til að svara að sóttvarnayfirvöld óskuðu eftir mati Landspítalans á getu hans til að bregðast við þeirri stöðu sem þá var uppi og þeim smitum sem gögnin sýndu þá og þróunin var þá. Svaraði Landspítalinn því til að hann væri fullvel fær um að ráða við það álag sem í stefndi. En þrátt fyrir þetta var gripið til þessara hörðu aðgerða 7. október. Ég velti þessu upp vegna þess að mér finnst þetta skipta máli þegar menn standa frammi fyrir því að meta árangur af aðgerðum. Ég held að það sé löngu tímabært núna að menn skoði þetta með gagnrýnum hætti. Það er sjálfsagt að sum af þessum álitaefnum sem ég hef nefnt eru auðvitað greinilegri eftir á, ég vil halda því til haga. En nú liggur hins vegar fyrir að við höfum ágæta sögu yfir þessar aðgerðir.

Ég vil aðeins að lokum nefna sem dæmi um þetta að það var fundur í dag, blaðamannafundur sóttvarnayfirvalda, þessi hefðbundni Covid-fundur, og þar var fullyrt, sem ég held að sé alveg rétt og menn séu sammála um þegar þeir skoða gögnin, að útbreiðsla smitanna væri á niðurleið. En samt sem áður telur sóttvarnalæknir þörf á áframhaldandi hörðum aðgerðum. Og þetta eru harðar aðgerðir. Mér hefur fundist í umræðunni svolítið bera á því að menn telji að þetta séu léttvægar aðgerðir, séu bara aðgerðir sem lúti að ungu fólki sem ekki mega fara á böll áfram eða í sund. En þótt það væri nú bara svoleiðis eru það harðar aðgerðir gagnvart ungu fólki sem sýnt er að er ekki alvarlega útsett fyrir þessari veiru og er kannski ekki einu sinni smitberar heldur. Þess utan beinast þessar aðgerðir að miklu fleiri hópum en bara þeim hópi. Þetta beinist að einyrkjum, að atvinnulífinu og fólki á öllum aldri sem þarf að stunda líkamsrækt sem því er lífsnauðsynlegt að stunda. Þannig að það má ekki gera lítið úr því að þessar aðgerðir eru harðar.

Það er reyndar enn þann dag í dag, ef marka má fréttir, nokkuð óljóst til hvaða aðgerða verður gripið á morgun. Reglugerðin sem birt hefur verið virðist vera eitthvað óljós um það eða a.m.k. eru fréttir af því að menn telji það vera óljóst hvaða reglur gildi. En eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni er það auðvitað reglugerðin sem gildir en ekki minnisblað stjórnvalda. Þó að það stjórnvald sé hið virðulega embætti sóttvarnalæknis þá er það reglugerð ráðherra sem gildir.

Ég var með reglugerðina sem tekur gildi á morgun og ég hjó eftir því, sem varðar einmitt umræðuefnið hér um valdmörk stjórnvaldsheimilda, og mér finnst kannski ekki nógu góður bragur á því, að reglugerð sem þessi er í fyrsta lagi ekki með einhvers konar sólarlagsákvæði þótt henni sé greinilega ætlað, eins og hefur verið rætt um, að gilda bara fram til 4. nóvember, ef ég man rétt. En allt að einu er síðan ákvæði til bráðabirgða í þessari reglugerð þar sem tiltekin eru atriði sem beinast að höfuðborgarsvæðinu. Það er ljóst af þessu bráðabirgðaákvæði að það er ýmis starfsemi sem verður áfram ekki heimil; hárgreiðslustofur, nuddstofur, húðsnyrtistofur, hundasnyrtistofur af einhverjum ástæðum, það kunna að vera einhver mjög skynsamleg rök fyrir því, og svo segir: og önnur sambærileg starfsemi. Ég myndi telja að betur færi á því að hafa skýrt ákvæði um það hvaða starfsemi er ætlað að vera lokað og það gildi um það sólarlagsákvæði, hvenær það falli úr gildi. Þetta þarf að vera aðeins skýrara.

Mér hefur fundist bera á nokkurri upplýsingaóreiðu af hálfu stjórnvalda, það hryggir mig að þurfa að segja það en það er einhver óreiða á upplýsingunum og skýrleika reglna sem í gildi eru. Þrátt fyrir allar þessar fínu gáttir, rafrænu gáttir og vefsíður, sem menn hafa verið að hampa hér á undanförnum misserum, held ég að stjórnvöld gætu gert miklu betur í því að koma þessum skilaboðum á framfæri.

Að lokum vil ég segja þetta. Grundvallarspurningin sem stjórnvöld þurfa að svara og Alþingi er: Hvert er markmið aðgerðanna? Upphaflega var það að fletja kúrfuna til að gefa Landspítalanum færi á að takast á við smit og veika einstaklinga. Það gekk svo ljómandi vel og það liggur fyrir að það er ekki vandamál í dag. Spítalinn hefur verið fullfær um að takast á við þau veikindi sem upp hafa komið alveg frá upphafi þótt að sjálfsögðu hafi kannski verið meira álag á sumum tímum. En spítalinn hefur verið fullfær um að takast á við þetta. Það er því ekki ástæða þess að fletja smitkúrfuna þannig með vísan til spítalans. Það er auðvitað markmið að draga úr hópsmitum í sjálfu sér til að halda þeim í lágmarki en svo er nýtt sjónarmið núna að bæla veiruna, er það kallað, jafnvel að eyða henni allri þrátt fyrir að menn hafi margoft ítrekað að veirunni verður ekki eytt hérna á Íslandi. Um leið og öllum aðgerðum verður létt, segjum að það verði nú í nóvember, þá má öllum vera ljóst að smitum mun fjölga eitthvað. Aðalmarkmiðið hlýtur að vera, eins og ég segi, að spítalinn verði í stakk búinn til að takast á við þessa veiru eins og annað sem á honum dynur.

En ég vil ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu líka: Ef það á að vera þannig að gripið verði til aðgerða með þessum hætti ótt og títt, með reglugerðum eða öðru, þá tel ég óhjákvæmilegt að Alþingi láti það sig varða með áþreifanlegri hætti en hingað til. Þótt þessi umræða sé allra góðra gjalda verð, það er samt vont að geta ekki veitt andsvör við ræðum, tel ég heppilegt að Alþingi eigi milliliðalaust samtal við sóttvarnayfirvöld og eigi einhvers konar vettvang um þær sóttvarnaaðgerðir sem gripið er til með stjórnvaldsfyrirmælum í þeim tilgangi mögulega að setja lög þegar þörf er á vegna þess að reglurnar duga skammt.