151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

200. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við tókum hér sameiginlega þá ákvörðun að fela Skattinum ótrúlega viðamikil verkefni í vor. Skatturinn hefur skilað þeim verkefnum af miklum sóma, hygg ég að óhætt sé að fullyrða, og er reynt að koma til móts við og jafnvel sjá aðeins í gegnum fingur sér þó að eitthvað sé ekki alveg eins og það ætti að vera hjá viðkomandi aðila sem þarf á stuðningi að halda. En til að gleðja hv. þingmann áfram, vegna þess að ég er greinilega í því hlutverki, vil ég upplýsa að á fundi efnahags- og viðskiptanefndar á morgun munu fulltrúar Skattsins fara í gegnum hverja einustu aðgerð. Hefur Skatturinn sent sérstakt minnisblað til nefndarmanna efnahags- og viðskiptanefndar þess efnis þar sem allar þessar upplýsingar liggja fyrir og verður fjallað um það á fundi nefndarinnar á morgun. Þar er hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fulltrúi hv. þingmanns.