151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

loftslagsmál.

32. mál
[18:48]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U):

Virðulegi forseti. Fyrir tveimur vikum féll aurskriða úr Hleiðargarðsfjalli í Eyjafirði. Líklega er þetta nýjasta dæmið sem við eigum um afleiðingar þess að sífreri er að hverfa úr jörðu vegna hlýnunar hér á landi. Fyrir mánuði gerðist það síðan í annað skipti í sögunni að bandaríska veðurstofan kláraði árlegan nafnalista fellibylja. Auknar öfgar í veðurfari leiddu til þess að stafrófið dugði ekki lengur til. Það ríkir neyðarástand í loftslagsmálum og til að bregðast við því þurfum við öll að leggja okkur meira fram.

Hér mæli ég fyrir frumvarpi þar sem lagðar eru til einfaldar og afmarkaðar breytingar til að styðja við metnaðarfyllri skref og varanlegri stefnu Íslands í baráttunni gegn hamfarahlýnun.

Í fyrsta lagi legg ég til meiri metnað, að lögfesta markmið um kolefnishlutleysi 2040 og 70% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Í öðru lagi er hér lagt til aukið aðhald með því að koma á laggirnar öflugra loftslagsráði sem sé skipað óháðum sérfræðingum og virki sem einhvers konar varðhundur loftslagsins gagnvart yfirvöldum. Í þriðja lagi eru hér breytingar til að dýpka umræðuna um loftslagsmál. Þetta felst m.a. í því að árlega taki Alþingi loftslagsmál sérstaklega til umfjöllunar og því að tillaga að aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum komi hingað inn á þing og verði staðfest af Alþingi sem þingsályktun. Með þessu væri hægt að styrkja til muna baráttuna gegn loftslagsbreytingum, en það er einfaldlega þannig að ef kerfið utan um loftslagsmál er veikt þá endurspeglast það beint í árangri.

Ég ætla að fara í stuttu máli yfir þessi þrjú meginatriði og byrja á auknum metnaði. Það voru nefnilega mikil vatnaskil í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þegar ríki heims náðu saman um Parísarsamninginn árið 2015, ekki bara vegna þess að heimurinn var allt í einu sammála um að nú ættum við að stefna að því að halda hlýnun jarðar innan 1,5°C heldur að ríkin skyldu sammælast um það að gera alltaf betur. Á fimm ára fresti eiga aðilar að Parísarsamningnum að senda uppfærð markmið, metnaðarfyllri markmið sem eru líklegri til að skila þeim árangri sem ætlast er til. Þetta skiptir gríðarlegu máli vegna þess að þau markmið sem lögð voru fram í fyrstu lotu eftir samþykkt Parísarsamningsins duga engan veginn til.

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna tekur árlega saman allar skuldbindingar og áætlanir sem ríki hafa gert í loftslagsmálum og birtir í skýrslunni Emissions Gap Report. Í síðustu útgáfu skýrslunnar, sem kom út fyrir rétt tæpu ári, var niðurstaðan sú að fyrirliggjandi áætlanir myndu leiða til, ekki 1,5°C hlýnunar, ekki einu sinni 2°C hlýnunar, sem er varamarkmið Parísarsamningsins, heldur 3,2°C hlýnunar á öldinni. Það liggur því fyrir að öll ríki heims þurfa að skila inn uppfærðum markmiðum. Og þau eru byrjuð á því vegna þess að í ákvörðun sem var tekin á grundvelli Parísarsamningsins sammælast ríkin um að þessi uppfærðu markmið skuli liggja fyrir 9–12 mánuðum fyrir aðildarríkjafund loftslagssamningsins. Sá tímafrestur rann út í febrúar síðastliðnum miðað við það að fundurinn hefði verið haldinn núna í nóvember, sem að vísu verður ekki sökum Covid en fresturinn rann út áður en Covid fór að setja allt úr skorðum. Á þeim tímapunkti höfðu aðeins þrjú ríki skilað inn uppfærðum markmiðum: Marshalleyjar, Súrínam og Noregur. Upp á okkar samhengi skiptir Noregur sennilega mestu máli þar sem Noregur, líkt og Ísland í gegnum aðild sína að EES-samningnum, deilir byrðum gagnvart Parísarsamningnum með Evrópusambandinu. Noregur ákvað nefnilega í febrúar að stíga skrefi lengra en fyrir fimm árum. Noregur skilaði því nýja markmiði til Sameinuðu þjóðanna að auka metnað sinn úr 40% samdrætti í losun upp í 55%. Þetta gerði ríkisstjórn Noregs annars vegar til að sýna gott fordæmi, til að nýta sína rödd á alþjóðavettvangi og til að hvetja önnur lönd áfram, en hins vegar gerði norska ríkisstjórnin þetta bara af fyrirhyggju vitandi að Evrópusambandið væri í þann mund að auka sinn metnað líka vegna þess að á svipuðum tíma og norska ríkisstjórnin ákvað þetta þá kynnti framkvæmdastjórn ESB grænan samfélagssáttmála sem kveður m.a. á um það að stefnt skuli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda upp á 50–55%. Norska ríkisstjórnin sá þetta og frekar en að bíða þess að Brussel næði að semja um sameiginlegt markmið ESB og taka því sem orðnum hlut, sagði ríkisstjórnin bara: Nú ætlum við að gera þetta fyrst.

Ísland hefur hins vegar ekki uppfært markmið sín gagnvart Parísarsamningnum. Í aðgerðaáætluninni sem kom út hér á landi í júní síðastliðnum segir að Ísland muni taka þátt í uppfærslu markmiðanna eins og önnur ríki. Það er ekkert vikið að því að í rauninni hefði Ísland þegar átt að vera búið að því. Það er líka umhugsunarefni að í þessari aðgerðaáætlun birtist viss stöðnun í markmiðum frá þeirri fyrri. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnar Íslands frá árinu 2018 boðaði 30–40% samdrátt í losun. Uppfærð aðgerðaáætlun frá 2020 miðar við 35% samdrátt í losun. Sumum þætti 35% vera það sama og 30–40% þannig að metnaðurinn væri ekki að aukast. Við getum svo sem huggað okkur við það að nýja aðgerðaáætlunin var mun betur unnin, alveg ofan í kjölinn, en sú fyrri þannig að losunin var metin á traustari forsendum og þar með var kannski raunhæfara að ná því 35% markmiði sem birtist á þessu ári en því sem birtist 2018.

Hins vegar er sömuleiðis umhugsunarefni að ekki liðu nema þrír til fjórir mánuðir þar til ein af aðgerðum áætlunarinnar frá því í júní var fokin út í veður og vind, þegar hæstv. umhverfisráðherra tilkynnti það hér í þingsal að fallið yrði frá urðunarskatti sem átti að standa fyrir hluta af þeim samdrætti í losun sem boðaður var í aðgerðaáætluninni. Það leiðir mig að næsta atriði sem snýst um aukið aðhald með markmiðasetningu stjórnvalda, eða hvað eigum við að kalla það, við getum kallað það raunveruleikatékk. Hvernig hefði t.d. verið ef óháður aðili með tæki og tól til að meta áætlun stjórnvalda í júní síðastliðnum hefði getað rennt yfir hana og komist á þeim tímapunkti að því að urðunarskatturinn væri ekki að fara að komast á koppinn, eins og kom síðan í ljós í haust. Hvað ef óháður aðili hefði getað rýnt alla áætlunina og sagt til um hvað af þessu væri líklegt, hvað af þessu væri ólíklegt til að standast, hvað væri raunhæft og hvað ekki, til að undirbyggja opinbera umræðu og þær ákvarðanir sem eru teknar á grundvelli þessarar stefnu.

Þetta er hlutverk sem ég lagði til ásamt nokkrum öðrum þingmönnum í frumvarpi sem var lagt fram hér á þingi í desember síðastliðnum, að loftslagsráð hefði þetta rýni- og aðhaldshlutverk. Þetta er mjög mikilvægt hlutverk sem það hefur ekki að gildandi lögum. Í umræðu sem kviknaði við það frumvarp og í umsögnum sem komu fram við það var bent á að það myndi ekki duga og mögulega ekki ganga upp að fela loftslagsráði að óbreyttu að hafa þetta hlutverk.

Það sama kom síðan fram í sumar þegar skýrsla Capacent um framtíðarfyrirkomulag í stjórnsýslu loftslagsmála kom út. Þar var dregið fram að loftslagsráð er í ákveðinni klemmu, það er með tvíþætt hlutverk. Það er báðum megin borðsins. Annars vegar á það að rýna það sem stjórnvöld eru að gera, vera dálítið krítískt. Hins vegar á það að ráðleggja stjórnvöldum, það á sem sagt að hjálpa stjórnvöldum að leggja grunninn að því sem það á síðan að vera í færum með að gagnrýna. Svo að við tökum bara hliðstæðu í lögum um opinber fjármál þar sem fjármálaráð, ráð óháðra sérfræðinga, á að rýna stefnumörkun hins opinbera, þ.e. fjármálaáætlun. Það dytti engum í hug að láta fjármálaráð koma nálægt því að semja fjármálaáætlun. Það á að koma hreint að borðinu og geta litið hana gagnrýnum augum. Þannig höfum við mest gagn af yfirlestri sérfræðinganna. Síðan er það hitt atriðið sem torveldar störf loftslagsráðs vegna þess að í loftslagsráði eiga sæti ekki bara sérfræðingar heldur líka ýmsir hagaðilar í loftslagsvinnu, fulltrúar atvinnulífsins, fulltrúar félagasamtaka, ýmsir ólíkir aðilar. Það er mjög mikilvægt að þessi hópur og sem breiðastur hópur komi að borðinu þegar stjórnvöld ræða aðgerðir í loftslagsmálum. En það á ekki að vera innan þess loftslagsráðs sem rýnir aðgerðir stjórnvalda, eins og segir í úttekt Capacent, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að faglegt og hlutlaust mat sé reglulega lagt á árangur stefnumörkunar og aðgerðaáætlanir stjórnvalda líkt og á Norðurlöndunum og í Bretlandi, t.d. með skýrslugerð til þingsins. Breiður samvinnuvettvangur hagaðila í loftslagsvinnu þarf að vera til staðar. Verði ráðinu áfram falið þetta tvíþætta hlutverk þarf að aðgreina betur á milli. Þá er mikilvægt að formfesta ráðgjafarhlutverkið frekar líkt og dæmi eru um á Norðurlöndunum.“

Það sem ég er að leggja til, frú forseti, er einfaldlega að taka þessa ábendingu úr skýrslu Capacent og færa hana í lög, að loftslagsráð sé skipað sérfræðingum, fimm einstaklingum sem skipuð séu samkvæmt tilnefningu annars vegar Alþingis, hins vegar samstarfsnefndar háskólastigsins, einstaklingum sem hafi menntun sem samrýmist markmiðum laganna og tilgangi loftslagsráðs. Þetta getur verið ýmiss konar menntun, þetta gætu verið hagfræðingar, líffræðingar, verkfræðingar og eðlisfræðingar og hvað það heitir. En þetta væru sérfræðingar.

Jafn mikilvægt væri, líkt og lagt er til í frumvarpinu, að setja á laggirnar það sem ég hef kallað loftslagsvettvang í því skyni að efla samtal og samstarf stjórnvalda við atvinnulífið, háskólasamfélagið, sveitarfélög og umhverfisverndarsamtök, hvern þann sem gæti haft eitthvað fram að færa í baráttunni í þágu loftslagsmála. Samhliða þessu þyrfti að styrkja loftslagsráðið með sjálfstæðum fjárhag og umboði til að sinna ýmsum verkefnum að eigin frumkvæði, að loftslagsráð yrði einhvers konar ígildi hugvits, yrði sérfræðingur í loftslagsmálum í þéttu samstarfi við þær stofnanir sem þegar sinna verkefnum á þessu sviði líkt og Umhverfisstofnun eða Veðurstofan. Þar safnist saman það nýjasta í vísindaþekkingu og þar sé hægt að grípa til þess að rýna hverjar þær aðgerðir stjórnvalda sem fulltrúum í loftslagsráði þykir ástæða til, vegna þess að það er ekki bara aðgerðaáætlunin sjálf sem kallar á beitta rýni sérfræðinga heldur ýmiss konar frumvörp sem hingað koma, ýmiss konar fjárfestingaráætlanir, alls konar reglugerðir og hvað það nú heitir, sem ríkisstjórnin kann að grípa til. Ef loftslagsráð á að vera það sem er kallað varðhundur loftslagsins þá þarf það að vera dálítið frjálst til þess.

Það er rétt að nefna, eins og kom fram áðan í tilvitnuðum texta úr úttekt Capacent, að hér er ekkert verið að finna upp hjólið. Lögbundin markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda eru t.d. til staðar í Danmörku og Noregi. Danir fóru upp í 70% í vor, líkt og lagt er til í þessu frumvarpi, eru með einna metnaðarfyllsta markmiðið fyrir 2030 af þeim löndum sem við berum okkur saman við. Hlutlaust loftslagsráð sérfræðinga sem rýnir aðgerðir stjórnvalda er til staðar á Norðurlöndunum og Bretlandi. Nú er verið að ræða að setja slíkt á laggirnar í Evrópusambandinu í samhengi við aukinn metnað sem er til umræðu á milli þings og framkvæmdastjórnar þar. Með því að samþykkja þessar breytingar væri því engan veginn verið að ganga lengra en gerist hjá þeim sem best gera.

Þriðja atriðið sem ég nefndi í upphafi var mikilvægi þess að dýpka umræðu um loftslagsmál og að nota þingið sem vettvang til þess, annars vegar með því að festa í sessi árlega sérstaka umræðu um loftslagsmál í þessum sal sem geti, bara eftir því hvernig stendur á í misserinu, tekið sérstaklega til umfjöllunar aðgerðaáætlun stjórnvalda eða hvernig gengur að framfylgja henni, ársskýrslu verkefnisstjórnar í loftslagsmálum, álitsgerð loftslagsráðs eða hvaðeina tilfallandi sem kemur frá því það misserið. Síðan er ekki síður mikilvægt, að ég tel, að aðgerðaáætlunin sjálf rati hingað í þingsal og þá í formi þingsályktunartillögu. Þar er aftur sótt í brunn laga um opinber fjármál því að þetta er sama form og er í kringum fjármálaáætlun. Það er alveg eðlilegt að langtímastefnumörkun stjórnvalda komi í þennan sal til umræðu. Það sem er lagt til er að eigi síðar en sex mánuðum eftir að ríkisstjórn hefur verið mynduð komi slík tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir þingið og henni fylgi síðan álitsgerð loftslagsráðs til þess að við getum átt almennilega umræðu um það hvert er verið að stefna, byggða á vísindum og gögnum svo að við lendum ekki í því fjórum mánuðum eftir að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum er kynnt komi í ljós að ein aðgerðin hafi bara alls ekki verið á grænu ljósi milli stjórnarflokkanna eins og gerðist með urðunarskattinn núna yfir sumarið.

Forseti. Ég hef gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins, vísa annars til greinargerðar varðandi ítarefni, þetta er nokkuð löng greinargerð sem ég las ekki frá orði til orðs. En með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar einfaldar breytingar á kerfinu sem heldur utan um aðgerðir stjórnvalda gegn loftslagsbreytingum. Þetta eru kerfisbreytingar sem geta skilað miklu markvissari aðgerðum og haldið stjórnvöldum við efnið, ekki bara á þessu kjörtímabili og ekki því næsta heldur einhver ár fram í tímann. Með því að lögfesta töluleg markmið og festa í sessi rýni á aðgerðum stjórnvalda höfum við bein áhrif á árangur í loftslagsmálum. Það er einfaldlega þannig að sterkara kerfi utan um stefnu í loftslagsmálum endurspeglast beint í auknum árangri í baráttunni gegn hamfarahlýnun. Um það markmið hljótum við að vera sammála og því vona ég að frumvarpið nái fram að ganga.