151. löggjafarþing — 10. fundur,  19. okt. 2020.

loftslagsmál.

32. mál
[19:18]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af leiðunum er nóg. Ég held að þær vanti ekki, einfaldlega vegna þess að Ísland hefur staðið sig svo illa á síðustu árum og áratugum. Losun gróðurhúsalofttegunda hefur aukist töluvert frá 1990 til ársins í ár, um einhvers staðar á milli fjórðungs og þriðjungs, að ég held, á sama tíma og við höfum verið skuldbundin til að draga úr losun.

Tækifærin eru næg. Ef við skoðum bara loftslagsáætlun stjórnvalda þá erum við enn á þeim stað í henni að við erum aðallega með einhver ívilnanakerfi. Við erum með ívilnanir til að fólk kaupi frekar rafmagnsbíla, en enn er ekki farið að búa til hina hliðina á því kerfi, sem er að herða gjöld á mengandi bíla. Það er það sem hefur látið kerfið í Noregi t.d. virka svona vel árum saman, samhliða því að lækka verðið á rafmagnsbílum hefur það verið hækkað á bensínbílum. Okkur gengur ágætlega þessa dagana að skipta út bensínbílum fyrir rafmagnsbíla, en það gæti gengið betur ef kerfið væri smurt með þessum hætti.

Síðan erum við ekki farin af stað í neinar kerfisbreytingar, og þetta er kannski það sem urðunarskatturinn endurspeglar svo vel. Urðunarskatturinn er mjög einföld og hófsöm kerfisbreyting sem snýst bara um að fólk borgi fyrir það að skila af sér óflokkuðum úrgangi til urðunar, sem er sísta úrræðið þegar kemur að því að losa sig við úrgang. Það fékkst ekki í gegn. Það er agnarlítil breyting á kerfi en það náðist ekki samstaða um hana á milli stjórnarflokkanna. Ímyndum okkur (Forseti hringir.) bara hversu margar kerfisbreytingar, enn stærri en urðunarskattur, bíða þess eins hér úti í samfélaginu (Forseti hringir.) að hafa kjarkaðra fólk við stjórnvölinn.