151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að vekja athygli á iðngreinum, iðnnámi og fagmennsku í tilefni þess að verið er að tala um framtíðina. Iðnir spanna, eins og allir vita, allt frá skósmíðum upp í rafiðnir og byggingariðnir og móta augljóslega allt líf okkar. Oft er sagt að staða þessara greina sé mælikvarði á lífsgæði og velmegun þjóða. Ég skil eftir þá spurningu hér hvort við séum góð í þessu eða ekki. Núna er hljóðlátlega verið að endurskoða allt regluverk og umhverfi iðngreina í landinu. Við höfum lítið fregnað af því í þessum sal. Það er búið að margræða síðastliðin ár hversu mikilvægt það er að efla iðnnám í landinu og ég get svo sem sagt að ráðherrar, eins og hæstv. ráðherra menntamála og menningarmála og svo aftur ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, sýna þessu áhuga. Og það er gott. Ég get líka sagt sem svo að endurskoðun á þessu regluverki er jafnan tímabær á hverju tímaskeiði, en þá er jafn tímabært að tryggja gæði iðngreina og starfa iðnaðarmanna og tryggja að fullnægjandi verkþjálfun iðnnema fari raunverulega fram, að tryggja bestu þekkingu og varðveislu hennar og tryggja meistaraskyldar iðngreinar jafnt sem þær frjálsu og ríghalda í fagmennsku, með öðrum orðum, slaka ekki á kröfu um löggildingu.

Verið er að ræða um nýjan iðnskóla á höfuðborgarsvæðinu. Mér líst í sjálfu sér ágætlega á það ef honum fylgja iðnnemagarðar. Þar þarf að tryggja að námið sé opið framhaldsskólanám og að hægt sé að komast lengra ef menn vilja, á efri stig. Þannig að þegar allt kemur til alls og hugmyndin um að stofna hér handverksstofnun eða iðnstofnun til samræmingar, er ljóst að við höfum verk að vinna.