151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Af fréttum að dæma tók hv. velferðarnefnd til umræðu í gær ástandið á Landspítalanum, ef má kalla það sem svo, og fékk til sín gesti til að ræða möguleikann á því að Landspítalinn yrði á einhvern hátt aðstoðaður, fengi hjálp við að losna við þá sjúklinga sem blessunarlega hafa læknast á spítalanum og þurfa í rauninni ekki að liggja lengur inni á spítalanum. Það var ánægjulegt að lesa um þetta í fréttum. Ég segi það að þótt maður standi hér sem þingmaður þá er það oft svo að maður fréttir af nefndastörfum í gegnum fréttirnar. En ef marka má fréttir virtist vera einhver samstaða, a.m.k. í velferðarnefnd, um það að menn leiti allra leiða til þess að fá utanaðkomandi aðila til að aðstoða spítalann með þetta brýna verkefni. Núna í morgun, og reyndar síðustu vikur líka, hafa borist af því fréttir að einkaaðilar sem þekkja til í þessum rekstri og hafa nú þegar slíkan rekstur með höndum við það að reka heimili fyrir eldri borgara, hjúkrunarheimili og þess háttar, hafa boðist til þess liðsinna spítalanum með þetta. Ég las áhugaverða hugmynd um að nýta hótelin sem nú standa hér tóm. Þau eru auðvitað til þess fallin að nýta í þessum tilgangi.

Ég vil hvetja hv. velferðarnefnd til þess að halda svolítið utan um þetta mál, láta ekki umræðuna í gær nægja heldur taka málið upp ítrekað og reglulega á næstu dögum. Ég heyri það að ráðuneyti heilbrigðismála hefur lýst því yfir að það muni svara þessum erindum, en ég tel brýnt og fullt tilefni fyrir hv. velferðarnefnd að fylgja þessu máli eftir á næstu dögum.