151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir um þremur korterum tók Alþingi við 43.423 undirskriftum þess efnis að við setjum nýja stjórnarskrá, grundvallaða á frumvarpi stjórnlagaráðs.

Fyrir helgi lögðu tveir þingflokkar og tveir þingmenn utan þingflokka fram frumvarp sama efnis, frumvarp til stjórnarskrár grundvallaðrar á frumvarpi stjórnlagaráðs. Á morgun gerum við ráð fyrir því að taka það frumvarp til umræðu. Það er í sjálfu sér gott, reyndar með fyrirvara um fyrirsjáanleikann á Alþingi almennt.

Ég spurði í gær hæstv. forsætisráðherra út í það hvernig hún liti svo á að hægt væri að útskýra fyrir þjóðinni að ekki væri farið eftir þeirri leiðsögn sem birtist í undirskriftasöfnuninni sem við fengum afhenta í dag eða þeirri leiðsögn sem kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni fyrir nákvæmlega átta árum í dag, þann 20. október 2012.

Hæstv. ráðherra svaraði með því að tiltaka nokkur gagnrýnisatriði frá Feneyjanefndinni 2013. Nú er gott og blessað að leggja fram gagnrýni. Mig langar að endurvarpa nákvæmlega þeim punkti. Það er gott og blessað. En það felur í sér að það eigi að nýta þá gagnrýni til þess að bæta málið. Það er ekkert því til fyrirstöðu. Því miður er það eitthvað sem hefur hins vegar ekki verið gert af hæstv. forsætisráðherra, sennilega, hygg ég, vegna stjórnarsamstarfsins við Sjálfstæðisflokkinn og Framsókn … [Jarðskjálfti.]

(Forseti (SJS): Sitjið bara róleg. (Gripið fram í.) Þetta var alvöru.)