151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við þær aðstæður sem nú ríkja, með tilheyrandi auknu álagi á heilbrigðiskerfið, kemur skýrt í ljós ákveðinn vandi sem við er að etja og má rekja til ákvarðana stjórnvalda, og ekki bara í tíð þessarar ríkisstjórnar svo að sanngirni sé gætt. En staðan hefur sannarlega ekki lagast undanfarin ár. Landspítalinn hefur í mörg horn að líta, sem aldrei fyrr. Covid-faraldurinn veldur slíku álagi á starfsfólk spítalans að það er með hreinum ólíkindum hversu vel þau standa vaktina. Stjórnendur og starfsfólk eiga mikið hrós skilið en það er auðvitað komið að þolmörkum. Biðlistar eftir aðgerðum lengjast og mikil orka fer í að leita leiða til að koma fólki fyrir á sjúkrahúsinu sem er yfirfullt á sama tíma og aldraðir geta ekki útskrifast vegna skorts á úrræðum.

Þetta eru gamalkunnar áskoranir. Það er stundum talað um mikilvægi þess að vera ekki alltaf að finna upp hjólið. Við erum svolítið í því að finna alltaf upp áskoranir, sömu áskoranirnar aftur og aftur. Nú er hætt við því að enn og aftur verði þeim mætt með sérstöku átaki þvert á varnaðarorð þeirra sem best þekkja til og biðja um stefnu til lengri tíma í stað skyndilausna. Hvort sem litið er til skemmri eða lengri tíma virðist sama tregðan ríkja hjá stjórnvöldum við að horfa út fyrir boxið og nýta krafta þeirra fjölmörgu sem hafa getu, færni og vilja til að hlaupa undir bagga og verða hluti af lausninni. Það er raunverulega þannig að stjórnvöld hafa tilhneigingu til að sjá þessa aðila sem hluta af vandanum frekar en lausninni, allt vegna þess hvaðan þeir koma.

Þegar um er að ræða hagsmuni fólks sem býr annars vegar við verulega skert lífsgæði vegna ástands sem er tiltölulega auðvelt að laga og hins vegar hagsmuni eldra fólks sem á sannarlega annað og meira skilið af okkur í samfélaginu en að vera afgreidd sem afgangsstærð, þá er þetta óboðlegt. Við þurfum langtímastefnu þar sem fara saman hagsmunir þeirra sem nýta þjónustuna, þeirra sem veita hana og þeirra sem greiða hana. Við þurfum stjórnvöld sem þora að líta á þessi mál með gegnsæi og jafnræði að leiðarljósi.