151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðnar áhyggjur af því að ekki muni nást fram sátt um það auðlindaákvæði sem ríkisstjórnin hefur lagt á borðið. Að mínu mati virðist ákvæðið frekar vera til að halda stjórnarflokkunum sjálfum saman en að treysta betur rétt þjóðarinnar til sameiginlegra auðlinda. Hæstv. forsætisráðherra skrifaði grein um skuld Alþingis á dögunum en þar gleymdi ráðherrann lykilatriðinu að hún er sjálf verkstjórinn. Það er á hennar ábyrgð að leggja fram tillögur sem eru í samræmi en ekki í ósamræmi við traustar vísbendingar um meirihlutavilja þjóðarinnar.

Skuld Alþingis við þjóðina hlýtur því að vera sú að taka tillit til þess og reyna að greina þann vilja sem er hjá þjóðinni. Þrátt fyrir dræma þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 samþykkti engu að síður yfirgnæfandi meiri hluti að leggja tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar. Niðurstaðan er því leiðbeinandi um vilja þjóðarinnar í ákveðnum dráttum, eins og í auðlindamálum. Það kemur hins vegar ekki á óvart að forysta Sjálfstæðisflokksins til að mynda reynir að afvegaleiða umræðuna í stað þess að ræða efnislega um prinsippmálið sjálft, að við verðum að tímabinda samninga um auðlindir okkar til að tryggja raunverulega sameign þjóðarinnar. Það má raunverulega túlka þetta þannig að þrír fjórðu hafa viljað þjóðareignarákvæði, algerlega óháð efninu, og tveir þriðju hafi síðan stutt tímabindingu. Það er algerlega afdráttarlaust. Einbeittur vilji Sjálfstæðisflokks til að fara gegn öllum þeim tillögum sem miða að tímabindingu afnotaréttar og tryggja sameign þjóðarinnar, hvort sem það er í gegnum þverpólitíska niðurstöðu auðlindanefndar frá árinu 2000 eða efnislegar tillögur stjórnlagaráðs, kemur ekki á óvart.

Hver svo sem afstaða okkar er til þess hvort við viljum nýja stjórnarskrá, breyta eða bæta núgildandi stjórnarskrá, eins og ég hef verið hlynnt og er hlynnt, eða engar breytingar á stjórnarskrá, eins og sumir virðast vilja, þá hvílir engu að síður sú skylda á okkur að reyna að greina þennan þjóðarvilja. Þannig virkar lýðræðið. Ekki bara greina sérhagsmunavilja baklands stjórnarflokkanna. Þetta mál snýst ekki um það að slá einhverjar pólitískar keilur á Twitter. Það er miklu stærra en svo. Við eigum einfaldlega hér inni að gera mun betur í þessum málum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)