151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:08]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Er tannheilsa heilbrigðismál, eins og annað varðandi heilsufar okkar, líkamlegt eða andlegt? Af hverju er tannlæknakostnaður ekki almennt niðurgreiddur eins og önnur læknisþjónusta? Þó verð ég taka fram að í reglugerð um þátttöku Tryggingastofnunar er tekið fram að afsláttur er fyrir þá sem eru 67 ára og eldri, fyrir þá sem eru með 75% örorku, fyrir börn yngri en 18 ára, fyrir elli- og örorkulífeyrisþega sem fá greidda tekjutryggingu, og öryrkja sem eru 67 ára og eldri sem ekki fá greidda tekjutryggingu frá Tryggingastofnun. Þetta er töluverður afsláttur og sums staðar er hann 100%. En það sem mér er efst í huga er hinn almenni borgari, þeir sem eru lægra launaðir, þeir sem ekki hafa efni á að fara til tannlæknis. Það er mjög dýrt.

Ég hef það fyrir víst að tannlæknar tali um að tannheilsu okkar hafi almennt hrakað síðustu ár. Fólk býr við lakari tannheilsu vegna þess að það hefur ekki efni á að fara til tannlæknis. Það sker niður þann kostnað. Það er mjög alvarlegt mál því að fyrir utan vanlíðan getur slæm tannheilsa leitt af sér miklu fleiri sjúkdóma en bara tannsjúkdóma. Þarna er fyrsta stig meltingarinnar, þ.e. í munninum, og það skiptir miklu máli. Þetta er líka jafnréttismál. Jafnt aðgengi að heilbrigðisþjónustu ætti að vera algjört, en það er það ekki í þessu tilviki. Mér finnst brýnt að stjórnvöld taki á þessu máli til aukins jafnréttis fyrir alla hvað tannlækningar snertir.