151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:10]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það skiptir máli hvernig við skipuleggjum samfélagið. Gott skipulag getur tryggt þjóð frið og farsæld en slæmt skipulag getur búið til valdaójafnvægi, ýtt undir tortryggni og úlfúð og grafið undan getu mannlegra samfélaga til að leysa sitt stærsta og mikilvægasta verkefni, að lifa og lifa vel. Margt hefur verið sagt um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og margt verður sagt til viðbótar. Endalausar tilraunir til að draga úr mikilvægi málsins, drepa því á dreif og bulla, hafa þó ekkert gert til að breyta þeim grundvallarveruleika að þjóðin kallaði eftir nýju skipulagi eftir hrun og það skipulag er ekki enn komið. Á þessum degi, átta árum eftir að þjóðin greiddi atkvæði með skýrum hætti til stuðnings vegferð sem við lögðum einmitt upp í vegna þess að gamla skipulagið hafði brugðist, langar mig að segja þrennt:

Í fyrsta lagi: Það að grundvallarskipulag samfélagsins skuli ekki enn hafa tekið breytingum í samræmi við vilja þjóðarinnar átta árum síðar er til marks um að skipulagið hafi einmitt skapað valdaójafnvægi sem kemur núna í veg fyrir nauðsynlegar og eðlilegar breytingar.

Í öðru lagi: Sú tortryggni sem margir stjórnmálamenn, einkum ríkisstjórnarmegin í augnablikinu, upplifa gagnvart störfum sínum er réttlætanleg því að pólitíska stéttin hefur stórskaðað trúverðugleika sinn gagnvart almenningi með því að hunsa þjóðarvilja af ákefð í átta ár.

Í þriðja lagi: Þeir stjórnmálamenn sem hafa staðið í vegi fyrir nýrri stjórnarskrá, vegna ótta um að missa frá sér vald, þurfa að fara að átta sig á því að það er í þeirra höndum, og eingöngu þeirra höndum, að binda enda á úlfúðina sem ríkir gagnvart þeim og framferði þeirra.

Klárum þetta. Það er löngu tímabært. Nýja stjórnarskrá, takk.