151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Við viljum nýja stjórnarskrá og við viljum að þjóðaratkvæðagreiðslur séu virtar. Það er rétt að minnast þess á þessum degi hvers virði þær geta verið. En ég hef líka verulegar áhyggjur af stöðu sveitarfélaga í landinu, einkum þeirra sem hafa þurft að taka á sig mestan skellinn. Ég skil ekki hvers vegna hæstv. ríkisstjórn dregur lappirnar í stuðningi við sveitarfélögin í landinu.

Þann 22. apríl sl. átti hv. þm. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, orðastað við hæstv. ráðherra sveitarstjórnarmála um vanda sveitarfélaganna sem blasti við þá og hvernig ríkisstjórnin ætlaði að beita sér. Hæstv. ráðherra sagði þá að verið væri að greina stöðuna. Hálfu ári seinna hefur ekkert bólað á greiningunum frá ríkisstjórninni á meðan allir sem hafa komið að rekstri sveitarfélaga átta sig á að mörg sveitarfélög munu ekki geta rekið sig án stuðnings frá ríkinu.

Önnur ríki sem við viljum bera okkur saman við hafa heitið sveitarfélögum stuðningi til að forðast niðurskurð í nærþjónustu við íbúa og frekari fækkun starfa með frestun framkvæmda, enda er það skynsamlegt, ekki bara út frá atvinnustigi í atvinnukreppu heldur mun samdráttur í velferðarþjónustu sveitarfélaga kalla á aukinn kostnað ríkisins til lengri tíma. Auk þess er það afar slök byggðastefna því að fólkið sem fær hvorki vinnu í byggðarlögunum né félagsþjónustu þar, flytur bara í burt.

Í byrjun júní sl. lagði Samfylkingin fram, undir forystu hv. þm. Loga Einarssonar, þingsályktunartillögu um að Alþingi feli hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin undirbúi og hrindi í framkvæmd aðgerðum sem miða að því að styðja sérstaklega sveitarfélög vegna aðstæðna sem rekja má til heimsfaraldursins. Ríkið komi til móts við sveitarfélögin í gegnum jöfnunarsjóð en einnig með beinum framlögum. Slíkt mál (Forseti hringir.) munum við leggja fram aftur á næstu dögum sem eitt af forgangsmálum Samfylkingarinnar. Það er öllum ljóst sem vilja sjá að það verður að koma til móts við sveitarfélög í erfiðri stöðu.