151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:17]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Hugsunin að baki séreignarlífeyrissparnaði er sú að gefa fólki kost á viðbótarsparnaði til efri ára, bæta hag eldri borgara framtíðarinnar og létta álagi af opinbera bótakerfinu. Skattgreiðslur af þeim lífeyri ásamt vöxtum falla ekki til fyrr en við úttekt sem getur fyrst orðið við 60 ára aldur. Á liðnum árum hafa þó verið gerðar viðamiklar undantekningar á þessu fyrirkomulagi sem er vert að gefa gaum. Í fyrsta lagi hefur frá 1. júlí 2014 verið heimilt að ráðstafa iðgjaldi séreignarsparnaðar til greiðslu á höfuðstól lána vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Í öðru lagi hefur frá sama tíma verið heimilt að taka út viðbótariðgjald sem greitt hefur verið til kaupa á fyrstu íbúð. Í þriðja lagi er heimilt að taka út allt að 12 millj. kr. af séreignarsparnaði á tímabilinu frá 1. apríl á þessu ári og fram í janúar árið 2021. Samkvæmt samantekt skattsins hefur þegar verið sótt um úttektir sem nema um 23,5 milljörðum kr. og er það umtalsvert meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta eru verulegar fjárhæðir hvernig sem á er horft. Því velti ég fyrir mér hvort metin hafi verið langtímaáhrif þessarar ráðstöfunar.

Herra forseti. Ég held að það sé orðið tímabært að taka til skoðunar hvaða áhrif þessi þróun hefur á stöðu fólks þegar kemur að starfslokum, sérstaklega þegar undantekningarnar eru metnar heildstætt, hvaða áhrif þróunin hefur á skatttekjur ríkissjóðs og ekki síst hver áhrif hennar verða innan bótakerfa. Ég mun beita mér fyrir því að metið verði hvort þróunin sé æskileg og hvort hún samræmist upphaflegum markmiðum séreignarlífeyrissparnaðar. Við megum ekki vanmeta hversu stórt hagsmunamál ráðstöfunartekjur og lífsskilyrði fólks á eftirlaunum eru hjá þjóð sem stöðugt eldist.