Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, skrifar orðrétt í nýjasta blað Geðhjálpar, með leyfi forseta:

„Ástæða þess að við í Landssamtökunum Geðhjálp, í samstarfi við Píeta samtökin, opinberum töluna núna er tvíþætt. Annars vegar viljum við ræða sjálfsvíg og þann skyndilega missi, sársauka og sorg sem aðstandendur verða fyrir og hins vegar viljum við ræða þá ástæðu sem býr að baki og orsakaþætti geðheilbrigðis.“

Þá kemur fram í blaðinu að nánast enginn stuðningur eða úrræði séu í boði fyrir þann hóp barna sem elst upp hjá foreldrum með geðrænan vanda. Kona sem missti eiginmann sinn í fyrra segir orðrétt í grein á Hringbraut, með leyfi forseta:

„Ég er kona með átakanlega reynslu af því að leita allra hugsanlegra leiða til að fá hjálp fyrir fársjúkan mann sem svaf ekki svo vikum skipti og ekki ég heldur, mann sem var með miklar ranghugmyndir, mann sem gat ekki lengur tekið ákvarðanir, mann sem gat ekki lengur hugsað um börnin sín, mann sem hélt ekki lengur uppi samræðum, mann sem var kominn í annan heim en við hin, mann sem hafði aldrei orðið misdægurt en var ekki lengur skugginn af sjálfum sér.“

Geðsjúkdómar eru dauðans alvara og í minningu þeirra 39 og þeirra sem kerfið hefur brugðist stend ég hér í öskrandi þögn.

Virðulegur forseti. Komum þessum málum í lag strax.