151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

störf þingsins.

[14:22]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Þær ánægjulegu fréttir voru að berast að hæstv. félags- og barnamálaráðherra hafi skrifað undir samning við SÁÁ um að ráðuneytið muni fjármagna stöðu sálfræðings til eins árs til að auka sálfræðiþjónustu til barna skjólstæðinga SÁÁ. Einnig munu foreldrar sem leggjast inn á Vog eða fá göngudeildarþjónustu fá kynningu á sálfræðiþjónustu barna og þeim sem eiga börn á aldrinum 8–18 ára verður boðið að skrá þau í þjónustu hjá SÁÁ. Markmiðið er að hægt verði að bjóða hverju barni upp á allt að átta viðtöl hjá sálfræðingi. Þjónustan verður veitt bæði samhliða því sem foreldrar eru í áfengis- og vímuefnameðferð og þegar fjölskylda er á námskeiði í fjölskyldudeild.

Í þáttaröðinni Fósturbörn sem nú er sýnd á Stöð 2 er áheyrendum veitt innsýn í heim barna sem alast upp við neyslu foreldra og vanrækslu, oft ofbeldi. Við fáum að heyra frá börnunum sjálfum hvernig þau upplifa þessar aðstæður, hvernig þau upplifa afskipti og íhlutun barnaverndaryfirvalda. Við fáum einnig sjónarhorn foreldra, fósturforeldra og starfsmanna barnaverndar. Þættirnir eru afskaplega fræðandi og mikilvægir fyrir þjóðfélagsumræðuna.

Virðulegi forseti. Í dag vitum við hversu alvarleg áhrif það hefur á börn að búa við stöðugan ótta og óöryggi og að verða fyrir eða verða vitni að ofbeldi. Þessi sár sjást ekki með berum augum. Við vitum að alvarleg áföll ferðast á milli kynslóða og geta haldið áfram að eyðileggja. Fræðsla, skilningur og löggjöf styður við að við getum komið í veg fyrir alvarlegan skaða til framtíðar.

Sú sem hér stendur hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu sem mun fela dómsmálaráðherra að móta tillögur um rýmri lagaheimildir til miðlunar upplýsinga um heimilisofbeldi milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda, menntamálayfirvalda og lögreglu, og koma á fót samstarfsvettvangi stjórnvalda. Ef sú tillaga nær fram væri hún líka skref í rétta átt. Hún er nú lögð fram öðru sinni og er komin til allsherjar- og menntamálanefndar og því fyrr því betra, að mínu mati, að hún fái jákvæða afgreiðslu á Alþingi.