151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

loftslagsmál.

[14:42]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég var að skoða netsíðu Bændablaðsins, einu sinni sem oftar, og sá þar að meðal mest lesnu greina blaðsins eru umfjallanir um annars vegar tækifæri í ræktun hamps á Íslandi og svo öflun þörunga. Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um repjurækt á Íslandi, en það er jurt sem gæti gefið okkur tækifæri til að draga úr kolefnislosun. Ég mun einnig leggja fram þingsályktunartillögu um þörunga á næstu dögum. Pálmi Einarsson bóndi og kona hans, Oddný Anna Björnsdóttir, hafa ræktað hamp í tilraunaskyni á jörðinni Gautavík í Berufirði um skeið. Ræktunin hefur gengið vel. Í viðtali Bændablaðsins við Pálma kemur fram að hampurinn gefur Íslendingum tækifæri til að verða sjálfbærari um fjölbreytt hráefni í iðnað, eins og byggingarefni, textíl, pappír, plast, eldsneyti, matvæli, lyf og fæðubótarefni og fleira.

Herra forseti. Snúum okkur að þörungunum. Í umræddri grein Bændablaðsins kemur m.a. fram að þörungar séu 400 sinnum virkari en tré í bindingu koltvísýrings og úr þörungum megi framleiða lífeldsneyti og prótein sem dygði fyrir alla heimsbyggðina. Þörungarnir eru frumframleiðendur, en þeir framleiða a.m.k. helming alls þess súrefnis sem við drögum að okkur, jafnvel allt að 90%, Bændablaðið segir 70%. Þörungar eru einnig undirstaðan í allri fæðukeðju hafsins en þeir innihalda oft 10–100 sinnum meira af vítamínum en ávextir og grænmeti og vaxa tíu sinnum hraðar en landplöntur.

Ég hefði áhuga á að heyra skoðanir hæstv. ráðherra og sýn hans á hvort og þá með hvaða hætti við gætum nýtt okkur tækifæri sem felast í frekari ræktun og nýtingu á orkujurtum eins og hampi og repju sem og þörungum, bæði í sjó og á landi. Er ráðherra ekki sammála mér um að þarna séu stór tækifæri til að auka sjálfbærni þjóðarinnar og draga verulega úr losun kolefnis?