151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

loftslagsmál.

[14:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða umhverfismál. Það verður að segjast alveg eins og er að við Íslendingar erum umhverfissóðar. Neyslan er gígantísk og hún er svo mikil að við sjáum ekki einu sinni kuskið sem safnast hér í eigin nafla vegna velmegunar og neyslu.

Við seljum frá okkur hreina orku í skiptum fyrir orku hjá þeim sóðum sem brenna kolum, kjarnorku, olíu en stærum okkur á sama tíma af því að við séum í rosalega góðum málum. Sáttmáli er orð á blaði og við getum skrifað og sagt hvað sem er. En staðreyndin er sú að við þurfum að bretta upp ermarnar og fara að gera eitthvað í okkar málum. Plast er að ganga frá jörðinni að stórum hluta. Örplast finnst í svo miklum mæli í sjó að það er eiginlega skelfilegt og það sem er kannski enn skelfilegra er að það finnst í ís og jöklum. Heilu plastárnar streyma til sjávar í löndum Asíu og fleiri stöðum og það er skelfilegt að við skulum vera í þeirri aðstöðu.

Við búum til og ræktum skóga, en því miður er staðreyndin sú að við höfum ekki undan vegna eyðingar á skógum og líka vegna skógarelda sem eru víða, skógar brenna um alla jörð. Það furðulegasta í þessu öllu er að við erum ekki enn búin að átta okkur á því að við verðum að ganga frá iðnaðarbeltum þannig að við missum ekki alla skógana okkar í eldi.