151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

loftslagsmál.

[15:09]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum um loftslagsmál og ber að þakka Smára McCarthy fyrir þessa umræðu. Við eigum að taka börnin okkur til fyrirmyndar. Þau gera kröfu um að við tökum loftslagsmálin föstum tökum vegna þess að þeirra er framtíðin, en núna erum við að menga.

Hér hefur komið fram í umræðunni að setja eigi nýja skatta á ýmsar vörur og þjónustu til að draga úr mengun. En við eigum að einbeita okkur að því að setja skatta á þá sem mest eiga. Þeir sem eiga að borga eru þeir sem hafa það best. Ef við setjum sjálfkrafa skatta á alla þá bitnar það verst á þeim sem menga minnst og, sem er eiginlega það furðulegasta við þetta, geta bara yfir höfuð ekki mengað vegna þess að þau hafa enga fjármuni til að kaupa eitt eða neitt í boði ríkisins. Að senda þeim reikninginn er auðvitað alveg fáránlegt.

Talað er um að greiða þurfi sektir ef við stöndum ekki við sáttmálann. Hvað haldið þið að ríkisstjórnin geri til þess? Jú, hún selur bara kvóta, meiri kvóta, meiri hreinan kvóta til þeirra sem menga og sóða þarna úti. Það er örugglega hennar lausn vegna þess að það er lausn sem hún hefur áður gripið til.

Við eigum að efla gróðurhús. Í því samhengi er svolítið furðulegt að velta því fyrir sér að íslenskur rófubóndi, sem var að taka fræ af íslenskum rófum til að reyna að halda við íslenska rófustofninum, kvartaði yfir því að hún kæmi alls staðar að lokuðum dyrum. (Forseti hringir.) Hvað segir þetta um okkur?