151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

fjárstuðningur til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

201. mál
[15:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020. Með frumvarpinu er lagt til að fram verði haldið svokölluðum lokunarstyrkjum. Það úrræði var lögfest fyrr á þessu ári til að koma til móts við tekjutap minni rekstraraðila sem gert var að loka eða láta af starfsemi í mars, apríl og maí á grunni auglýsingar heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum vegna farsótta.

Í frumvarpinu er lagt til að rekstraraðilar sem gert er að sæta sömu takmörkunum frá 18. september 2020, geti sótt um lokunarstyrk úr ríkissjóði. Skilyrði styrkveitingar samkvæmt frumvarpinu eru í öllum meginatriðum sambærileg og vegna fyrri lokunarstyrkja, þó með minni háttar breytingum þar sem nú er lagt til að úrræðið gildi líka fram í tímann. Þannig er í frumvarpinu miðað við að úrræðið taki til aðila sem stunda atvinnurekstur og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Eins og áður er miðað við að úrræði standi þeim til boða sem orðið hafa fyrir a.m.k. 75% tekjufalli og í frumvarpinu er miðað við tekjufall á lokunartímabilinu, samanborið við næsta jafn langa tímabil á undan þar sem ekki kom til lokunar. Áfram er miðað við að úrræðið eigi ekki bara við um rekstraraðila sem stunda starfsemi sem er umfram ákveðið lágmark tekna, sem er í frumvarpinu 350.000 kr. á mánuði. Þá er gert ráð fyrir því skilyrði að rekstraraðilinn hafi verið í skilum með opinber gjöld um síðustu áramót og að hann hafi staðið skil á skattframtölum, staðgreiðslu, skilagreinum, ársreikningum og upplýsingum um raunverulega eigendur á þessu ári. Loks má hann ekki hafa verið tekinn til slita eða bú hans til gjaldþrotaskipta.

Eins og áður er gengið út frá því að úrræðið nái eingöngu til þeirra rekstraraðila sem gert er að loka eða stöðva ákveðna starfsemi. Í því sambandi hefur verið stuðst við auglýsingar um þetta efni.

Stærsta breytingin með frumvarpinu er hins vegar mikilvæg. Hún varðar hámarksfjárhæðir styrkjanna. Í vor var sett það hámark á styrkfjárhæðir að þær gátu ekki orðið hærri en 2,4 millj. kr. til hvers rekstraraðila fyrir lokunartímabilið frá 24. mars til 4. maí, og 1,2 millj. kr. fyrir lokunartímabilið frá 4. maí til 25. maí. Nú er lagt til að þær geti orðið mun hærri en áður ákveðnir lokunarstyrkir. Eins og áður skal fjárhæð styrks vera jafn há rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabili lokunar, en hún getur þó ekki orðið hærri en 600.000 kr. á hvern launamann hjá rekstraraðila fyrir hverja samtals 30 daga lokun, og hlutfallslega lægri fyrir styttra tímabil.

Það er þá viðmiðið að heildarrekstrarkostnaður sé ekki hærri en 600.000 kr. á hvern launamann og það takmarkar styrkfjárhæðina. Þessi hækkun á styrkfjárhæðum gerir það að verkum að ekki verður hægt að treysta því að EES-lagaramminn um minni háttar aðstoð dugi til, en samkvæmt honum mega styrkir til einstakra aðila ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur 32 millj. kr. á tveggja ára tímabili.

Til að draga þetta aðeins skýrar fram þá erum við hér að ræða um að í vor vorum við með hámark á styrkfjárhæðir til hvers rekstraraðila, annars vegar 2,4 milljónir fyrir fyrra tímabilið og hins vegar 1,2 milljónir fyrir síðara tímabilið. Hér er engu slíku til að dreifa heldur eru fjárhæðirnar að hámarki 600.000 kr. og svo margfeldi þeirra launamanna sem starfað hafa hjá viðkomandi rekstraraðila. Ég vona að þetta sé skýrt, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hámarksstyrkur geti þó ekki farið nema í 120 millj. kr.

Varðandi ríkisaðstoðarreglur EES þá höfum við í raun og veru verið fyrir utan þær vegna þess að við höfum verið í sérstöku regluverki um minni háttar aðstoð. En þar sem við erum að koma upp fyrir fjárhæðarviðmiðin sem gilda þar þurfum við að tilkynna um þetta mál. Eins og fram kemur í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að sá stuðningur sem felst í styrkjunum muni samræmast tímabundnum ramma um ríkisaðstoð til stuðnings hagkerfinu, en það tók gildi í mars 2020 á EES-svæðinu.

Ég ætla að lokum að nefna mikilvæga breytingartillögu sem nær til allra lokununarstyrkja frá upphafi, sem sagt ekki eingöngu um það tímabil sem hér er rætt um. Hún er sú að tekið sé af skarið með að skattinum sé heimilt að afgreiða umsóknir um styrki sem berast að liðnum umsóknarfresti, sem í frumvarpinu eru þrír mánuðir, en nokkuð hefur borið á því að umsækjendur hafi ekki náð að skila inn umsókn á réttum tíma. Tel ég sanngjarnt að við tökum af skarið með það í lögum og skrifum það út að heimilt sé að taka slíkar umsóknir til afgreiðslu, enda séu öll önnur skilyrði úrræðisins uppfyllt.

Að endingu vil ég nefna, þar sem óvissa ríkir um framgang farsóttarinnar og óljóst er hvort nauðsynlegt reynist að grípa til frekari samkomutakmarkana en þegar hafa verið boðaðar, að lagt er til að framhald á lokunarstyrkveitingum hafi gildistíma allt fram á mitt ár 2021. Má sérstaklega nefna í þessu sambandi að frá því að þetta mál var lagt fyrir Alþingi hefur verið gripið inn í þessi mál með framlengingu á lokun tiltekinnar starfsemi. Ég held að það hljóti að vera óumdeilt hér í þinginu að rétt sé að koma á aðeins varanlegri lagaramma en svo að við komum eftir á og tökum afmörkuð tímabil, hvert fyrir sig, til afgreiðslu. Það held ég að sé mjög til bóta og veiti meiri fyrirsjáanleika en gilt hefur um þetta efni.

Virðulegi forseti. Ég tel að með samþykkt þessa frumvarps yrði komið til móts við tekjutap rekstraraðila vegna ákvarðana stjórnvalda um takmarkanir á samkomum vegna farsóttarinnar sem nú geisar. Þessum styrkjum er ætlað að draga úr líkum á rekstrarerfiðleikum ákveðinna hópa fyrirtækja vegna þessara ákvarðana. Mér hefur ávallt þótt, og ég tók það mjög skýrt fram hér á vormánuðum, að það er sanngirnismál að við veitum slíka styrki til þeirra sem taka á sig þær byrðar sem lokunum fylgja, en þær byrðar eru að sjálfsögðu axlaðar að verulegu leyti í þágu samfélagsins alls. Með þessum orðum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.