151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

tekjufallsstyrkir.

212. mál
[15:46]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Ég verð að segja að ég hef meiri áhyggjur af einyrkjum en af fyrirtækjum með kannski þrjá starfsmenn vegna þess að listamaður eða sá sem vinnur einn sína vinnu getur lent þarna á milli. Mér finnst þetta svolítið bratt vegna þess að fólk er þarna á einhverjum mörkum, annaðhvort fær það að vera inni í kerfinu eða bara ekkert inni í kerfinu. Mér finnst það svolítið skrýtið. Það hlýtur að vera hægt að milda þetta á einhvern hátt. Svo er líka spurning um þá einstaklinga sem eru með einhverjar tekjur og komast kannski ekki inn í þetta kerfi en þurfa á því að halda. Hefði ekki verið hægt að ganga þannig frá kerfinu að þær tekjur sem þeir hefðu drægjust frá en þeir fengju þá alla vega styrkinn þannig að þeir væru ekki hreinlega fyrir utan kerfið, skildir eftir, bara vegna þess að þeir duttu kannski út og það af einhverjum smáaurum?