151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

tekjufallsstyrkir.

212. mál
[15:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki annað að segja en að öll þessi skilyrði er hægt að skoða og velta fyrir sér fram og til baka. Við höfum, að mínu áliti, reynt að vera með frekar breiðan faðminn hér heldur en hitt. Eins og kemur fram í áhrifamati frumvarpsins er hægt að reikna sig upp í allt að 14,5 milljarða. Það eru auðvitað gríðarleg tala í öllu samhengi. Við erum farin úr því að ræða um lánveitingar, mögulega með ríkisábyrgð í gegnum fjármálakerfið, sem við vorum að gera í vor og gekk svo sem ágætlega, og frá því að tala um að greiða hluta af launakostnaði en gegn því skilyrði að launamanni sé ekki gert að mæta til vinnu. Við höfum sömuleiðis verið að taka þátt í uppsagnartímabili eða sem sagt kostnaði við uppsögn starfsmanna. Þetta eru allt úrræði sem lýsa grafalvarlegri stöðu en mjög miklum vilja til þess að standa með launafólki og reyna að halda rekstri lifandi.

Það er næstum því að verða eðlisbreyting á úrræðum ríkisstjórnarinnar þegar við nú teflum fram úrræði sem getur mögulega farið upp í á annan tug milljarða þar sem við segjum: Það er komið að því að greiða bara út beina styrki vegna tekjufalls. Þetta er alveg ofboðslega stórt skref og lýsir því hversu stór vandinn er sem við er að etja. Hvort skilyrðin hafi verið stillt nákvæmlega rétt má örugglega ræða og ég vonast til að um leið og málið vinnist hratt hér í þinginu gefist tími til að hlusta eftir sjónarmiðum einmitt um þetta.