151. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2020.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

202. mál
[15:59]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist. Í frumvarpinu er lögð til breyting á skilyrði fyrir endurgreiðslu á útgáfu hljóðritunar en lagt er til að samanlagður spilunartími tónlistarhljóðritana miðist við 14 mínútur í stað 30 mínútna, líkt og gildandi lög gera ráð fyrir. Með þessari breytingu er stutt við innlendan tónlistariðnað, útgefendur og listamenn með því að fjölga hljóðritunum sem falla undir skilyrði 5. gr. laganna.

Tildrög frumvarpsins má m.a. rekja til örs vaxtar í íslenskum tónlistariðnaði. Greinin gefur af sér umtalsverðan fjölda starfa á ársgrundvelli. Þá hafa breyttar markaðsaðstæður og breytt rekstrarumhverfi áhrif en undanfarið hefur fjöldi tónlistarmanna kosið að gefa út stök lög, eða stuttskífu í stað breiðskífu, til að vekja athygli á listsköpun sinni eða nýrri plötu. Í daglegu tali er vísað til stuttskífu sem hljómplötu sem inniheldur fleiri en eitt lag, oft fjögur til sex, en er þó innan við hefðbundinn 30 mínútna hljóðritunartíma breiðskífu. Þá er meðallengd dægurlaga styttri nú en áður, eða þrjár mínútur og þrjátíu sekúndur í stað fjögurra mínútna fyrir tuttugu árum. Ástæða þess er almennt talin vera sú að neysla tónlistar hefur færst yfir á streymisveitur þar sem uppgjör á skiptingu verðmæta fer eftir fjölda spilana.

Með frumvarpi þessu er lagt til að samanlagður spilunartími tónlistar hljóðritana miðist við 14 mínútur í stað 30. Með því er komið til móts við þarfir útgefenda og listamanna í kjölfar breyttra markaðsaðstæðna og rekstrarumhverfis. Viðmið endurgreiðsluhæfrar útgáfu yrði því að lágmarki fjögur lög af meðallengd.

Eins og ég hef komið inn á er frumvarpið ívilnandi fyrir útgefendur og tónlistarmenn hér á landi. Frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda þann 14. september síðastliðinn. Umsagnaraðilar voru STEF, Alda Music, ÚTÓN og Tónlistarborgin Reykjavík. Allir umsagnaraðilar tóku undir þá tillögu frumvarpsins að samanlagður spilunartími tónlistar yrði lækkaður í 14 mínútur.

Verði frumvarpið að lögum má búast við að árleg heildarupphæð endurgreiðslu geti hækkað lítillega, einkum vegna þess að fleiri verkefni muni ná tilskildum viðmiðunarmörkum en áður. Til lengri tíma litið má þó ætla að fyrirhuguð breyting hafi í för með sér tíðari endurgreiðslur frekar en hærri upphæðir. Fjármunir sem hafa verið ætlaðir til endurgreiðslnanna hafa til þessa ekki verið fullnýttir. Því er ekki þörf á viðbótarfjármagni þrátt fyrir að þessi breyting nái fram að ganga. Gangi áformin eftir munu þau þar af leiðandi ekki hafa fjárhagsáhrif á ríkissjóð.

Frumvarpið kallar ekki á breytingar á öðrum lögum og hefur verið unnið í góðu samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar til umfjöllunar.